2003-11-26 01:31:20# 130. lþ. 33.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., VF
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 130. lþ.

[25:31]

Valdimar L. Friðriksson:

Hæstv. þingforseti. Ég ætlaði aðallega að ræða um íþróttamál og löggæslu en get ekki orða bundist vegna ræðu hv. þm. Birkis J. Jónssonar varðandi málefni fatlaðra. Það vill þannig til að sá sem hér stendur hefur starfað á sambýli síðustu 14 árin og kynnst þessum málum af eigin raun og ef Framsókn ætlar að fara að hæla sér fyrir að taka þar vel til hendinni er það einfaldlega vegna þess að málefni fatlaðra eru í rúst eftir ráðherra Framsfl. Þetta er staðreynd.

Hæstv. forseti. Ég ætla að minnast hér aðeins á íþróttamálin. Fyrir þinginu liggja brtt. fjárln. við greinar 02-898 Ýmis íþróttamál og 02-988 Æskulýðsmál. Lögð er til hækkun til Íþrótta- og ólympíusambands Íslands um 15 millj. vegna þátttöku í sumarólympíuleikunum í Aþenu 2004 og svo er viðbót vegna gerðra sparkvalla í samvinnu við KSÍ upp á 30 millj. kr. Loks er líka hækkun til Ungmennafélags Íslands um 10 millj. vegna unglingalandsmóts sumarið 2004. Allar þessar aðgerðir verða að teljast jákvæðar en ég hefði frekar viljað sjá hærri fjárhæðir í þessum tilfellum.

Varðandi unglingalandsmót ungmennafélaganna er hér um íþróttamót að ræða sem er jafnframt mikið forvarnaverkefni. Það hefur sannað sig, einkum og sér í lagi síðustu árin, sem afskaplega hentugt vímuefnalaust verkefni fyrir unglinga, jafnt sem alla fjölskylduna. Þetta mót er haldið um verslunarmannahelgi en ég verð að segja að sú staðreynd veldur mér áhyggjum að sýslumannsembættið ákvað í sumar að leggja aukakostnað vegna löggæslu á unglingalandsmót. Maður spyr sig því hvort þetta sé það sem koma skuli, að unglingalandsmót UMFÍ og önnur íþróttamót verði skattlögð í formi löggæslukostnaðar. Þar þykir mér yfirvaldið komið á frekar hættulega braut.

Fjárln. fékk jafnframt beiðni frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands varðandi fjárveitingu til sérsambanda ÍSÍ. Í bréfi frá ÍSÍ segir, með leyfi forseta:

,,Með bréfi þessu óskar ÍSÍ eftir 60 millj. kr. framlagi til rekstrar sérsambanda ÍSÍ. Með þessu móti gæti rekstrargrundvöllur tuttugu og fjögurra sérsambanda ÍSÍ verið tryggður.``

Það verða að teljast vonbrigði, frú forseti, að meiri hluti fjárln. hafi ekki séð ástæðu til að verða við þessari beiðni. Ég skora á nefndina að endurskoða þessa ákvörðun sína fyrir 3. umr. fjárlaga. Það verður sífellt erfiðara að reka þessi sérsambönd með sjálfboðaliðum og betli, sérstaklega ef þau eiga að geta uppfyllt allar þær kröfur sem þjóðin leggur á þau í formi útbreiðslu-, fræðslu- og forvarnastarfs og þátttöku þjóðarinnar í alþjóðlegum íþróttakeppnum. Það er ljóst að í framtíðinni verður ríkisvaldið að koma til með föst fjárframlög.

Það er eitt varðandi íþróttahreyfinguna sem við verðum að gera okkur grein fyrir og það er stærðin. Við erum að tala hér um landssamtök sem í eru 148 þús. félagsmenn, með veltu árið 2002 upp á 5,8 milljarða.

Áðan var minnst á ferðakostnað hjá íþróttafélögum og get ég upplýst það hér að ferðakostnaður er um 900 millj. á ári. Þar standa íþróttafélög og íþróttaiðkendur misvel að vígi eftir búsetu, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu greiðir eitt félag kannski 3 millj. á ári í ferðakostnað á meðan félög úti á landi greiða allt að 25 millj. á ári. Það er ljóst, frú forseti, að það þarf að nást samkomulag milli ríkisvaldsins og íþróttahreyfingarinnar í þessum efnum.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson minntist áðan á löggæslumál. Fjárln. fékk frá Mosfellsbæ ágætismöppu með nokkrum áhersluatriðum þar sem m.a. er ítrekuð beiðni um auknar fjárveitingar til lögreglunnar í Reykjavík til að hægt sé að auka löggæsluna í Mosfellsbæ. Ég sé ekkert um þetta í fjárlagafrv. en Mosfellsbær er ört vaxandi sveitarfélag og taldi 1. október sl. 6.553 íbúa og þar af eru íbúar 25 ára og yngri tæplega 2.600. Í dag er málum þannig háttað í löggæslu í Mosfellsbæ að hún er takmörkuð við 8--17 á virkum dögum og hún er engin um helgar. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þetta ástand er algjörlega óviðunandi.