Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 13:36:46 (2137)

2003-11-26 13:36:46# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrv. sem ríkisstjórnin lagði fram í upphafi þings kemur nú til atkvæðagreiðslu við 2. umr. eftir meðferð í hv. fjárln. Ríkisstjórn og meiri hluti Framsfl. og Sjálfstfl. heldur enn til streitu tillögum sínum um að skerða rétt til atvinnuleysisbóta og auka kostnaðarhlutdeild þeirra sem þurfa að leita læknis, kaupa lyf eða fá hjálpartæki. Það eru sjúklingar og atvinnulausir sem eiga að bera uppi sparnað ríkisins.

Það væri nær að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að taka á fákeppni eða einokun í lyfsölu og knýja þar fram verðlækkanir og réttarbætur til þeirra sem þurfa að kaupa lyf. Eina skattalækkunin sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir er lækkun hátekjuskatts en hlutfallsleg skattbyrði er aukin á almennu launafólki og þeim sem lægstar hafa tekjur. Þetta er andstætt stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem berst fyrir jöfnuði, samhjálp og velferð þegna þjóðfélagsins.

Meiri hlutinn í fjárln. hefur lagt fram allnokkrar brtt. við frv. til fjárlaga og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum styðja þær einstaka tillögur sem okkur þykir horfa til bóta með og vera til jöfnunar, tillögur sem auka hlut þeirra sem við viljum styrkja og hlúa að í samfélaginu.

Við munum sitja hjá við þær tillögur sem við viljum vísa algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og munum greiða atkvæði gegn þeim tillögum sem ganga þvert á stefnumið Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa flutt allnokkrar brtt. við frv. sem ætlað er að taka á allra veikustu þáttum þess sem meiri hlutinn leggur fram. Þær undirstrika jafnframt stefnu flokksins í umhverfismálum, í velferðarmálum og atvinnumálum. Við vonumst til að þær breytingar fái gott brautargengi. Einstaka tillögur geta þó verið kallaðar til baka til 3. umr. eftir atvikum.

Virðulegi forseti. Ljóst er að enn vantar veigamikla liði inn í gjaldahlið frv. Eftir er að færa inn niðurstöðutölur og sundurliðun á fjármagnsþörf, t.d. heilbrigðisþjónustunnar, framhaldsskólanna og háskólanna. Jafnframt á eftir að taka á fjárhagsvanda sveitarfélaganna.

Þessa þætti og ýmsa fleiri verður að skoða í fjárln. fyrir 3. umr

Virðulegi forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu sitja hjá við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. við 2. umr. og vísa ábyrgðinni í heild sinni til meiri hluta Alþingis sem ráðið hefur ferð við fjárlagagerðina.