Fjárlög 2004

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 14:33:33 (2156)

2003-11-26 14:33:33# 130. lþ. 34.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 130. lþ.

[14:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Á þessu ári hefur farið fram einkennileg sýning varðandi framlög til vegamála, framkvæmda í vegagerð í landinu, því að í upphafi ársins blés ríkisstjórnin í lúðra og boðaði stórauknar framkvæmdir sem var vel og fagnað af flestum. En núna við afgreiðslu fjárlaga síðar á sama ári á aftur á móti að skerða þetta framkvæmdafé að verulegu leyti til baka. Þess sér fyrst og fremst stað í þessum b-lið 57. töluliðar þar sem lækka á framkvæmdafé Vegagerðar ríkisins um 850 millj. kr.

Við sjáum engin rök fyrir þessari skerðingu og teljum líka í ljósi þess að ekki liggja fyrir neinar tillögur um hvar borið verði niður og að Alþingi hefur nýlega afgreitt vegáætlun að þetta sé hringl og ólíðandi vinnubrögð. Við leggjumst því gegn því að þetta framkvæmdafé Vegagerðarinnar verði skert með þessum hætti.