Aðgerðir gegn einelti

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:03:33 (2166)

2003-11-26 15:03:33# 130. lþ. 35.1 fundur 320. mál: #A aðgerðir gegn einelti# fsp. (til munnl.) frá félmrh., GÖg
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur lagt fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. þar sem hún spyr nokkurra spurninga er varða einelti og ber ég hana fram fyrir hennar hönd.

Einelti er sem betur fer komið upp á yfirborðið. Íþróttafélög, skólar, verkalýðshreyfing og allir aðrir vilja leggjast á eitt til að uppræta og koma í veg fyrir einelti. Um þessar mundir sjáum við í blöðunum að rætt er um málið innan verkalýðshreyfingarinnar og vísa má til samnings sem var undirritaður í Hafnarfirði í gær. En til þess að árangur náist þarf góðan vilja, fjármuni og samstarf margra aðila. Það þarf að skoða, skilgreina, styðja og hvetja ef við ætlum að ná árangri.

Vinnustaðaeinelti er komið til umræðu og umræðan um einelti barna er afar mikilvæg. Þar má ekki gleymast hlutur foreldra en hann er gríðarlega mikilvægur. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og það skal ítrekað að veruleikinn er sá að bæði þolendur og gerendur í þessum málum eiga foreldra. Því er mjög mikilvægt að samræma aðgerðir og að samræður séu milli þessara aðila.

Hér er ég með tvær spurningar sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir lagði fyrir hæstv. félmrh.:

1. Hafa ráðuneytin sameinast um könnun á umfangi eineltis hér á landi? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að slík könnun verði gerð og koma með tillögur um úrbætur?

2. Telur ráðherra að breyta þurfi og herða ákvæði laga sem lúta að einelti á vinnustöðum? Ef svo er, í hverju felast þær breytingar?

3. Er samræmd vinna milli ráðuneyta um fræðslu og viðbrögð gegn einelti á vinnustöðum ríkisins?

4. Hyggst ráðherra styrkja starf samtakanna Regnbogabörn frekar en gert hefur verið? Ef svo er, á hvern hátt?

5. Mun ráðherra beita sér fyrir formlegu samstarfi ráðuneytis, sveitarfélaga og samtakanna Regnbogabörn svo að byggja megi starf samtakanna upp í hverjum landsfjórðungi?

Það er afar mikilvægt að fram komi að vandamálin eru ekki bara á höfuðborgarsvæðinu þó að þau vilji oft loða frekar við stærri skóla. Kannski er betra að fela eineltið þar en í minni skólum. En það er afar mikilvægt að félagsþjónusta og skólayfirvöld, sem hvor tveggja eru á hendi sveitarfélaganna, taki sig saman og byggi upp góðan stuðning við þá sérfræðinga sem í boði eru fyrir tilstuðlan Regnbogabarna. Ég vona að hæstv. félmrh. veiti skýr svör í þessu mikilvæga máli.