Aðgerðir gegn einelti

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:06:21 (2167)

2003-11-26 15:06:21# 130. lþ. 35.1 fundur 320. mál: #A aðgerðir gegn einelti# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspurnina. Fyrst er spurt hvort ráðuneyti hafi sameinast um könnun á umfangi eineltis hér á landi.

Ég vil fyrst segja að einelti getur víða átt sér stað í samfélaginu, í skólaumhverfi, vinnustöðum, við tómstundastarf og í samfélaginu almennt. Hugtakið hefur verið skilgreint þannig að þegar einstaklingur verður aftur og aftur fyrir neikvæðu og óþægilegu áreiti eins eða fleiri og á erfitt með að verja sig þá sé um einelti að ræða.

Einstaklingur sem verður fyrir einelti verður öryggislaus, einmana og tortrygginn gagnvart félögum og umhverfinu almennt. Langvarandi einelti veldur streitu sem getur leitt til alvarlegra vandamála, t.d. mikillar neikvæðrar hegðunar, lystarleysis og þunglyndis, svo að eitthvað sé nefnt. Ýmsar kannanir hafa verið gerðar á umfangi eineltis og er t.d. gert ráð fyrir því að um 5.000 einstaklingar á grunnskólaaldri verði fyrir einelti á hverju ári. Einnig virðast rannsóknir sýna að tíðnin aukist með aldrinum. Menntmrn. hefur frá árinu 1998 verið með umtalsvert átak í að vinna gegn einelti í skólum. Þar er unnið eftir samræmdri áætlanagerð sem mun ljúka í lok næsta árs og nær þá til helmings skólabarna á landinu. Að öðru leyti vísa ég til menntmrn. varðandi frekari umfjöllun um það átak.

Umboðsmaður barna hefur látið sig eineltismál miklu varða og stóð m.a. fyrir ráðstefnu í október 1998 og gaf út skýrslu í framhaldi af henni um einelti þar sem helstu niðurstöður ráðstefnunnar birtust. Ráðuneytin hafa ekki sameinast um sérstaka könnun á umfangi eineltis þar sem gera má ráð fyrir að almennar upplýsingar um eineltið liggi að mestu fyrir í þeim gögnum sem áður eru nefnd.

Í öðru lagi er spurt hvort ráðherra telji að breyta þurfi og herða ákvæði laga sem lúta að einelti á vinnustöðum og ef svo er, í hverju þær breytingar felist.

Ákvæði um einelti eru nýmæli í löggjöf og alþjóðasamningum. Slík ákvæði voru ekki tekin upp í löggjöf á Norðurlöndunum fyrr en á 10. áratugnum. Endurskoðuð gerð félagsmálasáttmála Evrópu frá 1996 er fyrsti alþjóðasamningurinn sem vitað er til að hafi ákvæði um einelti og aðra óviðurkvæmilega framkomu á vinnustað.

Þótt ákvæði um aðgerðir gegn einelti hafi ekki verið í vinnuverndarlögunum fyrr en í vor er ekki þar með sagt að Vinnueftirlitið hafi leitt þau mál hjá sér. Þvert á móti hefur margt verið gert. Fyrst vil ég nefna að Vinnueftirlitið hefur undanfarin ár beitt sér fyrir aðgerðum gegn einelti, t.d. með útgáfu leiðbeininga, þeim fyrstu fyrir um tíu árum síðan.

Á undanförnum árum hefur áhersla á sálfélagslega áhættuþætti aukist bæði við forvarnir og í daglegu eftirliti. Þegar eftirlitinu berast kvartanir um einelti eru mál rannsökuð eftir föngum og kröfum um aðgerðir gegn einelti beint að eigendum og stjórnendum á sama hátt og með önnur atriði er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Ég tel að málin séu komin í ákveðinn farveg hvað þetta varðar, þ.e. aðgerðir af hálfu hins opinbera gegn einelti á vinnustöðum. Hins vegar er ljóst að það er ekki farið að reyna á nýtt ákvæði í vinnuverndarlögunum um einelti. Þar af leiðandi svara ég neitandi spurningunni um hvort breyta þurfi ákvæðum laga um þetta efni sérstaklega.

Í þriðja lagi er spurt hvort samræmd vinna sé milli ráðuneyta um fræðslu og viðbrögð gegn einelti á vinnustöðum ríkisins. Þeirri spurningu verð ég líka að svara neitandi en ég vil jafnframt undirstrika að nokkrum málum hefur þegar verið beint til Vinnueftirlitsins, bæði af einkafyrirtækjum og fyrirtækjum á vegum hins opinbera. Vinnueftirlitið hefur eftir föngum reynt að leysa þau í samvinnu við alla hlutaðeigandi en það verður þó að undirstrika að mál af þessu tagi eru oftar en ekki snúin og torleyst.

Í fjórða lagi er spurt hvort ráðherra hyggist styrkja störf samtakanna Regnbogabarna frekar en gert hefur verið og ef svo sé þá á hvern hátt.

Það óeigingjarna starf sem hin nýstofnuðu fjöldasamtök Regnbogabörn hafa sinnt frá því í febrúar sl. hefur vakið athygli mína eins og margra annarra. Samtökin starfrækja þjónustumiðstöð í Hafnarfirði þangað sem einstaklingar geta leitað og óskað eftir aðstoð. Markmið Regnbogabarna er að koma í veg fyrir einelti, grípa inn í einelti og koma í veg fyrir áhrif þess ásamt því að veita þjónustu þeim sem hlotið hafa skaða af einelti. Félmrn. hefur komið að verkefnum Regnbogabarna með 3 millj. kr. framlagi á þessu ári auk þess sem félmrh. styrkti samtökin sérstaklega með 1 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu. Í því fjárlagafrv. sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er gert ráð fyrir að auka þennan styrk til samtakanna í 5 millj. kr. Ég hef áhuga á að styðja við þetta frumkvæði Regnbogabarna og mun því fylgjast náið með framvindu verkefnisins og meta hvort og á hvern hátt félmrn. kemur frekar að því þegar árangurinn af því hefur verið metinn og ársskýrsla fyrir fyrsta starfsár liggur fyrir.

Í síðasta lagi er spurt hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir formlegu samstarfi ráðuneytis, sveitarfélaga og samtakanna Regnbogabarna þannig að byggja megi upp í hverjum landsfjórðungi starf samtakanna gegn einelti.

Eins og fram kemur í svörum mínum að framan vinna margir óeigingjarnt starf í þágu þeirra sem orðið hafa fyrir einelti. Regnbogabörn hafa komið inn í þessa þjónustukeðju til að styrkja það starf sem unnið er. Ég met það svo að reynslan af starfi Regnbogabarna verði að skera úr um í hvaða farveg starfið mun leita. Samtökin eru að stíga sín fyrstu spor, góð spor og vonandi gæfurík, og vilja vafalaust taka mið af þeirri reynslu þegar þau marka sér stefnu til framtíðar. Ég mun fylgjast náið með því.