Aðgerðir gegn einelti

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:14:57 (2170)

2003-11-26 15:14:57# 130. lþ. 35.1 fundur 320. mál: #A aðgerðir gegn einelti# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda varðandi það að starf Regnbogabarna, Heimilis og skóla og fleiri sem hafa látið sig eineltismálin miklu varða sé mjög mikilvægt.

Hér höfum við líka fjallað um einelti á vinnustöðum og í því sambandi er ástæða til að rifja upp að í þeim könnunum sem gerðar hafa verið hefur komið í ljós að t.d. hjá bönkum og sparisjóðum hafa 15% starfsmanna orðið fyrir áreitni af ýmsu tagi. Meðal starfsfólks á öldrunarstofnunum höfðu um 12% orðið fyrir ýmiss konar einelti og 14% starfsfólks á leikskólum í Reykjavík hafði sömu sögu að segja. Þetta böl birtist því miður í ýmsum myndum í samfélagi okkar og full ástæða til að taka höndum saman um að berjast gegn því.