Barnaverndarmál

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:16:05 (2171)

2003-11-26 15:16:05# 130. lþ. 35.2 fundur 327. mál: #A barnaverndarmál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GÖg
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Ögmundsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn mín er ekki stór í sniðum en kannski eru þeim mun meiri vangaveltur á bak við hana. Hún hljóðar svo, hæstv. forseti:

Er hafinn undirbúningur að því að flytja málefni barnaverndar frá sveitarfélögunum til ríkisins? Ef svo er, hvað líður þeirri vinnu?

Það skal alveg játað hér af hverju þessi fyrirspurn er lögð fram. Hún er í tilefni af því að haldinn var miðstjórnarfundur hjá Framsfl. og af því að það er Framsfl. sem fer með þetta ráðuneyti og þar kom fram umræða af þessu tagi þar sem aðeins var bryddað upp á þessum vangaveltum.

Ég fer ekki ofan af því að barnavernd er einn af almikilvægustu þáttum í starfi sveitarfélaganna. Við erum með ný barnaverndarlög sem 100% samstaða var um í þinginu. Þess vegna er mjög mikilvægt að við fáum kortlagt hvort það sé eitthvað til í þessu því ég held að það sé mjög erfitt fyrir marga að sjá hvernig þetta ætti að verða ef ríkið tæki þessi mál yfir og við værum þá bara með barnavernd ríkisins, því það er alltaf svo að mál munu flytjast á milli svæða en það var ein af undirrótum þessarar umræðu að það þyrfti að byrja á málum upp á nýtt ef þau flyttust á milli svæða. Svo er auðvitað ekki, herra forseti. Það getur auðvitað verið að í einhverjum vinnslufasa eða vanrækslufasa hjá einhverju sveitarfélagi eða einhverri nefnd geti þau komið misundirbúin. En það er ekki svo að það þurfi alltaf að byrja á núllpunkti þannig að ég vil bara leiðrétta þá umræðu sem á sér stað í samfélaginu. Það er líka dálítið ankannalegt að heyra þessa umræðu í ljósi þess að það er alltaf verið að tala um að sveitarfélögin eigi að fá aukin verkefni.

Það er líka rétt að benda á það að fyrir tveimur eða þremur árum var lagt fram mjög gott frv. um ný félagsþjónustulög. Mig langar líka í framhaldi af því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þau mál séu enn á döfinni í ráðuneytinu, hvort von sé á slíku frv. aftur því þar var nefnilega tekið verulega á varðandi sértæk úrræði og úrræði til stuðnings við barnaverndarnefndir í héraði þannig að það er eitthvað sem á að hugsa til viðbótar í stað þess kannski að velta upp þeirri hugmynd að flytja þetta yfir til ríkisins. Þannig að þar liggja margir möguleikar og mjög mikil samþætting milli barnaverndar og sveitarstjórnar. Hins vegar hefur verið umræða um meðferðarheimilin og vistunarúrræðin. Ég vil samt meina að það sé mjög mikilvægt fyrir stærri sveitarfélög að hafa þau á forræði sínu því það er eðli málsins að bregðast við að nóttu sem degi þannig að úrræðin verða að vera í nærsamfélaginu. Ég tel það afar mikilvægt. Mig langar því, herra forseti, að hæstv. félmrh. svari þessum vangaveltum mínum og þeim spurningum sem upp hafa komið og eins að hann bæti kannski örlítið við varðandi lög um félagsþjónustu sveitarfélaga.