Barnaverndarmál

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:24:11 (2173)

2003-11-26 15:24:11# 130. lþ. 35.2 fundur 327. mál: #A barnaverndarmál# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa fyrirspurn sem kom hér fram um barnaverndarlögin og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vildi aðeins koma því inn í umræðuna að það er aðeins rúmt ár síðan núverandi barnaverndarlög tóku gildi. Ég held að það sé full ástæða til þess að láta reyna á þau úrræði sem þar var breytt til þess að fást við þessi mikilvægu málefni vegna þess að barnaverndarlög og umfjöllun um þau er auðvitað alltaf afskaplega viðkvæm.

Eitt af því sem breytt var í síðustu barnaverndarlögum var að stækka svæði það sem hver barnaverndarnefnd hefði, þ.e. að á bak við hverja barnaverndarnefnd yrðu að lágmarki 1.500 íbúar. Markmiðið með því var að það yrðu fleiri úrræði fyrir barnaverndarnefndir til þess að leita til sérfræðinga en Barnaverndarstofa yrði síðan til þess að leiðbeina nefndunum. Og ég held, hæstv. forseti að á þetta þurfi að reyna.