Málefni geðsjúkra

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:32:01 (2177)

2003-11-26 15:32:01# 130. lþ. 35.3 fundur 288. mál: #A málefni geðsjúkra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur hjá fyrirspyrjanda er ekki langt síðan ég svaraði svipuðum fyrirspurnum frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Annars vegar spyr hv. þm. um færanlegt teymi fagfólks til að sinna geðsjúkum og hins vegar um áform um lokaða geðdeild fyrir erfiðustu sjúklingana.

Innan skamms munu hefjast störf færanlegs teymis fagfólks til að sinna geðsjúkum. Fagteymið mun byggja á samstarfi við heilsugæsluna í Reykjavík og geðdeildir. Því er ætlað að sinna geðhjúkrun þeirra sem dvalist hafa á geðdeild og styðja við þá þannig að þeir geti dvalið sem lengst utan geðdeildar. Ég hef miklar væntingar til þess að hér geti verið um mikla framför að ræða í þjónustu við þennan hóp.

Sem kunnugt er skipaði ríkisstjórnin nefnd þriggja ráðuneyta í lok síðasta árs sem var ætlað að koma með tillögur um úrræði fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga. Nefndin skilaði tillögum á vormánuðum. Ein af aðaltillögum nefndarinnar var að komið yrði á laggirnar geðdeild sem teldist millistig á milli hefðbundinnar geðdeildar og réttargeðdeildarinnar á Sogni til að mæta brýnni þörf á vistunarúrræðum fyrir tiltölulega fámennan hóp einstaklinga sem haldnir væru geðsjúkdómum sem erfitt væri að meðhöndla og teldust jafnvel hættulegir sjálfum sér og öðrum.

Ríkisstjórnin féllst á þessa tillögu nefndarinnar. Liggja því nú í fjárlagatillögum beiðnir um fé fyrir slíka stofnun. Ég hef nýlega falið Landspítala -- háskólasjúkrahúsi að hrinda í framkvæmd þessum þætti tillagnanna og á von á að mér berist tillögur frá Landspítalanum um það fyrir lok þessa árs.

Það er einnig von mín að samhliða opnun slíkrar deildar, ég vinn að því, verði sett á laggirnar annað teymi fagfólks samkvæmt tillögum áðurnefndrar nefndar sem virkjuð yrði sem þverfaglegur hópur sérfræðinga frá hinum ýmsu þjónustukerfum sem gætu brugðist heildstætt við alvarlegum bráðavanda alvarlega geðsjúkra einstaklinga. Það er annað teymi en ég hef áður nefnt sem mundi starfa við mun afmarkaðri verkefni.

Eins og ég hef áður getið um liggja fyrir í fjárlagafrv. tillögur um fjárveitingar til lokaðrar deildar af þessu tagi. Bind ég vonir við að undirbúningi verði lokið á síðari hluta næsta árs og deildin geti þá tekið til starfa.

Herra forseti. Ég vona að þetta svari spurningum hv. þm.