Málefni geðsjúkra

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:34:51 (2178)

2003-11-26 15:34:51# 130. lþ. 35.3 fundur 288. mál: #A málefni geðsjúkra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:34]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Frú forseti. Þetta svarar fyrirspurninni og henni var að hluta svarað í fjárlagagerðinni. Það er ánægjulegt að heyra hve mikinn skilning hæstv. ráðherra sýnir þessum málaflokki og að uppi séu hugmyndir um að bæta enn frekar þjónustuna og koma á nýju teymi sem mér skilst að geti verið svipað því sem sett hefur verið á laggirnar til að sinna alvarlega sjúkum börnum. Þessi þverfaglegu teymi taka á afmörkuðum verkefnum. Ég tel að það sé til góðs.

Frú forseti. Ég vil leggja til að farið verði ofan í skilgreiningar á hugtökum svo að hugtökin sem slík rugli ekki verkaskiptingu á milli Sogns og þessarar lokuðu deildar. Það er oft stutt bil á milli þess að vera sakhæfur og ósakhæfur. Það er t.d. hægt að vera ósakhæfur tímabundið. Það er ekki hrein lína þarna á milli en ég tel rétt að Sogn flokkist sem réttargeðdeild og sé þá fyrir þá einstaklinga sem eru geðveikir og hafa brotið lögin hvort heldur þeir eru sakhæfir eða ósakhæfir. Það þarf að vera alveg ljóst á hvorum staðnum þeir eiga að fá þjónustu. Eins er spurning hvort við köllum hitt lokaða deild eða öryggisdeild. Öryggisdeild er trúlega mildara hugtak. En réttargeðdeildina tel ég að við ættum að hafa á Sogni og er nauðsynlegt að auka þjónustu þar á þeim forsendum.