Meðlagsgreiðslur vegna barna erlendis

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:39:32 (2180)

2003-11-26 15:39:32# 130. lþ. 35.4 fundur 318. mál: #A meðlagsgreiðslur vegna barna erlendis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt meðlag til íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis ef meðlagsgreiðandi er búsettur á Íslandi. Um síðustu mánaðamót, 1. nóvember, varð breyting á þessu þegar ný barnalög tóku gildi. Þá hætti stofnunin að greiða meðlögin til útlanda. Þann 7. október sl. var sent út bréf um þetta efni til þeirra foreldra sem áttu von á meðlagsgreiðslum. Bréfin voru að berast fram eftir októbermánuði um að meðlagsgreiðslan kæmi ekki um mánaðamótin. Sömuleiðis kom fram á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins þann 15. október frétt um þetta efni.

Það tekur nokkurn tíma að koma á greiðslum að nýju og er mjög mismunandi eftir löndum hvernig þessu er háttað. Foreldrar íslensku barnanna erlendis þurftu að fá meðlagsúrskurð sendan og sækja síðan um greiðslur, sums staðar frá sveitarfélögum og annars staðar frá öðrum stofnunum, t.d. í Finnlandi. Í löndum sem við erum ekki með gagnkvæma samninga við þurftu foreldrarnir að leita réttar síns. Það var greinilega farið allt of seint af stað með þetta mál sem hefur haft það í för með sér að mörg hundruð börn, ef mínar upplýsingar eru réttar, fengu ekki framfærslu sl. mánaðamót frá meðlagsskyldu foreldri og fá e.t.v. ekki þá greiðslu um næstu mánaðarmót. Ég verð að segja að það munar um þessar upphæðir þó að þær séu ekki háar.

Ég veit einnig um að ekki fékkst bréf á Norðurlandamáli frá Tryggingastofnun ríkisins fyrr en í byrjun nóvember, nokkru eftir að greiðsla hefði átt að berast, þ.e. bréf sem óskaði eftir greiðslum frá viðkomandi landi. Þessi aðgerð hefði af hálfu Tryggingastofnun þurft að fara af stað miklu fyrr.

Sum nágrannalönd okkar greiða hins vegar mun lægri upphæð en þær 15.500 kr. sem meðlagið er nú ef meðlagsgreiðandi er ekki í skilum. Þetta hefur valdið verulegu óhagræði og fjárhagslegum óþægindum hjá viðkomandi barnafólki erlendis. Á vef Tryggingastofnunar ríkisins eru fínar upplýsingar og leiðbeiningar til foreldra sem ekki fá meðlag um hvernig þeir eigi að bera sig að. En þær upplýsingar eru allt of seint á ferðinni. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni bregðast eitthvað frekar við því ástandi sem ríkir eftir að þessi staða er komin upp. Veit hann t.d. hversu mörg börn er um að ræða og hversu marga foreldra?