Sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 18:11:02 (2193)

2003-11-26 18:11:02# 130. lþ. 35.6 fundur 315. mál: #A sala á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég held að okkur öllum og þjóðinni allri blöskri það ráðslag að gefa bankana út úr hendi eins og hér er. Gróði þeirra á þessu ári nemur nærri helmingi af söluverði þeirra. Hvers konar ráðslag er þetta? Þar fyrir utan eru svörin hjá hæstv. ráðherra óljós, hún gefur upp söluverðið í dollurum en afslátturinn er í íslenskum krónum. Ég vil fá bæði samningsverðið og söluverðið í íslenskum krónum á báðum bönkunum, dagsett.

Það er líka annað sem var tengt sölu bankanna. Andvirðið átti að renna til sérstaks átaks vegna atvinnusköpunar, vegagerðar og þess háttar. Sala bankanna var á sínum tíma rökstudd með því að það fjármagn ætti að fara til þess. En núna er það bara reiknað í dollurum og millifærslum erlendis.

Virðulegi forseti. Þessi bankasala er fullkomið hneyksli. Ég er viss um að ef hæstv. ráðherra legði heimilisbókhaldið sitt undir svona ráðslag ætti ráðherrann varla fyrir salti í grautinn á morgun. Ég verð að lýsa því, virðulegi forseti, að bæði eru svörin ófullkomin og þetta ráðslag aldeilis forkastanlegt. Var engin leið, úr því að ekki var búið að borga bankana, að ná einhverju af þessum gríðarlega hagnaði inn? Hæstv. ráðherra sagði að bankarnir væru ekki að fullu greiddir enn, þeir yrðu greiddir í desember. Ég vil fá að vita hve mikið er enn ógreitt af bönkunum og dagsetninguna á því þegar það á allt að vera að fullu greitt.