Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:37:02 (2198)

2003-11-27 10:37:02# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Hvað er verið að gera hjá Ríkisútvarpinu í dag? Það sem verið er að gera er það að miðstýra á öllu fréttaefni þrátt fyrir að flestir sem þar starfa séu sammála um að þess þurfi ekki, vegna þess að allir fréttatengdir þættir, þeir sem stjórna slíkum þáttum vinna undir ákveðnum vinnureglum. Hvað er ríkisstjórnin að gera með tillögum sínum í útvarpsráði? Hvað er hæstv. dómsmrh., sem vissulega hefur komið að þessu máli og tjáð sig um það, að leggja til? Er hann að leggja til einsleita fréttamennsku? Má ekki ríkja fjölbreytni í fréttaflutningi á Ríkisútvarpinu? Erum við ekki að búa til betra útvarp með því að hafa það fjölbreyttara frekar en einsleitt og allt sett undir sama hattinn?

Ég vil meina að það sem er að gerast í Ríkisútvarpinu sýni tvískinnung ríkisstjórnarinnar þegar kemur að ritstjórnarlegu sjálfstæði, þar sem menn lýsa yfir miklum áhyggjum og vaða hér upp um það að setja þurfi hið snarasta reglur til að sporna við því, en á sama tíma eru þeir sjálfir að stuðla að aukinni ritskoðun á Ríkisútvarpinu. Og því miður, virðulegi forseti, taka báðir stjórnarflokkarnir þátt í þessari herferð í Ríkisútvarpinu. Einar Páll Tamimi, lektor við Háskólann í Reykjavík, sagði á nýafstöðnu þingi Læknafélags Íslands og BHM um tjáningarfrelsið, með leyfi forseta:

,,Músin sem læðist er varasamari en músin sem stekkur. Það eru óbeinar takmarkanir tjáningarfrelsis sem erfiðast er að eiga við og helst þarf að gefa gaum. Illt auga yfirmannsins daginn eftir blaðagreinina. Stöðuhækkanir allra kolleganna --- en ekki þín --- árið eftir umræðuþættina. Skipulagsbreytingarnar sem gerðu þig óþarfan í kjölfar skýrslunnar.``

Virðulegi forseti. Það er vissulega áhyggjuefni fyrir Alþingi sem er að gerast hjá útvarpinu og ég tek undir það að þessa umræðu þarf að taka hér hið snarasta við hæstv. ráðherra sem hafa komið að þessu máli, sem hvorugur er reyndar viðstaddur, hvorugur þeirra er á landinu, hvorki hæstv. menntmrh. né hæstv. dómsmrh. En þetta er vissulega áhyggjuefni og ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að líta í eigin barm áður en hún fer að hafa áhyggjur af frjálsu fjölmiðlunum í landinu.