Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:50:43 (2205)

2003-11-27 10:50:43# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Í tilefni þessarar umræðu er rétt að upplýsa það að eina umræðan sem hefur verið um Ríkisútvarpið innan ríkisstjórnarinnar að undanförnu er hækkun afnotagjalda og umræða utan dagskrár um fjölmiðla almennt og mikilvægi þess að Ríkisútvarpið sé sem sterkust stofnun við þær aðstæður sem eru núna í íslenskum fjölmiðlaheimi. Það er síðan útvarpsráðs að fjalla um það hvernig Ríkisútvarpið er best rekið. Þetta er mér vitanlega ekki í fyrsta skipti sem það verða einhverjar skipulagsbreytingar innan útvarpsins. Þær hafa verið fjölmargar í gegnum tíðina. Ég held að það séu ekki nema nokkrir mánuðir síðan, eftir því sem ég man, að skipulagsbreytingar voru þar innan dyra. Það er því ekkert tilefni til þess hér á Alþingi að beina þessu máli sérstaklega að ríkisstjórninni. Það er eðlilegt að það sé rætt á vettvangi Ríkisútvarpsins þar sem allir stjórnmálaflokkar eiga kjörna fulltrúa. Þannig er búið að þessum málum að Alþingi kýs útvarpsráð og þar er vettvangurinn fyrir þá umæðu. Þess vegna finnst mér þessi umræða algerlega tilefnislaus.