Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:55:56 (2208)

2003-11-27 10:55:56# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, Frsm. meiri hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson, Guðmund Thorlacius, Ólaf Pál Gunnarsson og Elmar Hallgrímsson frá fjármálaráðuneyti, Svein Hannesson og Árna Jóhannesson frá Samtökum iðnaðarins, Sigþrúði Ármann frá Verslunarráði Íslands, Þorleif Þór Jónsson og Gísla Friðjónsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Guðrúnu Johnsen frá Samtökum atvinnulífsins, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðmund Arnaldsson frá Landvara, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Daníel Björnsson frá bifreiðastjórafélaginu Frama, Ásgeir Eiríksson frá Strætó bs. og Knút Halldórsson frá Landssambandi vörubílstjóra.

Þá bárust nefndinni umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Félagi hópferðaleyfishafa, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Verslunarráði Íslands, Samtökum iðnaðarins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, bifreiðastjórafélaginu Frama, Alþýðusambandi Íslands, Strætó bs., Landvara, Akureyrarkaupstað og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á þungaskatti og vörugjaldi af eldsneyti. Þessar breytingar eru í samræmi við tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004.

Hér er lagt til að þessar upphæðir í lögunum verði hækkaðar um ekki alveg helming af þeirri hækkun sem orðið hefur á vísitölu framfærslukostnaðar síðustu fjögur ár. Þannig verði mætt þeirri lækkun sem hefur orðið á þessum skatti miðað við verðlag undanfarin fjögur ár en gjaldið hefur verð óbreytt þann tíma og hefur þannig unnið gegn þeirri hækkun á verðlagi sem hefur orðið almennt í landinu. Þetta er því eðlileg aðlögun að því verðlagi en þó ekki nema að hálfu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir það rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, hv. þm. Gunnar Birgisson, hv. þm. Birgir Ármannsson, og hv. þm. Dagný Jónsdóttir.