Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 11:21:02 (2210)

2003-11-27 11:21:02# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁI
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[11:21]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er lagt til að fast árgjald og kílómetragjald þungaskatts hækki um 8% og lögð er til 8% hækkun á almennu og sérstöku vörugjaldi af eldsneyti. Hækkuninni er ætlað að skila ríkissjóði samtals um 1 milljarði kr. á ári.

Álögur af þessu tagi jafngilda beinni skattahækkun og munu auka útgjöld heimilanna bæði beint og óbeint. Hækkanirnar sem í þessu frumvarpi felast eru liður í 2,2 milljarða kr. skattahækkun á heimilin í landinu í samræmi við tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004. Lýsir Vinstri hreyfingin -- grænt framboð andstöðu við þær fyrirætlanir.

Margir komu á fund efh.- og viðskn. og má segja að allir þeir gestir hafi verið því sammála að of miklar álögur væru á umferðina nú þegar og engin ástæða væri til að hækka sérstaklega þessi gjöld enda hefðu tekjur af þeim til ríkissjóðs vaxið mjög umfram verðlagshækkanir á undangengnum árum vegna þess hve umferðin sjálf hefur vaxið.

Þær álögur sem boðaðar eru í frv. munu að mati hagsmunaaðila sem komu á fund efh.- og viðskn. m.a. þýða að bensínlítrinn hækkar um 4 kr. sem þýðir um 20--25 þús. kr. álögur á hvern bíleiganda á ári. Einnig mun það þýða 2% hækkun flutningsgjalda sem mun renna beint út í verðlagið, einkum á landsbyggðinni, og hækka þar vöruverð sem er nú nógu hátt fyrir. Þetta mun valda versnandi samkeppnisstöðu ferðaþjónustu, hækkun á gjaldskrá almenningsvagna, vörubifreiða og leigubifreiða og loks mun þetta enn þyngja álögur á sveitarfélög sem halda úti almenningssamgöngum og skólaakstri.

Í áliti frá Alþýðusambandi Íslands kemur fram að 8% hækkun á þungaskatti og vörugjaldi af eldsneyti muni hækka vísitölu neysluverðs um 0,12% og auka skuldir heimilanna um tæpan milljarð kr. Í umsögn ASÍ segir, með leyfi forseta:

,,Af athugasemdum við frumvarpið má ráða að meginröksemdafærslan fyrir því að hækka umrædd gjöld sé að þau hafi ekki hækkað í takt við breytingar á neysluverðsvísitölu. Að mati ASÍ fá slík rök ekki staðist. Benda má á að verði frumvarpið samþykkt hefur það í för með sér beina hækkun neysluverðsvísitölu upp á 0,12% auk þess sem búast má við að það leiði til hækkaðs flutningskostnaðar og þar með vöruverðs. Spyrja má hvort slíkt kalli aftur á hækkun gjaldanna.``

Í þessu sambandi langar mig til þess að vitna til orða fulltrúa FÍB sem kom á fund nefndarinnar --- og geri það eftir minni --- þegar hann varaði við sjálfkrafa hækkunum af þessu tagi, því eins og fram hefur komið eru röksemdirnar fyrir þessari hækkun þær að það sé svo langt síðan hækkað var síðast. Hann líkti þeim hugsunarhætti og verðhækkunum af þessu tagi við einstreymisloka sem alltaf skaffar fé miðað við einhverja vísitölu --- og hún er þá bara valin hverju sinni eftir því sem hægt er að hækka meira --- og er algjörlega óháð breytingum, til að mynda tæknibreytingum og mögulegum sparnaði og dregur þess vegna mjög úr hvata til að leita hagkvæmari leiða og nýrra lausna.

Ég verð að taka undir þetta, virðulegi forseti. Það er ekki sjálfgefið að alltaf eigi bara að hækka, ég tala nú ekki um þegar það bítur svo í skottið á sér og veldur aftur hækkun á neysluverðsvísitölu, og allra síst þegar ljóst er að tekjur ríkissjóðs af þessum gjöldum hafa vaxið langt umfram verðlag á undangengnum árum. Að teknu tilliti til fyrirhugaðra framkvæmda á Austurlandi, þá munu tekjur af umferðinni, bara umferðaraukningunni þar, fara mjög langt með að ná þeim tekjum sem ríkissjóður ætlar sér að taka inn án hækkunarinnar.

Í áliti Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra er lýst undrun á þessum fyrirhugaða landsbyggðarskatti sem sambandið kallar svo. Í áliti þeirra segir, með leyfi forseta:

,,Þungaskattur og eldsneytisgjald eru íþyngjandi landsbyggðarskattar og er nú annað þarfara en að auka þá skattlagningu.``

Bæjarráð Akureyrar bendir einnig á að ,,hækkun sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í mótsögn við yfirlýstar fyrirætlanir stjórnvalda um lækkun flutningskostnaðar``.

Í áliti Alþýðusambands Íslands kemur fram að þessar hækkanir muni hafa neikvæðari áhrif á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, einkum á stöðum þar sem erfitt hefur verið að halda uppi verslun og þjónustu. Verði frumvarpið að lögum muni það reynast enn erfiðara að mati Alþýðusambands Íslands.

Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar lýstu því að þessar fyrirhuguðu hækkanir muni hafa slæm áhrif á samkeppnisstöðu greinarinnar og sérstaklega hópbifreiða sem hafa í mörg ár búið við taprekstur og mjög takmarkaða endurnýjun.

Í áliti þeirra segir, með leyfi forseta:

,,Eigi að vera rekstrargrundvöllur fyrir hópbifreiðar verður að lækka skatta og gjöld af þessari atvinnustarfsemi frekar en að hækka álögur.``

Þannig er sama til hvaða átta er litið varðandi þessi gjöld. Á fund efh.- og viðskn. komu fulltrúar allra stærstu hagsmunasamtaka í landinu, fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúar Alþýðusambands Íslands, fulltrúar FÍB og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og það var alveg sama hvar borið var niður, allir voru undrandi á þessari fyrirhuguðu skattlagningu, ekki síst kannski þeir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem þarna voru sem benda eðlilega á að þetta sé í hrópandi mótsögn við það sem ríkisstjórnin hefur á vörum á tyllidögum, sem er að lækka flutningskostnað og jafna vöruverð á landsbyggðinni og létta álögum af almenningssamgöngum til þess að greiða fyrir hlut þeirra í umferðinni.

Þá er ég komin að þeim þætti sem eru álögur á almenningssamgöngurnar, því að hækkun þungaskatts um 8% mun enn auka skattlagningu ríkissjóðs á almenningssamgöngur. Áhrifin munu væntanlega verða tvíþætt, í fyrsta lagi hækkun á gjaldskrám almenningsvagna. Við vitum hverjir nota almenningsvagna til að mynda á höfuðborgarsvæðinu. Það eru ekki tekjuhæstu hóparnir. Það eru tekjulægstu hóparnir og hækkun á fargjöldum almenningsvagna er afar viðkvæmt mál og erfitt. Í öðru lagi mun þessi hækkun einnig valda versnandi afkomu sveitarfélaga sem þegar greiða háar fjárhæðir með almenningssamgöngum. Þá eru ótalin áhrifin á skólaakstur á vegum sveitarfélaga en hækkun á þeim útgjaldalið getur hæglega komið niður á annarri þjónustu skólanna.

[11:30]

Mig langar til þess að gera þessi atriði hér aðeins frekar að umtalsefni og byrja á því að segja að það er ekki lögboðið verkefni sveitarfélaga í landinu að halda uppi almenningssamgöngum. Það hefur hins vegar verið vaxandi krafa um þjónustu af þessu tagi og sveitarfélögin hafa mörg hver af veikum burðum reynt að halda úti almenningssamgöngum, ferliþjónustu fyrir fatlaða og skólaakstri. Þrátt fyrir allar álögurnar sem ríkið leggur á þetta greiða sveitarfélögin gríðarlega háar upphæðir í niðurgreiðslur með þessari þjónustu. Ég ætla að taka dæmi af Strætó bs. sem er byggðasamlag og er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er stórt fyrirtæki sem rekur um 110 vagna. Sjálft á fyrirtækið 74 vagna en verktakar hina.

Tekjur Strætós bs. af fargjöldum eru um 2 milljarðar á ári en sveitarfélögin greiða með þessum rekstri 1.200 millj. kr. En hvað skyldið ríkið svo hafa tekið af rekstri Strætós bs. á síðasta ári? Það voru 230 millj. kr. sem er þriðjungurinn af því sem sveitarfélögin greiða með þessum rekstri. Þessar álögur eru af ýmsu tagi. Þær eru ekki bara þungaskatturinn heldur er þetta virðisaukaskattur af rekstrarvörum og kaupum á vögnum. Þetta er verðjöfnun á gasolíu og þetta eru bifreiðagjöld og tryggingagjald launa. En hjá Strætó bs. nam 30% þungaskattur sem fyrirtækinu er gert að greiða 35,1 millj. kr. á árinu 2002. Miðað við umfang þeirrar starfsemi og þær almenningssamgöngur sem önnur sveitarfélög halda úti á landinu, sem er til að mynda á Akureyri þar sem eru átta vagnar í það heila ef ferliþjónustan er tekin með, á Ísafirði þar sem haldið er uppi almenningssamgöngum, í Fjarðabyggð, það hefur líka verið gert á Suðurnesjum og jafnvel á Árborgarsvæðinu --- og við skulum gera okkur grein fyrir því að kröfur um þessa þjónustu fara vaxandi með stækkuðum sveitarfélögum --- ef litið er til umfangs þessarar þjónustu á landsvísu og þeirra fjárhæða sem Strætó bs. greiðir, má ætla að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti á almenningsvagna á næsta ári losi 50 millj. kr. verði þessi 8% hækkun að veruleika.

Mig langar líka til þess að nefna hér aðeins ítarlegar skólaaksturinn. Á þessu ári er áætlað að skólaakstur kosti sveitarfélögin í landinu rúmar 400 millj. kr., þ.e. aðeins þau sveitarfélög sem fá endurgreitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, skv. 13. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, fá 21,5% endurgreitt vegna skólaaksturs. Það eru 72 sveitarfélög sem halda uppi skólaakstri með þessum hætti og fá þessa endurgreiðslu en þetta er auðvitað alger lágmarkstala vegna þess að stór sveitarfélög sem hafa umfangsmikinn skólaakstur innan sinna umdæma, eins og til að mynda Mosfellsbær, eru ekkert inni í þessari tölu þannig að það má ætla að skólaakstur yfir landið í heild á þessu ári losi 500 millj. kr. Fulltrúi hópferðabifreiða, þ.e. Samtaka ferðaþjónustunnar, sem kom á fund efh.- og viðskn. fór ekki í launkofa með það að þessari hækkun yrði velt beint yfir á sveitarfélögin. Við sem höfum verið hér í sölum undanfarna daga vitum að það verður ekki sótt aukið fé í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess að koma á móti þessari auknu tekjuöflun ríkisins því þar er líka verið að skera niður þjónustuna og samneysluna eins og er yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar. Því er hætt við, virðulegi forseti, að þessar auknu álögur á skólaakstur og sveitarfélögin í landinu muni koma til með að skerða aðra þjónustu skólanna. Og þá er útséð að það verður erfiðara fyrir þessi sveitarfélög að halda úti þessari þjónustu, bæði hvað varðar almenningsvagna og skólabíla og þetta mun draga verulega úr þeim nýjungum í þjónustu sem stækkuð sveitarfélög bjóða almenningi í sínum umdæmum.

Mig langar til þess að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að nýlega var kynnt könnun á afstöðu Reykvíkinga til þjónustu borgarinnar. Menn voru spurðir um hverjir væru helstu kostir og gallar borgarinnar. Ég vil byrja á því að taka það fram að flestir telja að þjónusta borgarinnar sé í það heila frekar góð eða mjög góð, um 73%, og þeim hefur fækkað verulega frá síðustu könnun sem telja að hún sé fremur eða mjög slæm eða hvorki né, en það er ekki aðalatriði þessa máls. Ég ætlaði að nefna það að helstu gallar Reykjavíkur eru að mati þeirra sem spurðir voru of mikil bílaumferð, slæmt gatnakerfi, slæmar almenningssamgöngur, borgin er of dreifð. Og hverju má breyta í borginni, virðulegi forseti? Bæta samgöngur, betri almenningssamgöngur, færri einkabílar, efling miðborgarinnar, bætt umferðarmenning. Umferðin skorar á báða kanta, bæði þar sem bæta má, eðlilega, og þar sem eru verstu gallarnir.

Ég ætla að vitna til umsagnar Borgarráðs Reykjavíkur um þetta frv. sem hér liggur fyrir en þar er eðlilega vísað til þess að í greinargerð með samgönguáætlun sem hefur verið samþykkt á Alþingi er kynnt það markmið að frekari stuðningur ríkisins við almenningssamgöngur sé æskilegur og stefna eigi að því að ríkið endurgreiði sveitarfélögunum álögð gjöld að fullu. ,,Aukin hlutdeild almenningssamgangna leiðir til hlutfallslega minni notkunar einkabíla, sparnaðar í viðhaldi gatna, auk þess að geta orðið til þess að seinka megi framkvæmdum við stór og kostnaðarsöm umferðarmannvirki um einhvern tíma, mannvirki sem að mestu eða öllu leyti eru greidd úr sjóðum ríkisins``, eins og segir, með leyfi forseta, í umsögn borgarráðs Reykjavíkur um þetta frv.

Í greinargerð með samgönguáætlun er lagt til að í samráði við sveitarfélögin verði farið yfir þetta fyrirkomulag, þessa meðgjöf almenningssamgangna í ríkissjóð, sem mér sýnist svona lauslega reiknað miðað við umfangið að gæti hafa verið á síðasta ári eitthvað á bilinu 250--300 millj. kr. Það er lagt til að farið verði yfir þetta í samráði við sveitarfélögin og að farið verði í að endurgreiða þetta álag að fullu.

Ég get ekki annað en tekið undir þessi orð borgarráðs Reykjavíkur og það er mjög brýnt að farið verði yfir þetta í heild samkvæmt samgönguáætluninni. En Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur áður lýst sig andvíga þeirri skattlagningu sem hér er boðuð, og við vísum til varnaðarorða og upplýsinga sem fram komu bæði í umsögnum og í máli þeirra sem komu á fund efh.- og viðskn. Ég geri, virðulegi forseti, sem 2. minni hluti nefndarinnar, sérstaka brtt. á þskj. 465 um niðurfellingu þungaskatts af almenningsvögnum.

Þá vil ég geta þess að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa lagt fram frv. til laga um endurgreiðslu 2/3 hluta virðisaukaskatts við kaup á nýjum almenningsvögnum frá 1. september 2000 til 31. desember 2005, en það er sama endurgreiðsla og aðrar hópferðabifreiðar hafa notið. Þessi tillöguflutningur er í samræmi við þá stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að auka hlut almenningssamgangna í umferðinni.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur flutti Margrét Frímannsdóttir sem 1. flm. og Jóhanna Sigurðardóttir tillögu svipaðs efnis á 126. löggjafarþinginu og hefur 1. minni hluti nefndarinnar lýst stuðningi við þessa tillögu mína hér nú. Í þessari tillögu, virðulegi forseti, felst það að 30% álagning þungaskatts á almenningsvagna í áætlunarferðum, þ.e. á almenningssamgöngur, er felld niður. Rökin eru þau helst sem ég nefndi áðan, með tilvísun í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem ekki hefur verið staðið við, að létta þessum álögum alveg af almenningssamgöngum. Hér er ómakið tekið af ríkisstjórninni að þessu leyti hvað varðar þungaskattinn.

Ég vil enn fremur benda á að þetta kemur verst niður á sveitarfélögunum í landinu bæði vegna hækkaðs vöruverðs og vegna almenningssamgangna og skólaaksturs, og hækkun á þungaskatti getur munað því að frumkvæði sveitarfélaganna hvað varðar almenningssamgöngur verði að engu og getur fælt ný sveitarfélög frá því að fara inn á sömu braut. Tekjutap ríkissjóðs sem hlytist af samþykkt þessarar tillögu má telja vera um 50 millj. kr. að því meðtöldu stjórnarmeirihlutinn standi fast á því að hækka þungaskattinn um 8%.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, skora á hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. að standa nú við stóru orðin í samgönguáætluninni og hætta við að leggja þessar miklu álögur á sveitarfélögin í landinu og almenningssamgöngur.