Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 13:33:45 (2212)

2003-11-27 13:33:45# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Neðanjarðarlaunakerfi stjórnenda fyrirtækja er orðið mikið áhyggjuefni og engu líkara en að á síðustu árum sé að verða til ný yfirstétt sem lifir í einhverri veröld sem er til hliðar við raunveruleika íslensks samfélags. Þar ráða fremur geðþóttaákvarðanir og græðgi en almennar leikreglur og hagsmunaárekstrar grassera. Hver stjórnandi virðist umbuna öðrum í von um að fá það endurgoldið í myljandi tekjum sjálfur og allt er þetta á kostnað neytenda sem borga brúsann af öllu saman. Þetta kallar svo sannarlega á að settar verði reglur um stjórnarhætti í fyrirtækjum til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og að stjórnir fjármálafyrirtækja verði m.a. skipaðar óvilhöllum aðilum sem engra hagsmuna hafa að gæta.

Guð láti gott á vita um hörð viðbrögð ráðherranna nú sem ég fagna. En það var ekki fyrr en svo hrikalega var gengið fram af þjóðinni að þeir tóku við sér, þegar ekkert blasti við annað en þjóðaruppreisn. Kannski þurfti þetta bylmingshögg til að opna augu stjórnvalda, þegar tveir stjórnendur Kaupþings Búnaðarbanka fá á silfurfati ofan á meira en 4 millj. kr. mánaðartekjur kaupréttarsamning á gengi sem er langt undir markaðsvirði, hlutafjárkaupin síðan fjármögnuð með lánsfé frá bankanum án trygginga í öðru en bréfunum og höfuðið svo bitið af skömminni með því að stjórnendur eru varðir fyrir tapi af öllum herlegheitunum. Þetta er yfirgengilegt og ég mun kalla eftir því að Fjármálaeftirlitið skoði sérstaklega hvort ekki var verið að brjóta 104. gr. hlutafélagalaga með því að stjórnarformanni og forstjóra var lánað fyrir hlutafjárkaupunum.

Hvað með hina hluthafa bankans? Hafa þeir slík kjör, eða almenningur sem þúsundum saman keypti hlutabréf í deCODE með lánsfé, m.a. vegna þess að stjórnvöld lofuðu og studdu fyrirtækið? Þar sat fjöldi fólks eftir með sárt ennið og tapaði aleigunni. Ekkert heyrðist þá í stjórnvöldum.

Áhættan af þessum kaupréttarsamningum er í raun sett á aðra hluthafa því að þeir sem eiga von á svona ægigróða gætu blindast af gullinu og tekið meiri áhættu en eðlilegt væri og teflt þar með hagsmunum tugþúsunda hluthafa í hættu.

Ég spyr hæstv. ráðherra líka: Gengur það ekki gegn hlutafélagalögunum að gera kaupréttarsamninga til fimm ára við stjórnarformann sem kosinn er á hluthafafundi til eins árs í senn? Eitt er víst, virðulegi forseti, að málið í heild sinni sýnir alvarlegar gloppur í löggjöf um fjármálamarkaðinn og endurspeglar mjög alvarlega siðferðisbresti sem bregðast verður við af fyllstu hörku. Það alvarlega er að stjórnvöld hafa aldrei hlustað á síendurteknar aðvaranir okkar í stjórnarandstöðunni fyrr en nú þegar þjóðaruppreisn blasti við. Óbeint hafa hæstv. ráðherrar haldið hlífiskildi yfir ofurkjörunum með því að neita að upplýsa um þau í skjóli hlutafélagalaganna í stað þess að breyta reglunum, breyta lögunum. Rifjum upp fyrir hæstv. ráðherrum örfá dæmi.

Ofurkjör og afkomutengdir kaupaukar stjórnenda Fjárfestingarbankans. Þar átti ríkisvaldið þrjá fulltrúa í stjórn sem ákvað ofurkjörin. 100--200 millj. kr. starfslokasamningur við fyrrv. forstjóra VÍS eða starfslokasamningurinn við fyrrum forstjóra Símans, fyrirtækis í ríkiseign, sem samsvaraði 40 árslaunum láglaunafólks. Hvað með 70 millj. kr. kaupauka á sl. ári til forstjóra Kaupþings á sama tíma og það var neikvæð ávöxtun á fé lífeyrissjóðanna í vörslu fyrirtækisins? Og hvað með 90 millj. kr. starfslokasamning forstjóra Byggðastofnunar sem var auðvitað algjört hneyksli?

Hefur útrás græðginnar nú verið stöðvuð eftir þetta bylmingshögg sem forráðamenn Kaupþings Búnaðarbanka gáfu þjóðinni fyrir helgi, þessa blautu tusku sem almenningur fékk í andlitið þar sem ekkert var verið að skafa utan af græðginni? Var þetta nægilegt til þess að veita sofandi stjórnvöldum lexíu sem dugar til að breyta leikreglunum og taka með fullri hörku á málinu? Verður þetta kannski bara enn ein launasprengja forstjóranna á ofurkjörum sem springur í andlit almennings, láglaunafólks sem á hvorki til hnífs né skeiðar, og stjórnvöld reka upp rokur, vona að látunum linni sem fyrst og snúa sér svo bara á hina hliðina?

Hæstv. forseti. Við þurfum lagabreytingar, reglur og hert eftirlit sem stöðvar þessa þróun því að við erum á góðri leið með að sigla inn í þá ofsagræðgi sem einkennir nú bandarískt samfélag. Ofurkjör stjórnenda þar eru 530 sinnum hærri en meðallaun almennings en voru 40 sinnum hærri fyrir 20 árum. Það samsvarar því að ef meðallaun hér á landi eru 200 þús. kr. væru mánaðarlaun stjórnenda 106 millj. kr. Viljum við þessa þróun? Bandaríkjamenn segja að helsta ástæða hennar sé ofurvöxturinn í kaupréttarsamningum og misnotkun þeirra. Það er einmitt svona græðgi, svona ofurkjör, sem grefur um sig í þjóðfélagi okkar á sama tíma og fátækum fjölgar stöðugt og biðraðirnar lengjast hjá mæðrastyrksnefnd og hjálparstofnunum eins og við munum sjá nú fyrir jólin.

Um leið og ég ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra í sex liðum skora ég á hana að bregaðst við af fullri festu í málinu og reisa þær girðingar sem duga til þess að þjóðin þurfi aldrei aftur að upplifa svona svívirðilega græðgi stjórnenda á fjármálamarkaði, mannanna sem blóðmjólka einstaklinga og fjölskyldur með háum vöxtum og þjónustugjöldum sem eru að sliga fjölda heimila í landinu.