Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 13:49:43 (2215)

2003-11-27 13:49:43# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Í ensku er til hugtak sem heitir ,,stakeholder`` sem er útvíkkun á hugtakinu ,,shareholder``. Stakeholder er eins konar haghafi meðan shareholder er hluthafi. Haghafar eru þeir aðilar sem hafa hag beint eða óbeint af ákveðnum ákvörðunum og þeir sem taka ákvörðunina verða að taka tillit til haghafa jafnt sem hluthafa. Haghafar geta verið t.d. starfsmenn fyrirtækis, viðskiptamenn, birgjar og síðan þjóðfélagið allt sem getur liðið fyrir eða hagnast á viðkomandi ákvörðun.

Þeir sem taka ákvarðanir í stjórnarherbergjum verða stöðugt að spyrja sig: Eru þær ákvarðanir sem við erum að taka réttar, ekki bara fyrir hluthafana heldur líka fyrir haghafana? Það fólk sem verið er að gera atvinnulaust eða veita umbun, hvernig því reiðir af.

Frú forseti. Skynsamlegir og hógværir kaupréttir tengja saman hagsmuni hluthafa og stjórnenda og eru þar af leiðandi jákvæðir. Þeir eru uppi á borðinu og þeir eru gagnsæir og þeir taka mið af hagnaði og tapi fyrirtækisins. Þeir samningar sem við ræðum hér um brjóta flest þessi skilyrði. Þeir eru ekki skynsamlegir því að áhættan er bara þegar er gróði. Það er bara tekið tillit til þess að það er gróði en þeir sem áttu kaupréttinn taka ekki þátt í tapinu. Þeir eru ekki hógværir. Þeir eru langt út úr korti við það sem haghafar hér á Íslandi upplifa. Og þeir eru duldir. Þeir eru ekki uppi á borðinu. Þeir eru gerðir löngu seinna að sagt er. Og hluthafafundur virðist hafa skrifað upp á samningana sem blankó tékka, enda hafa þessir aðilar núna tekið mið af haghöfunum og dregið ákvörðunina til baka og það ber að virða. En í þessu sambandi má nefna ýmiss konar svipuð dæmi. Við þekkjum umræðu um laun fótboltamanna sem eru orðin óheyrilega há, umræðu um laun stjórnenda í útlöndum og umræður t.d. um laun ýmissa tónlistarmanna sem eru orðin gífurlega há í samanburði við umhverfið.

Frú forseti. Hvernig getum við brugðist við? Við þurfum, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að láta hluthafafundi taka virkilega ákvörðun um endanleg kaupréttarákvæði og slík laun því ef upplýsingar liggja á borðinu þá geta haghafarnir mótmælt.

Ég vil nefna það að Kauphöllin er búin að setja reglur sem taka gildi um næstu áramót. Við næstu ársreikninga allra félaga sem eru skráð skulu allir kaupréttir, lífeyrisréttindi og önnur réttindi og laun stjórnenda liggja fyrir. Þetta er þegar búið að gera. Enn vantar sambærilegar reglur fyrir lífeyrissjóði, ríkisstofnanir, kaupfélög og því um líkt.