Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 13:53:09 (2216)

2003-11-27 13:53:09# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[13:53]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Við erum að ræða ofurlaun í þjóðfélaginu í kjölfar samninga um ofurlaun yfirmanna Búaðarbankans, ekki um laun fótboltamanna. Ég vil taka það fram að ég er einn af viðskiptavinum Búnaðarbankans og hef verið það um árabil. Ég vil fá að vera áfram í viðskiptum við bankann vegna þess að starfsfólk bankans, m.a. á Sauðárkróki, hefur reynst mér ákaflega vel.

Á síðustu árum hafa annað veifið borist mjög neikvæðar fréttir úr Búnaðarbankanum, m.a. fréttir af því að yfirmenn bankans hafi brotið trúnað og hagnast á innherjaviðskiptum. Bankinn er síðan afhentur S-hópnum tengdum hæstv. utanrrh. og Framsfl., Búnaðarbankinn er sameinaður Kaupþingi skömmu eftir afhendinguna og yfirmenn Kaupþings gerðir að yfirmönnum sameinaðs fyrirtækis. Já, menn sem ávöxtuðu eigið pund Kaupþings ágætlega á meðan fjármunir lífeyrissjóða, sem þeir áttu að ávaxta, verðféll í höndum þeirra. Síðasta uppákoman í bankanum mínum eru fáránlegir kaupréttarsamningar yfirmanna bankans sem þeir féllu þó frá með semingi. Ég vil fá að skipta áfram við Búnaðarbankann en þá verður bankinn að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Frú forseti. Mikil reiðialda hefur gengið yfir þjóðfélagið vegna þessa máls og hafa jafnvel félagarnir hæstv. forsrh. og utanrrh. tekið þátt í heilagri reiði gagnvart oföldum bankastjórunum. Ég get tekið undir ýmislegt sem þeir hafa látið hafa eftir sér um græðgi forstjóranna, en mér finnst að þeir ættu sjálfir að líta í eigin barm. Hæstv. utanrrh. er guðfaðir kvótakerfisins og hefur hann auðgast gífurlega með því að kasta eign sinni á sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Hundrað milljarðar hafa runnið út úr sjávarútveginum, miklu hærri upphæð en við erum að ræða um hér, til einstaklinga í þjóðfélaginu. Einstaka maður hefur losað vel á fjórða milljarð og eftir stendur atvinnugreinin stórskuldug og heilu bæjarfélögin án atvinnuréttinda. Hæstv. forsrh. hefur staðið eins og klettur við hlið hæstv. utanrrh. eins og fleiri ráðherrar, hæstv. landbrh., og varað almenning við að ef komið væri á réttlæti í sjávarútvegsmálum, þá þurfi þjóðin að flytja til Kanarí.

Þeir félagarnir hafa staðið saman í fleiri verkum, svo sem að útbúa reglur til þess að gera mönnum hægara um vik að flytja ofsagróða þeirra sem seldu sameign þjóðarinnar í skattaskjól í útlöndum. Ég óska ekki eftir því að þeir félagarnir iðrist heldur að þeir fari að ná áttum og skilji að það sem gerðist er afleiðing þeirra eigin stefnu. Þegar til stóð að selja bankana var rætt um dreifða eignaraðild sem þeir félagarnir voru fljótir að gleyma til þess að geta skipt bönkunum bróðurlega á milli sín og tryggt helmingaskipti kvótaflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl.