Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 13:56:30 (2217)

2003-11-27 13:56:30# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Í ofuráherslu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna á stóraukið frelsi á öllum sviðum þjóðfélagsins hefur hæstv. ríkisstjórn með hæstv. forsrh. og viðskrh. í broddi fylkingar ekki staðið sig í frumkvæði til setningar nýrra laga og reglugerða til að halda í við hina geysihröðu þróun sem átt hefur sér stað á þessu sviði. Við Íslendingar erum orðnir ótrúlega alþjóðatæknivæddir og tileinkum okkur alla hluti, jafnt góða og slæma, strax á upphafstíma þeirra. Þannig höfum við tekið þátt í alþjóðlegri þróun eins og t.d. á sviði kaupréttarákvæða, skiptasamninga og framvirkra samninga hvers konar. En hvar eru reglurnar? Engar reglur hafa verið settar um þetta svið. Þess vegna geta stjórnendur fyrirtækja leikið sér að vild með þá möguleika sem felast í þessum þáttum.

Hæstv. ríkisstjórn hefur hins vegar ekki fylgt þessari þróun með frumkvæði og forustu um setningu laga og reglna á þessum sviðum frelsis og einkavæðingar. Allt þetta þarf að vera gegnsætt og skýrt frá hendi löggjafans. Við súpum nú seyðið af sofandahætti ríkisstjórnarinnar eins og svo mörgum öðrum sviðum. Hæstv. ríkisstjórn virkar þreytt og löt og ráðherrarnir una sér vel á ráðherrastólum og fitna eins og púkinn á fjósbitanum meðan Róm brennur.

Hæstv. forseti. Er brugðist eins við ýmsum málum sem koma upp og valda almenningi áhyggjum eða hneysklun miðað við síðustu daga? Nei, það er ekki gert. Eigum við að nefna nokkur dæmi? Hvað með kvótasölu á óveiddum fiski fyrir mörg hundruð milljónir, jafnvel nokkra milljarða? Hvað með kvótasölu á óveiddum fiski sem skilur heilu og hálfu byggðarlögin eftir í rúst? Hvað með aðgerðir nokkurra manna, þar með talið hv. þm. Sjálfstfl., Péturs Blöndals, með að ná yfirráðum í SPRON og margfalda þar með stofnfé sitt? Hvað með helmingaskipti núverandi stjórnarflokka við sölu Landsbanka og Búnaðarbanka? Hvað með starfslokasamning ríkisins eins og t.d. við fyrrv. forstjóra Byggðastofnunar?

Frú forseti. Landsfeður okkar eiga að vera á varðbergi og bregðast við ef almannahagsmunum og/eða þjóðarjafnvægi er ógnað en þeir eiga um leið að gæta jafnræðis milli aðila.

Að lokum þetta, frú forseti. Ég vona sannarlega að vöxtur Kaupþings Búnaðarbanka haldi áfram að aukast um ókomin ár rétt eins og annarra íslenskra fyrirtækja. Vöxtur Kaupþings og síðar Kaupþings Búnaðarbanka hefur verið ævintýralegur og glæsilegur, sérstaklega í sambandi við erlenda útrás og vonandi heldur það áfram og verður um leið vegvísir annarra fyrirtækja til frekari útrásar, m.a. vegna þess að okkur Íslendingum veitir ekki af slíkri útrás.

Það hefur aldrei þótt góð lexía, virðulegi forseti, að hafa öll eggin í sömu körfu og þess vegna m.a. er blandaður rekstur stórfyrirtækja eins og Kaupþings Búnaðarbanka hér heima og erlendis af hinu góða. Þetta segi ég aðeins vegna þess að við skulum líka hafa það í huga að í þessu fyrirtæki, sem mest hefur verið rætt um, vinna um eitt þúsund Íslendingar sem allir hafa það eitt að leiðarljósi að þjóna sínum viðskiptamönnum sem allra best. Einelti gagnvart Kaupþingi Búnaðarbanka verður að linna.