Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 13:59:46 (2218)

2003-11-27 13:59:46# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er fullt tilefni til að taka upp í þingsölum það viðfangsefni sem við fjöllum nú um þessa dagana, hin miklu kjör sem einstakir stjórnendur stórra fyrirtækja hafa getað skammtað sér. Ég vil vekja athygli á því, sem fleiri ræðumenn hafa gert, að þetta er ekki einangrað fyrirbæri út af fyrir sig. Þetta tengist þróun sem verið hefur í gangi í mörg ár. Það eru mörg dæmi um það að stjórnendur fyrirtækja hafa getað fengið kjör og samninga sem færa þeim miklar fjárhæðir í eigin vasa.

Við þekkjum þetta úr sjávarútveginum. Við þekkjum dæmi um það að menn hafi getað selt veiðiheimildir fyrir tugi milljóna eða hundruð milljóna og við því hefur ekki verið brugðist með þeim hætti að takmarka möguleika manna til þess. Og jafnvel að dæmi um það að maður einn hafi getað selt veiðiheimildir fyrir 3.150 millj. hafi ekki leitt til þess að menn hafi brugðist við til að taka á því vandamáli sem leiðir af þessari miklu auðsöfnun þar sem menn geta selt það sem þeir hafa aldrei keypt.

Herra forseti. Þess vegna held ég að menn hafi dálítið rutt brautina með aðgerðaleysi í sjávarútvegsmálum. Þar eigum við ólokið viðfangsefni. Við eigum eftir að taka á því eins og vert er og eðlilegt í öllu eðlilegu samhengi um kaup og kjör. Menn eiga auðvitað að borga mikla skatta af háum launum. Það er ekki nóg að menn hafi möguleika á því að taka sín laun út sem fjármagnstekjur þegar menn borga ekki nema 10% skatt af þeim tekjum. Af miklum tekjum eiga menn að borga mikla skatta. Ég legg þá tillögu fram, herra forseti, til umræðu.

Í öðru lagi eiga menn að gera kjör þeirra sem hafa möguleika á þessari aðstöðu gegnsæ þannig að þeir sem starfa í þessum fyrirtækjum séu undir þau lög seldir að laun þeirra og kjör öll skuli birt opinberlega hvort sem það eru laun, lífeyrisréttindi, kaupréttarsamningar eða annað þannig að almenningur og viðskiptavinir þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga viti nákvæmlega á hvaða kjörum þessir menn eru. Það er eðlilegt að mörgu leyti að borga mönnum góð laun og það er líka eðlilegt að menn sem starfa í áhætturekstri geti uppskorið ef þeir standa sig vel. En það á líka að vera opinbert og það á að sæta aðhaldi frá almenningi. Markaðurinn getur aldrei starfað einn og sjálfstætt án tengsla við það fólk og það þjóðfélag sem markaðurinn er í. Það ættum við að læra, herra forseti, af þessu tilefni.