Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:12:30 (2222)

2003-11-27 14:12:30# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), DJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:12]

Dagný Jónsdóttir:

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu um laun og hlunnindi stjórnenda fyrirtækja. Sú umræða sem varð í þjóðfélaginu í síðustu viku tók af öll tvímæli um að það er tímabært að Alþingi láti málið til sín taka. Þær tölur sem nefndar hafa verið í tengslum við kaupréttarsamninga stjórnenda eru úr öllum takti við það sem hér hefur viðgengist og sem getur liðist í íslensku samfélagi. Kannski sýnir þessi umræða betur en allt annað hve mikill jöfnuður er í íslensku samfélagi og hversu djúpum rótum félagshyggja stendur í íslenskri þjóðarsál.

Þegar fyrirtækin í landinu ganga gegn gildismati þjóðarinnar með ofurlaunum til stjórnenda sinna rís almenningur upp og mótmælir. Það ánægjulega við annars dapurlega atburðarás síðustu viku var að þau mótmæli báru árangur. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að í því markaðsumhverfi sem íslensk fyrirtæki starfa var það aðhald almennings sem dugði til að knýja á um að ákvörðun um hundraða milljóna kaupréttarsamninga miðað við kaupgengi úr fortíðinni var dregin til baka. Stjórnmálamenn hafa nú orðið ekki annað vald yfir fyrirtækjunu í landinu en það að setja þeim almennar leikreglur til að fara eftir. Það er farsæl þróun, frú forseti.

Þessar reglur eiga að fjalla um hvernig standa beri að því að ákveða kjör forstjóra og annarra stjórnenda. Ég fagna því alveg sérstaklega málefnalegu framlagi hæstv. viðskrh. til þessarar umræðu strax á föstudag um að skoða beri endurskoðun hlutafélagalöggjafarinnar í þessu sambandi. Það sem hv. Alþingi getur gert og á að gera er að tryggja að lagaumhverfið hér sé að þessu leyti í samræmi við það sem gerist í þeim löndum sem lengst eru komin í því að tryggja hag hluthafa gagnvart ofurlaunum stjórnenda fyrirtækjanna. Við hljótum að huga að því að setja hér í lög ákvæði um það að ákvarðanir um samninga um kjör stjórnenda, kaupauka, kaupréttarsamninga og aðrar árangurstengdar sporslur, séu teknar á gagnsæjan hátt þar sem komið er í veg fyrir hagsmunaárekstra og að samningar séu bornir undir hluthafa til samþykktar á hluthafafundi.

Einnig þarf að tryggja að skattaleg meðferð þessara tekna sé með eðlilegum hætti og í samræmi við skattalega meðferð annarra launatekna. Ég minni á að í því fyrirtæki sem mest hefur verið um rætt í þessu sambandi undanfarna viku, Kaupþingi Búnaðarbanka, eru um 35 þús. Íslendingar meðal hluthafa. Þeir eiga það fé sem stjórnendum fyrirtækisins er greitt fyrir störf sín.

Frú forseti. Gagnvart samningum af þessu tagi ber okkur stjórnmálamönnum fyrst og fremst að standa vörð um hagsmuni hluthafanna og treysta því að hluthafar axli ábyrgð sína gagnvart lögunum og að þær ákvarðanir sem teknar verða á hluthafafundum séu í samræmi við sómakennd og siðferðisvitund íslensks almennings.