Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:20:39 (2225)

2003-11-27 14:20:39# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Kristján L. Möller (frh.):

Frú forseti. Nú þegar við höldum áfram með skattahækkunarfrv. sem við höfum verið að ræða í morgun, þ.e. um að sækja 1.200 millj. í sköttum, bensínsköttum, þungaskatti og virðisauka ofan á þetta allt saman, þá er ég eiginlega kominn að enda þess sem ég ætlaði að ræða. Engu að síður ætla ég að gera aðeins að umtalsefni umsögn sem Landvari, Félag íslenskra vöruflytjenda, sendi efh.- og viðskn. vegna þessa frv. Eins og ég hafði áður sagt koma þar fram útreikningar og staðfesting á því sem ég hef áður haldið fram á hinu háa Alþingi, þ.e. að þungaskattur hafi hækkað um 40% eða svo frá árinu 1998 til ársins 2002 vegna ýmissa breytinga sem þar voru gerðar. Þessi umsögn er reyndar í nefndaráliti 1. minni hluta, minnihlutaáliti þingmanna Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Svo að ég grípi aðeins niður í þessa umsögn þá stendur þar, með leyfi forseta:

,,Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að gjaldskrá þungaskatts verði hækkuð um 8% í samræmi við tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004. Í athugasemdum er bent á breytingar á gjaldskrá kílómetragjalds þungaskatts til hækkunar og lækkunar á árunum 1998 til 2001 og samanburður gerður við hækkun á vísitölu neysluverðs á þeim tíma og til dagsins í dag.

Þessi samanburður bendir til þess að greiðendur kílómetragjalds þungaskatts megi nokkuð vel við una varðandi þessa skattheimtu.

Stjórn Landvara vill koma eftirfarandi ábendingum á framfæri í þessu sambandi.

Vöruflutningar á langleiðum eru almennt stundaðir með 23--26 tonna bifreiðum og 14--18 tonna tengivögnum. Þessar vagnlestir geta að meðaltali ekið um 140.000 km á ári og máttu vera 40--44 tonn að heildarþyngd til ársins 2001, en 44--49 tonn frá febrúar 2001.

Frá því að byrjað var að innheimta þungaskatt eftir mældum kílómetrum og fram til september 1998 fór gjaldskrá skattsins stiglækkandi eftir akstursmagni viðkomandi bifreiðar. Þannig fengu vöruflutningar á langleiðum ákveðna leiðréttingu á greiðslubyrði þungaskatts á ársgrundvelli, m.a. til þess að mæta sjónarmiðum um mjög mikinn akstur á misgóðum vegum og oft við erfið akstursskilyrði, mikinn akstur með lítinn eða engan farm og til þess að jafna flutningskostnað til byggða langt frá Reykjavík. Gjaldskráin byggir hins vegar alltaf á hæsta gjaldflokki miðað við skráða heildarþyngd viðkomandi ökutækis, en það er sú þyngd sem bifreið með fullfermi má mest vera á vegi.

Þótt opinberir aðilar virðast ekki telja að þeir hafi aukið tekjur sínar af þungaskatti nema óverulega á síðustu árum hefur lögum og reglum um þungaskatt verið breytt sex sinnum á árunum 1998--2001, þar af hefur verið um hreina skattkerfisbreytingu að ræða í fjögur skipti, þannig að álagningargrunninum sjálfum er umbreytt, sem leitt hefur af sér stigvaxandi skattheimtu á þyngstu ökutækin, tækin sem notuð eru í vöruflutningum á langleiðum.

Þessar miklu umbreytingar hafa leitt til þess að þungaskattur í vöruflutningum á langleiðum hefur hækkað um 44% frá september 1998 til febrúar 2001, en um 82% ef miðað er við febrúar 1999, eins og gert er í athugasemdum með frumvarpinu.``

Í töflu er síðan farið yfir tíma breytinga þungaskattstaxta, gjaldbyrði vagnlestar og vísi töluviðmiðun, ásamt skýringum. Ég vísa til þessarar töflu, virðulegi forseti, í fskj. með nefndaráliti 1. minni hluta efh- og viðskn.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Vöruflutningar á landi hafa aldrei áður verið þjóðinni eins mikilvægir og þeir eru um þessar mundir. Fólk og fyrirtæki um allt land treysta algerlega á gæði og áreiðanleika í vöruflutningum. Atvinnulífið byggir mikilvægustu þætti í starfsemi sinni á tilvist öflugrar og fjölbreyttrar flutningaþjónustu. Vaxandi arðsemi í atvinnulífi víða um land, bætt búsetuskilyrði og efling byggðanna til framtíðar á sér öðru fremur rætur í því öfluga vöruþjónustukerfi, sem flutningamenn hafa byggt upp á síðustu árum. Mikil röskun á rekstrarumhverfi í atvinnugreininni, eins og átt hefur sér stað á liðnum árum getur stórskaðað þann ávinning sem hagkerfið hefur notið í þessu sambandi á síðustu árum.``

Síðan fjalla þeir um að þessar ábendingar þeirra komist á leiðarenda.

Virðulegi forseti. Ég hef með mörgum rökum, mörgum umsögnum og mörgum dæmum í ræðu minni rökstutt það að flutningskostnaður hefur stórhækkað á síðustu árum og í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka. Samt sem áður verð ég ekki var við neina iðrun hjá hv. stjórnvöldum eftir þessar breytingar og ber frv. sem við ræðum nú vott um það að áfram á að halda og vega í sama knérunn. Það er með ólíkindum hve langt á að ganga í árásum á landsbyggðina. Það er með ólíkindum hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að endast lengi við að auka skatta á landsbyggðarbúa umfram aðra, landsbyggðarskatta. Á þessu ekki að linna? Ég bara spyr og ég kalla eftir viðbrögðum frá þingmönnum stjórnarflokkanna sem koma frá landsbyggðarkjördæmum, t.d. hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem hér er í salnum. Hvað á þetta að ganga lengi? Hvað á það að ganga lengi, virðulegi forseti, að áfram verði haldið að hækka þessa skatta og hækka flutningskostnað eins og hér hefur verið rætt og sýnt fram á að verið er að gera?

Virðulegi forseti. Rétt í lokin vil ég nefna breytingartillögu sem ég styð. Hún er frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og er um að almenningsvagnar í áætlunarferðum verði undanþegnir allri skattheimtu. Þeir fá 70% afslátt í dag. Ég styð þá hugmynd enda felst í henni ákveðin leið til þess að taka ákveðna flokka út úr þungaskattskerfinu og reikna til baka eða minnka skattheimtu á þá, sem leiðir til betri og ódýrari þjónustu. Þessi tillaga er flutt af hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og er, eins og áður hefur komið fram, nákvæmlega eins og tillaga sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fluttu fyrir tveimur þingum eða svo, ef ég man rétt, og gekk í þessa átt.

Hæstv. forseti. Ég vona svo í lokin að árásum á atvinnulíf og landsbyggðarbúa með þessum hækkunum linni. Ég hef líka gert að umtalsefni þá miklu skattheimtu sem verður á allan almenning í landinu. Við skulum halda því líka til haga. Þó mér hafi orðið tíðrætt um þungaskatt og flutningsgjöld þá er í þessu frv. líka 20--25 þús. kr. skatthækkun á hvern einasta bíleiganda í landinu vegna hækkunar á bensíngjaldi. Talið er að bensínlítrinn muni hækka um 4 kr. Talað er um að óniðurgreitt bensín eða bensín selt með fullri þjónustu fari, eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt, upp fyrir 100 kr. Eins og ég sagði áðan og hef sýnt fram á í gögnum þá er skattheimta á almenna bílaeign á Íslandi í sögulegum hæðum miðað við nágrannalönd okkar.