Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:29:03 (2226)

2003-11-27 14:29:03# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Frú forseti. Ég hef hlýtt á ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers um flutningskostnað. Mig langar að spyrja hv. þm. hvort það muni ekki hafa haft áhrif á flutningskostnað út á land að felldir hafa verið niður tollar af öllum innkaupum á vöruflutningabílum. Tollarnir voru um 30% eða þau vörugjöld sem innheimt voru af nýjum flutningabílum. Þetta hefur verið gert núna síðustu ár í þrepum af núverandi ríkisstjórn og það mun muna verulega um það að þessi lækkun hefur orðið á innkaupum nýrra bíla.

Þá kom fram í ræðu hv. þm. áðan að hækkun á hámarksþunga á vagnlestum hefur verið annars vegar úr 40 í 44 tonn og úr 44 tonnum í 49 tonn án þess að það hafi hækkað krónugjald á hvern kílómetra á þær vagnlestir og það er hrein lækkun. Þar er verið að bæta fjórum tonnum á vagnlest án þess að gjaldskráin hækki, þ.e. úr 40 tonnum í 44 tonn og miðast það við að vagnlestir séu á loftpúðum. Það er sannarleg lækkun.

Þá vil ég benda á að vegir, samgönguleiðirnar sem viðkomandi vagnlestir aka um, hafa batnað gríðarlega. Það kemur auðvitað þeim rekstraraðilum mjög til góða í minna viðhaldi og minni olíueyðslu auk þess sem nýrri dráttarbílar eyða mun minni olíu. Því tel ég að núverandi ríkisstjórn hafi náð að koma fram lækkun í flutningskostnaði út á landsbyggðina m.a. með þessum aðgerðum. Mér finnst að hv. þm. sé fastur í fyrsta gír og það er ekki von að menn komist langt ef menn eru fastir í fyrsta gír í þessum málum.