Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:34:08 (2229)

2003-11-27 14:34:08# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breyting á lögum um fjáröflun til vegagerðar, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Í þessu frv. er lagt til að fast árgjald og kílómetragjald þungaskatts hækki um 8% og lögð er til 8% hækkun á almennu og sérstöku vörugjaldi af eldsneyti. Hækkuninni er ætlað að skila ríkissjóði samtals um 1 milljarði kr.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur gert ítarlega grein fyrir nál. um þetta mál. Hún er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efh.- og viðskn. og mælti fyrir nál. fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fyrr í dag.

Í nál. hv. þm. kemur fram að álögur af þessu tagi jafngildi beinni skattahækkun og muni auka útgjöld heimilanna bæði beint og óbeint. Hækkanirnar sem í þessu frumvarpi felast eru liður í 2,2 milljarða kr. skattahækkun á heimilin í landinu í samræmi við tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004.

Þær álögur sem boðaðar eru í frv. munu að mati hagsmunaaðila sem komu á fund efh.- og viðskn. leiða til hækkunar á rekstri bíla um 20--25 þús. kr. á ári fyrir hvern bíleiganda, hækkun flutningsgjalda muni líka leiða til versnandi samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar og hækkunar á gjaldskrá almenningsvagna, vörubifreiða og leigubifreiða.

Vissulega hefur, virðulegi forseti, bensíngjaldi, olíugjaldi og þungaskatti, sem lagður hefur verið á bíla og bílaeigendur í landinu á undanförnum árum, verið beitt til að marka vegagerð, vegalagningu og endurbótum á vegum ákveðinn tekjustofn. Sá tekjustofn hefur gefið fastan grunn fyrir vegaframkvæmdir í landinu.

Að sjálfsögðu ber að fagna því að vegaframkvæmdum hafi þannig verið veittur tryggur stuðningur fremur en að vera gjörsamlega háður fjárlögum ársins á hverjum tíma. En í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, í morgun kom fram að með þeim gjöldum á bíleigendur, á eldsneyti og á umferðina í landinu, hefur þessi tekjustofn farið vaxandi og skilað mun meiri tekjum í ríkissjóð en áður var gert ráð fyrir. Því hlýtur að vera umhugsunarefni þegar þessi gjöld hækka og tekjuöflun ríkissjóðs aukin á þessu sviði.

Því hefur ekki verið á móti mælt sem fram kemur í nál. hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að þessi aukna skattheimta hljóti einhvers staðar að koma fram. Einhverjir verða að greiða hana. Það gera almennir bíleigendur og hún kemur fram í vöruverði og þjónustu sem háð er flutningi. Nær væri að fara í heildarendurskoðun á flutningskerfinu, athuga hvar þetta kemur niður og hvort rétt væri að beita öðrum leiðum til að afla vegaframkvæmdum fjár en að velta því með síauknum þunga á vöruverð, vöruflutninga og þá sem aka og eiga bíl.

Eins og fram kemur í nál. mun þessi skattur leggjast þyngst á þá sem eru háðir flutningum og akstri. Það segir sig sjálft að þegar inn- og útflutningshafnir eru orðnar fjórar eða fimm í landinu og nánast allur innflutningur fer um hafnirnar á suðvesturhorninu, um Reykjavíkurhöfn og Hafnarfjarðarhöfn, og allar vörur síðan fluttar út á land þá hlýtur að skipta máli hver flutningskostnaðurinn er og hvernig hann er lagður á. Þá gefur augaleið að þeir sem búa úti á landi finna fyrir því að innflutningshöfnin og jafnvel einnig útflutningshöfnin, sem þeir senda afurðir sínar um, getur verið í mikilli fjarlægð. Þá hlýtur flutningskostnaðurinn að skipta afar miklu máli. Allar breytingar og hækkanir á þessum liðum koma beint fram í auknum álögum á atvinnustarfsemi fjarri útflutningshöfnunum. Flutningskostnaðurinn leggst einnig á vörur í verslunum sem staðsettar eru fjarri þessum höfnum.

Þess vegna, virðulegi forseti, tel ég að fara eigi í heildarathugun á því hvernig lækka megi flutningskostnað í landinu, sérstaklega á vörum og þjónustu til og frá landsbyggðinni. Inn- og útflutningur fer mest um hafnir á þessu svæði. Það væri líka í samræmi við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf síðasta vetur í kjölfar skýrslu sem unnin var á vegum samgrh. um flutningskostnað í landinu. Hún sýndi að flutningskostnaður hafði vaxið gríðarlega á örfáum árum. Þar var um að ræða 70% hækkun á um tveggja til fjögurra ára tímabili.

Ég tel mikilvægt að fara ofan í þessi mál og athuga hvernig megi bregðast við. Haldi fram sem horfir, að þessi flutningskostnaður haldist jafnhár, haldi jafnvel áfram að aukast, þýðir það náttúrlega að samkeppnisstaða atvinnulífs og búsetu úti á landi verður stórlega skert, að því er virðist þvert á stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

Mig minnir að því hafi verið lýst yfir síðasta vor í kjölfar skýrslu hæstv. samgrh. um stóraukinn flutningskostnað á landsbyggðinni að fela ætti Byggðastofnun að gera úttekt á þessu máli og tillögur um hvernig mætti lækka flutningskostnað og styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífs og búsetu á landsbyggðinni.

Ég hefði viljað sjá slíkar tillögu á borðum í þinginu um leið og rætt er um auknar álögur á umferðina og þá sem standa í flutningum á vörum, þjónustu og fólki hér á landi. Þannig mætti taka á þessu máli heildstætt.

Ég ítreka að það ber að standa vörð um framlög til vegagerðar hér á landi. Við vildum að enn yrði bætt þar í og það væri í sjálfu sér hægt án þess að bensíngjald, olíugjald og þungaskattur yrðu eini tekjustofninn. En þegar málið snýst um aukinn kostnað sem lendir á neytendum þá verðum við að staldra við og spyrja: Hvað erum við að gera?

Í umsögn bæjarráðs Akureyrar um þetta frv. segir, með leyfi forseta:

,,... hækkun sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í mótsögn við yfirlýstar fyrirætlanir stjórnvalda um lækkun flutningskostnaðar.``

Virðulegi forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efh.- og viðskn., flytur hér brtt. við frv. sem ég tel afar mikilvægt að nái fram að ganga. Hún gengur út á að styrkja stöðu almenningssamgangna í umferðinni og að þeir skattar sem hér er verið að leggja á leggist a.m.k. ekki á almenningssamgöngur. Það væri í samræmi við umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Samtökin vilja vekja sérstaka athygli á stöðu hópbifreiða á Íslandi sem hafa búið í mörg ár við stórfelldan taprekstur og mjög takmarkaða endurnýjun. Eigi að vera rekstrargrundvöllur fyrir hópbifreiðar verður að lækka skatta og gjöld af þessari atvinnustarfsemi frekar en að hækka álögur.``

Ég tel, virðulegi forseti, að það beri að huga að þessu öllu samtímis þegar við leggjum á skatta sem þessa. Við megum ekki skerða vöxt eða rekstrargrundvöll mikilvægra atvinnugreina í landinu, t.d. ferðaþjónustunnar. Ég tel að það eigi að taka þessa umsögn alvarlega.

[14:45]

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt mikla áherslu á almenningssamgöngur. Þegar rætt var á Alþingi um samgönguáætlun sem hæstv. samgrh. lagði fram fyrir líklega liðlega ári síðan eða einu hálfu ári síðan þá lagði ég sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í samgn. fram í nefndaráliti mínu gríðarlega áherslu á að efla og styrkja samkeppnisstöðu almenningssamgangna, bæði innan þéttbýlis og milli landshluta. Af því hlýst samgöngulegur sparnaður ef hægt er að efla og auka hlut almenningssamgangna. Auk þess eru almenningssamgöngur afar þýðingarmiklar fyrir fjölda fólks, ungt fólk, skólafólk, fólk sem hefur mismunandi aðstæður til að eiga og reka bíl, fyrir skólaakstur, fyrir fólk á leið í vinnu, fyrir eldri borgara og fyrir ferðaþjónustuna vítt og breitt um landið. Þess vegna verðum við að standa vörð um almenningssamgöngurnar.

Ég vil víkja að umsögn sem Samtök fámennra skóla sendu frá sér, að vísu í tengslum við breyttar úthlutunarreglur jöfnunarsjóðs, en þær reglur, reglur jöfnunarsjóðs, lutu einmitt að því að skerða framlög til skólaaksturs hjá ákveðnum sveitarfélögum. Samtök fámennra skóla á landsbyggðinni vekja athygli á mikilvægi þess að kostnaður við skólaakstur verði sem allra minnstur þannig að hægt verði að ná sem bestri hagkvæmni og öryggi í að flytja börn til og frá skóla. Þess vegna skiptir máli tillaga sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur lagt hér fram um að undanþiggja skólaakstur svona álögum. Það mundi strax vera stuðningur við almenningssamgöngur og skólaakstur í landinu.

Í umsögn borgarráðs Reykjavíkurborgar um þetta frumvarp segir, með leyfi forseta:

,,Aukin hlutdeild almenningssamgangna leiðir til hlutfallslega minni notkunar einkabíla, sparnaðar í viðhaldi gatna, auk þess að geta orðið til þess að seinka megi framkvæmdum við stór og kostnaðarsöm umferðarmannvirki um einhvern tíma, mannvirki sem að mestu eða öllu leyti eru greidd úr sjóðum ríkisins.``

Eiginlega benda allir umsagnaraðilar á mikilvægi almenningssamgangnanna og að þess sé gætt að almenningssamgöngur njóti vissrar sérstöðu í skattlagningu umferðar.

Þá vil ég og draga fram að úti um sveitir landsins er það í æ ríkari mæli þannig að fólk á sveitabýlum er farið að stunda atvinnu í næsta þéttbýli. Það er hluti af því að halda landinu í góðri búsetu að stunda vinnu fjarri heimili sínu. En því meiri skattlagning sem er á þessa umferð því óhagkvæmara verður það náttúrlega. Ástæða væri því til þess að finna leið til þess að gera slíkan akstur til og frá vinnu, eins og mig minnir að hv. þingmenn Frjálsl. hafi flutt tillögu um, frádráttarbæran til skatts með einhverjum hætti þannig að þessar álögur kæmu ekki með fullum þunga heldur jöfnum þunga á alla íbúa og alla notendur, allar samgöngur í landinu, að alla vega sé horft á þetta í heild.

Virðulegi forseti. Í þessu sambandi vil ég líka minna á tillögu sem fyrrv. hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hefur flutt á undanförnum þingum og var samþykkt sem þingsályktun frá Alþingi. Hún er um almenningssamgöngur í Eyjafirði. Þar hefur verið unnið visst sporgöngustarf í almenningssamgöngum innan héraðs. Við vitum að fjármagnið, kostnaðurinn, takmarkar notkun og útbreiðslu og möguleika almenningssamgangna. Þegar það er yfirlýst stefna Alþingis, yfirlýst stefna ríkisstjórnar og umhverfislega mjög vænt að efla almenningssamgöngur þá eigum við að gera það og horfa til þess þegar við samþykkjum lög um gjöld eða álögur á umferð.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma þessum atriðum á framfæri. Það hefur einnig komið fram í máli hv. þingmanna að hliðstæð tillaga og breytingartillaga sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir flytur hér kom fram fyrir tveimur eða þremur þingum, en hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir voru flutningsmenn hennar.

Skoða ber þessi mál í heild þegar við förum í að auka álögur á umferð í landinu og athuga hvernig þær koma niður á samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu. Samgöngur og kostnaður við þær skiptir þar afar miklu máli og fátt mismunar nú meir samkeppnisstöðu í búsetu og atvinnulífi en einmitt flutningskostnaðurinn. Þess vegna ber okkur að horfa til allra þessara þátta þegar við erum að auka álögur. Ég hefði samtímis viljað sjá ríkisstjórnina standa við einhverjar af stefnuyfirlýsingum sínum og velti fyrir mér hvernig hún ætlar að létta flutningskostnaði, lækka flutningskostnað á vörum og þjónustu í landinu.