Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:54:09 (2231)

2003-11-27 14:54:09# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að vekja athygli á þessum atriðum.

Ég vil í upphafi segja að ég lít á mig sem þingmann alls landsins. Hagsmunir höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar fara ávallt saman og eiga að gera það. Ég vil líka benda á að hv. þm. Álfhildur Ingadóttir hefur skilað mjög góðu nefndaráliti. Hún er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efh.- og viðskn. Hún er þingmaður Reykvíkinga og flutti mál sitt sem þingmaður alls landsins og það gerum við. Hagsmunirnir fara bara alltaf saman að mínu mati. Þannig alla vega eigum við að vinna og þannig vinnum við.

En það er alveg hárrétt hjá hv. þm. þetta með strandflutningana. Af hverju hafa þeir lotið í gras? Nú eru bara fjórar eða fimm útflutningshafnir á landinu eftir. Aðalútflutningurinn er hér. Hvað þýðir það fyrir fiskframleiðendur á Vestfjörðum t.d.? Það er engin útflutningshöfn á Vestfjörðum. Ísafjörður er ekki lengur útflutningshöfn. Það sem hefur breyst er að framleiðendur verða núna að greiða sjálfir fyrir kostnað á flutningnum innan lands á útflutningshöfn. Framleiðendur á Vestfjörðum eða þeir sem þar standa að framleiðslu verða að greiða sjálfir flutningskostnaðinn. Það er ekki lengur samræmdur flutningskostnaður á fiskútflutningi þannig að þeir verða að greiða fyrir flutninginn til Akureyrar, Eskifjarðar eða Reykjavíkur.

Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. um að það á að taka á samgöngumálum heildstætt. Af því að hann minntist á þessa stöðu þá flutti ég einmitt ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs till. til þál. í fyrra um strandsiglingar, um að skipuð yrði nefnd sem kæmi með tillögur um hvernig mætti styrkja samkeppnisstöðu strandsiglinga. Í hv. samgn., þar sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson var formaður og ég átti einnig sæti í, var samþykkt að vísa þessari tillögu minni um strandsiglingar til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar. Þetta var því mjög góð ábending hjá hv. þm.