Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:36:49 (2240)

2003-11-27 15:36:49# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, Frsm. BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eitthvað að, sagði hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson. Það er nokkur sannleikur í því vegna þess að samkvæmt upplýsingum sem allshn. fékk frá dómsmrn. er í gangi endurskoðun á almennum lögum um happdrætti. Ég tel að í þeirri umræðu sem fram fer um þetta frv., frv. til laga um breyting á Happdrætti Háskóla Íslands, sé nauðsynlegt að menn geri greinarmun á þeirri starfsemi sem fer fram á grundvelli þeirra laga annars vegar og síðan þeirri starfsemi sem fer fram á grundvelli laga um talnagetraunir.

Vissulega er oft mjótt á munum með það hvenær um er að ræða happdrætti eða talnagetraunir og aðra starfsemi af því tagi sem stunduð er hér á landi, í langflestum tilvikum í fjáröflunarskyni fyrir ýmis góðgerðar- og æskulýðsmál.

Það er nauðsynlegt að hafa í huga að í nál. því sem ég hef nú mælt fyrir eru mjög eindregin tilmæli nefndarinnar að hraðað verði heildarendurskoðun happdrættislöggjafarinnar. Þetta var ég búinn að fara yfir fyrr í máli mínu. Þar er jafnframt komið að þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur viðrað, varðandi athugasemdir Samkeppnisstofnunar. Þær eru teknar upp í nál. og vakin sérstök athygli á þeim. Þar af leiðandi mun nefndin fylgja því fast eftir, vonandi fastar en gert hefur verið frá árinu 1993 þegar nefndin ályktaði síðast um málefni sem lutu að einkaleyfinu, og sjá til að þessi endurskoðun fari fram.

Loks vil ég geta þess að háskólinn fékk málið til umsagnar og mælti mjög eindregið fyrir því að einkaleyfið yrði framlengt.