Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:43:31 (2243)

2003-11-27 15:43:31# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir ágæta ræðu um þetta mál og aðdraganda þess. Að vísu má lesa út úr nál. hvernig þetta mál hefur þróast á undanförnum árum. Þar er varað við ýmsu eins og samkeppnisforskoti gagnvart vöruhappdrættum og því velt upp hvort verið sé að torvelda frjálsa samkeppni á markaðnum o.s.frv.

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, sem flutti hér ágætt mál áðan, hvort hann skilji þetta svipað og ég. Mér virðist sem hér sé verið að leggja til að framlengja lög sem brjóta lög. Ég get ekki lesið annað út úr þessu.

Í síðustu málsgrein er skorað á dómsmrh. að hraða endurskoðun sem mest má verða. Til að komast undan hverju?

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég held að við séum á ákaflega hálli braut, að fara svona í þetta mál. Ég skil vanda nefndarmanna við að fjalla um þetta mál á þessum tímapunkti, að fram undan er að leyfið falli úr gildi og allt það. En ég held það hefði verið betra að gefa samkeppnina frjálsa að þessu leyti svo að menn séu ekki í þeirri stöðu sem mér virðist dómsmrh. settur í, að reyna að vinna sig undan því lögbroti sem lagt er til að viðhalda eins stuttan tíma og mögulegt er.