Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:45:41 (2244)

2003-11-27 15:45:41# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir innlegg hans í þá gagnrýni sem ég hef flutt. Ég get alveg tekið undir það með honum að við gerum okkur fulla grein fyrir því að tíminn er stuttur og nefndin sett í ákveðinn vanda, ég skil það mætavel. En auðvitað er það svo að við komum bara hér upp til þess að tjá hug okkar, hvernig okkur er innan brjósts gagnvart málinu. Og það lá alveg ljóst fyrir að í desember á því herrans ári 2003 rynni einkaleyfið út og það vissi dómsmrn. og kemur þess vegna allt of seint með þetta mál. Það fór ekkert fram hjá dómsmrn. þegar ég flutti frv. til breytinga á lögum um happdrætti DAS og SÍBS. Það fór ekkert fram hjá þeim, þeir vissu alveg um málið og vissu að þetta einkaleyfi yrði áfram gagnrýnt. Og þess vegna, eins og ég sagði áðan, er það svo sérkennilegt hvernig menn geta í skjóli þessarar ólöglegu lagasetningar, eins og samkeppnisráð hefur úrskurðað, veitt öðrum aðilum heimild til þess að greiða út vinninga í peningum, þó að alltaf megi deila um það hvað eru getspár, hvað er talnagetspá. Eins og ég sagði áðan er talnagetspá það ef menn kaupa einhvern miða með tölum á annaðhvort sem þeir strika yfir sjálfir eða velja sjálfir. Það má alltaf deila um það en hins vegar eru til sérstök lög um þetta. En mér finnst það óyndisúrræði að lengja þessi lög til þess að einhver nefnd sem búin er að sitja að störfum í áraraðir haldi bara áfram að sofa þyrnirósarsvefni í því starfi sem hún átti að vera löngu búin að skila af sér.