Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:50:14 (2246)

2003-11-27 15:50:14# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom inn á, þ.e. hvað það áhrærir að við skulum ekki rugga bátnum til þess að valda óstöðugleika innan fjáröflunarleiða þeirra þriggja fyrirtækja sem hér hafa svo oft verið nefnd. Ég get alveg tekið undir það. Hins vegar hefur dómsmrn. haft góðan tíma til þess að vinna að lausn þessa máls í ljósi þess sem ég sagði áðan varðandi aðra aðila sem komið hafa inn á happdrættismarkaðinn, og þó að kalla megi þá einhverjum talnagetraunanöfnum þá er það alltaf umdeilanlegt.

En ég hlýt að spyrja: Hvernig fer dómsmrn. með þann möguleika sem menn eiga nú orðið á internetinu til að taka þátt í happdrætti? Þetta er orðið svo alþjóðavætt að það er umhugsunarefni út af fyrir sig. Og þess vegna m.a. er það auðvitað nauðsynlegt að menn gæti stöðu sinnar og hleypi þessu ekki í óefni, en það er hins vegar að gerast með endurnýjun þessarar lagasetningar.

Hvað það varðar sem hér var komið inn á að hv. þm. sé ekki talsmaður einkaleyfis eða einkaleyfisgjalda þá er ég alveg sammála honum. Hins vegar er ég búinn að lýsa því yfir og ég þykist tala fyrir munn tveggja happdrætta, DAS og SÍBS, að þau mundu greiða hluta af því gjaldi miðað við veltu eins og önnur happdrætti ættu þá eðlilega að gera, hvort sem þau heita getspár eða talnaleikir eða hvað það er, þannig að allir sitji við sama borð.

En auðvitað viljum við öll að málið fái farsælan endi og leiði til frjálsræðis. Það er auðvitað mál málanna.