Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:55:09 (2248)

2003-11-27 15:55:09# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Nú bregður hins vegar svo við, eins og kemur fram í þessum texta, að nefndin segir að það kunni að vera að þetta brjóti gegn lögum. Ég minnist þess ekki að það hafi komið úrskurður frá samkeppnisráði sem hafi farið til dómstólanna vegna þess að menn hafi ekki talið hann lögmætan eða réttan. Ég fer kannski með rangt mál. Ég minnist þess ekki að áliti samkeppnisráðs hafi verið vísað til æðri dómstóla sem markleysu. Það er svo skýrt og skorinort sem sagt er hér í áliti samkeppnisráðs: ,,Einkaleyfið fer því gegn markmiðum samkeppnislaga``. Það er kannski þeirra aðila sem hér eiga hlut að máli, Happdrættis Sambands íslenskra berklasjúklinga og Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, að fara með þetta til æðri dómstóla. En ég hélt að hér væri löggjafinn það vís að hann þyrfti ekki að vera með slíka tilvísun í sínu nefndaráliti að þar væri skilið eftir eitthvert spurningarmerki við eigin vangaveltum. Ég skil ekki að hér í ágætu starfsliði innan Alþingis fyrirfinnist ekki lögmenn sem geti bara sagt það nánast hér og nú að orðalag Samkeppnisstofnunar sé svo ljóst að menn sem ekki hafa lært lögfræði hljóti að sjá það að þetta liggur alveg ljóst fyrir.