Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:05:51 (2251)

2003-11-27 16:05:51# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Þessi lagabreyting hlýtur að vera sjálfstæð ákvörðun þingsins. Ég tel því ekki sérstaklega sterkar röksemdir að tala um að hér sé á ferðinni einhvers konar hefðbundin lenging. Ég tel einnig að við séum komin á afar hættulegar slóðir þegar við erum að samþykkja einkaleyfi eins happdrættis til 15 ára vitandi það að Happdrætti Háskóla Íslands mun hugsanlega ekki geta treyst á það leyfi í þessi 15 ár.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson hvetur til endurskoðunar og það er talað um það í nefndarálitinu. Það er rétt. Það er alveg nauðsynlegt að endurskoða happdrættislöggjöfina frá grunni. Þess vegna höfum við í Samf. í allshn. sett fyrirvara við þennan langa tíma. Við sjáum ekki þörf á því og teljum það beinlínis vera ósanngjarnt gagnvart öllum hagsmunaaðilum að binda leyfi til svo langs tíma, vitandi að við erum að fara að endurskoða alla þessa happdrættislöggjöf frá grunni.