Grein í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:31:17 (2259)

2003-11-27 16:31:17# 130. lþ. 37.91 fundur 191#B athugasemd í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Það er ástæða til að rifja upp það sem Ríkisendurskoðun sagði í skýrslu sinni og vefritið er einmitt að vitna til vegna þess að af einhverri sérkennilegri tilviljun er megináherslum Ríkisendurskoðunar sleppt úr varðandi það hvernig á því stendur að rammarnir hrynja allir um leið og fjárlagafrv. er lagt fram. Hvað segir Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni? Jú, þar er í fyrsta sæti við að brjóta rammana ríkisstjórnin sjálf. Það er ekki minnst á það í þessu vefriti að ríkisstjórnin komi neitt að því, heldur er gefið í skyn að það sé þingið eða fjárln. sem leiði það að brjóta niður rammana. Það er óvart ríkisstjórnin sjálf og, frú forseti, það er engin undantekning á því núna við vinnu fjárlaganna fyrir næsta ár. Þar er ríkisstjórnin í fararbroddi við að berja niður sína eigin ramma. Það er ekki skrýtið þó að þetta sérkennilega vefrit velji úr skýrslunni. Það væri ástæða til að hæstv. ráðherra upplýsti okkur um hver væri ábyrgðarmaður fyrir því. Hvernig stendur á því að það er ráðist núna sérstaklega að ríkisendurskoðanda sem svaraði fyrir sig á viðeigandi hátt þegar þessar bréfaskriftir enduðu hjá því embætti?

Það er fleira, frú forseti, sem er athyglisvert í þessu vefriti. Þar segir m.a. að þetta sé ekki gert svona í fyrsta skipti heldur hafi ríkisstjórnin ákveðið það sama og hún hafi gert mörg undanfarin ár. Við höfum hins vegar aldrei fengið svör við þessari spurningu okkar: Hefur ráðuneytið áður sent út slíkt tilskipunarbréf eins og fór út í haust? Það hefur þá verið vel falið og miklu betur falið en það bréf sem við fengum í hendur nú í haust.

Það er annað, frú forseti, sem líka er rétt að vekja athygli á í þessu vefriti. Þar segir að ríkisendurskoðandi hafi hótað því að hann kæmi til fjárln. til þess að brjótast út úr römmunum. Það vill svo til, frú forseti, að ég las þetta bréf frá orði til orðs í fyrradag í þessum sal. Í því bréfi er hvergi neitt um það að ríkisendurskoðandi láti sér detta í hug að fara út fyrir rammann. Það er hvergi á það minnst þannig að það er greinilegt að í fjmrn. kunna menn að brjóta rammann.