Grein í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:38:04 (2262)

2003-11-27 16:38:04# 130. lþ. 37.91 fundur 191#B athugasemd í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun# (aths. um störf þingsins), EOK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Frá því að ég hóf fyrst störf í fjárln. hefur mér verið vel kunnugt um vilja ráðuneytanna og vilja fjmrn. til þess að undirstofnanir þeirra færu eftir því verklagi sem rammafjárlögin útheimta. Aldrei hefur verið gerð athugasemd við þann vilja frá formanni eða varaformanni fjárln., litið á það sem eðlilegt og sjálfsagt að ráðuneytin stýri undirstofnunum sínum. Alla tíð hefur hins vegar verið mjög skýrt að allar þær stofnanir, fyrirtæki eða einstaklingar sem þess óskuðu gætu fengið viðtal við fjárln. Alþingis. Aldrei hefur nokkuð hamlað því.

Á þessu hausti hefur það verið tekið sérstaklega fram og fundin til þess ný tækni svo að allir gætu komist að sem vildu. Þetta bréf sem menn hafa eytt svo miklum tíma í að ræða hefur ekki truflað störf þingsins eða fjárln. í einu eða neinu. (GÁS: ... enn þá í fjmrn.?) Hér hefur allt gengið eðlilega fyrir sig enda er þetta núna á þeirri áætlun sem þingið gerði ráð fyrir svo sem menn máttu vænta eins og þeir hafa séð á undanförnum árum. Það er ekki undan neinu að kvarta í þessum efnum og ég veit ekki betur en að stjórnarandstaðan í fjárln. hafi fengið allar óskir sínar uppfylltar um að ræða við hvern þann sem hugur þeirra hefur girnst að tala við. Hér er, virðulegi forseti, verið að ræða um eitthvert vandamál sem ég átta mig ekki á í hverju er fólgið nema ef vera skyldi, virðulegi forseti, að menn hefðu bara svona lítið til að tala um að þeir notuðu þetta bréf til þess að eyða stundum sínum og sinna lund sinni. Vandamálin eru engin eins og ég hef sagt. Þetta gengur allt prýðilega. Svo er líka mikil samstaða í fjárln., mikil eindrægni, þannig að það hefur ekkert truflað á nokkurn hátt.