Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:44:34 (2264)

2003-11-27 16:44:34# 130. lþ. 37.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁI
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:44]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Álfheiður Ingadóttir):

Virðulegi forseti. Að felldri þeirri tillögu sem ég flutti og gerði grein fyrir í dag er ljóst að ekki er vilji fyrir því hjá meiri hlutanum að létta 30% þungaskatti af almenningsvögnum í áætlunarferðum. Samþykkt tillögunnar hefði létt um 50 millj. kr. greiðslum af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri, á Ísafirði, í Fjarðabyggð, Reykjanesbæ og víðar en á þessum stöðum hafa sveitarfélögin haft frumkvæði að því að halda úti almenningssamgöngum í umdæmi sínu, enda þótt það sé ekki lögboðið verkefni sveitarfélaganna.

Sá milljarður sem með þessu frv. er verið að leggja á heimilin í landinu mun hækka vöruverð sérstaklega úti um land og mun auka skuldir heimilanna um tæpan milljarð króna.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mun áfram reyna að koma vitinu fyrir stjórnarmeirihlutann hvað varðar aukna hlutdeild almenningssamgangna í umferðinni hjá okkur vegna þess að aukin hlutdeild almenningsvagna leiðir til hlutfallslega minni notkunar einkabíla, sparnaðar í viðhaldi gatna og getur jafnvel orðið til þess að seinka megi framkvæmdum við kostnaðarsöm umferðarmannvirki, mannvirki sem að mestu eða öllu leyti eru greidd úr sjóðum ríkisins. Við höfum þess vegna lagt fram frv. um að endurgreiða virðisaukaskatt af kaupum á almenningsvögnum til samræmis við það sem gert hefur verið með hópferðabíla. Það mun því gefast annað tækifæri til þess hér á hv. Alþingi að létta álögum af almenningssamgöngunum.