Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:53:21 (2267)

2003-11-27 16:53:21# 130. lþ. 37.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 frá 13. apríl 1973. Eins og komið hefur fram í máli manna hér í umræðunni var hv. allshn. vissulega vandi á höndum við afgreiðslu málsins.

Auðvitað er þessi afgreiðsla nefndarinnar sem hér hefur verið gagnrýnd málamiðlun. Hún er málamiðlun vegna þess að tímapressa var á nefndinni við afgreiðslu málsins. Það sjá allir sem vilja sjá að einkaleyfi Háskóla Íslands til reksturs peningahappdrættis er að renna út núna um áramótin, þ.e. eftir einn mánuð, og það var alveg ljóst að nefndin þurfti að gera einhvers konar björgun, nefndin þurfti að fara í björgunaraðgerðir. Og hverjum er nú um að kenna í þeim efnum? Jú, hæstv. dómsmrh. að sjálfsögðu. Það hefði verið hægur vandi hjá honum að leggja þetta mál fram miklu fyrr og gera nefndinni miklu fyrr grein fyrir því hver staða málsins væri, þ.e. hver staða þeirrar heildarendurskoðunar happdrættismála væri innan veggja ráðuneytisins en eins og komið hefur fram í umræðunum liggur það ekki ljóst fyrir.

Ég held ég geti talað fyrir munn nefndarinnar, okkur þótti öllum afar bagalegt að við skyldum ekki hafa meira svigrúm til að vinna í málinu. Þess vegna er orðalagið í niðurlagi nál. með þeim hætti sem raun ber vitni. Nefndin telur að leysa þurfi úr því hratt og vel hvort þessar athugasemdir sem gerðar hafa verið við frv. séu réttmætar og eigi við rök að styðjast. Nefndin dregur ábendingarnar í sjálfu sér ekki í efa en vísar því beinlínis til dómsmrn. að endurskoðun verði hraðað á happdrættislöggjöfinni sem mun standa yfir og er auðvitað orðin óheyrilegur dráttur á því starfi.

Einnig finnst mér mjög mikilvægt að nefndin skuli hafa sett inn í nál. að forsendur einkaleyfisgjaldsins séu kannski líka á tæpu vaði. En það segir í nál., með leyfi forseta:

,,Jafnframt verði hugað að forsendum einkaleyfisgjaldsins.``

Auðvitað gefur þetta til kynna að nefndin vilji hraða skoðun á því hvort eðlilegt sé að einkaleyfisgjaldið sé við lýði.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur sagt það hér í ræðustól að hann fyrir hönd nefndarinnar muni fylgja þessu máli eftir við samflokksmann sinn, hæstv. dómsmrh., og ég treysti hv. þm. fullkomlega til þess. Ég treysti því að hann muni halda þeirri pressu á ráðherranum þannig að þess verði ekki langt að bíða að við fáum frv. um endurnýjaða löggjöf.

En eins og ég segi, virðulegi forseti, var nefndinni sannarlega vandi á höndum við afgreiðslu málsins og það var hæstv. dómsmrh. sem setti nefndina í þann bobba.

Nú er rétt að taka fram í umræðunni að það mun vera svo að Háskóli Íslands er ekki eini aðilinn sem hefur einkaleyfi á rekstri þess sem kalla mætti happdrætti en auðvitað má deila um þessi hugtök, happdrætti eða talnagetraunir. Ég er sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni að við skulum ekki rugla því saman, það eru tveir ólíkir hlutir samkvæmt skilgreiningu laganna, en það er hins vegar afar mjótt á milli þessara tveggja forma og við getum ekkert horft fram hjá því.

Í umfjöllun um málið fékk nefndin þær upplýsingar að Háskóli Íslands væri ekki eini aðilinn sem hefði einkaleyfi. Hann er eini aðilinn sem hefur einkaleyfi samkvæmt þeim lögum sem hér er um fjallað, en Íslensk getspá, Íslenskar getraunir og Íslenskir söfnunarkassar hafa líka einkaleyfi á þeirri starfsemi sem þeim er heimiluð samkvæmt lögum um talnagetraunir. Og það skýtur vissulega skökku við að þau leyfi sem þessi fyrirtæki hafa skuli ekki háð neinu einkaleyfisgjaldi. Og það verður enn undarlegra, virðulegur forseti, þegar það er skoðað að söfnunarkassar eða happdrættisvélar Háskóla Íslands sem háskólinn hefur heimild til að reka lúta kröfunni um einkaleyfisgjald á meðan aðrir happdrættiskassar lúta engri slíkra kröfu. Upplýsingar þær sem nefndin aflaði við þessa vinnu leiða í ljós svo óyggjandi er að hér er pottur brotinn og það mölbrotinn vil ég segja.

Ég vil því meina að þau leyfi sem Íslensk getspá, Íslenskar getraunir og Íslenskir söfnunarkassar hafa geti e.t.v. kallast dulbúin einkaleyfi í ljósi þess að þar er öðrum aðilum ekki heimilað að vera með sams konar starfsemi á sama markaði. Þess vegna er eðlilegt að spyrja: Hvers vegna í ósköpunum er það þá Happdrætti Háskóla Íslands eitt fyrirtækja eða stofnana sem borgar slíkt einkaleyfisgjald?

Í þessum tilfellum er það í höndum ráðuneytisins hverjir fá leyfi til að reka söfnunarkassa eða happdrættiskassa og má þess vegna segja að þeir aðilar sem hafi einhvers konar heimild til happdrættisstarfsemi séu með einkaleyfi á þeirri tegund starfsemi sem þar um ræðir.

Ég er sammála hv. formanni allshn. um að einkaleyfi sé tímaskekkja. Ég vil aflétta því. Ég tel að það sé íþyngjandi fyrir Háskóla Íslands að þurfa að greiða stóran hluta, á annað hundrað milljónir á ári til ríkissjóðs, sem heimild fyrir að fá að reka þetta peningahappdrætti sitt.

Ég get líka tekið undir ýmislegt í gagnrýni hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar sem talaði fyrst í umræðunni. Hann hefur vissulega mjög margt til síns máls og í ræðu hans kom fram að þetta kerfi er nánast gengið sér til húðar þegar vöruhappdrættin, Happdrætti DAS og SÍBS þurfa nánast að leggja sig í líma við það að fá viðskiptavinum sínum það verkefni að þeir útvegi nótur fyrir þeim vöruúttektum sem um ræðir.

Það eru sannarlega oft óljós skil milli þess að greiða út peninga eða greiða eitthvað út gegn kvittunum fyrir vörum. Ég held að ég verði að segja að sú skilgreining riðar nánast til falls. Ég tek því undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Vöruhappdrættin eiga að sjálfsögðu rétt á því að litið sé málefnalega til sérhagsmuna þeirra og með málefnalegri hætti en hér er gert. Hér hefur ekki verið hægt að fjalla um málið ofan í kjölinn. Tímapressan er það mikil að til að bjarga málum fyrir horn fyrir áramót þurfti afgreiðslan að vera með þessum hætti.

Þar sem ég hef ekki atkvæðisrétt í allshn. --- ég er þar eingöngu áheyrnarfulltrúi --- kom ekki til þess að ég gerði annað en að lýsa yfir stuðningi við fyrirvara fulltrúa Samf. í nefndinni. Það var ekki nauðsynlegt fyrir nefndina að afgreiða þetta mál til svo langs tíma. Að mínu mati var ekki nauðsynlegt að endurnýja þetta fyrirkomulag til 15 ára. Það hefði kannski verið hægur vandi og sett meiri pressu á málið ef nefndin hefði verið fús til að samþykkja að þetta yrði aðeins framlengt til eins árs. Þá hefði skapast enn meiri þrýstingur á dómsmrh. og það hefði sagt skýrar til um vilja nefndarmanna. Mér finnst að hann liggi ljós fyrir. Það verður að endurskoða heildarlöggjöf um happdrætti.