Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:33:22 (2274)

2003-11-28 10:33:22# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), Flm. JGunn (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Þann 13. nóvember sl. átti ég orðræðu við hæstv. utanrrh. um atvinnuástand á Suðurnesjum og uppsagnir varnarliðsins á tæpu hundraði starfsmanna sem þá höfðu nýlega verið tilkynntar. Hæstv. utanrrh. sagðist þá ekki vilja ræða atvinnumál á Suðurnesjum undir utanríkismálum en væri tilbúinn í þá umræðu hvenær sem væri. Því erum við hér.

Fyrstu fréttir af stórfelldum uppsögnum á Keflavíkurflugvelli voru þær að 90 starfsmönnum varnarliðsins yrði sagt upp störfum frá 1. nóvember. Eftir að athugasemdir voru gerðar og bent á að uppsagnir samræmdust ekki lögum um hópuppsagnir voru þær dregnar til baka til að ráðrúm gæfist til lögskipaðs samráðs við verkalýðsfélög sem hlut áttu að máli. Samráðinu er lokið og nú segir varnarliðið upp 102 starfsmönnum. Mér skilst þó að með samráðinu hafi tekist að koma annarri áferð á uppsagnirnar en áður var og að þeim starfsmönnum sem missa vinnuna verði hjálpað við atvinnuleit og til að takast á við það áfall sem það alltaf er að missa vinnuna.

Framkvæmd fyrstu uppsagna var ákaflega fruntaleg og það verður að segjast að þær komu eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir þá sem fyrir urðu.

Virðulegi forseti. Ég hef áður farið yfir það fyrir hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson að þær uppsagnir sem við nú ræðum voru ekki fyrirséðar í ljósi yfirlýsinga hans og hæstv. forsrh. Þegar það var gert opinbert eftir kosningar í maí að ráðamenn í Bandaríkjunum vildu nánast loka flotastöðinni á Miðnesheiði óttuðust menn hið versta en eftir frægar bréfaskriftir og samskipti milli stjórnvalda hér og í Bandaríkjunum var það fullyrt af stjórnarherrunum að tekist hefði að koma í veg fyrir boðaðan samdrátt á Keflavíkurflugvelli. Ekki yrði dregið saman í umsvifum varnarliðsins nema að undangengnu samráði við íslensk stjórnvöld. Ekki er vitað til þess að í undanfara þeirra uppsagna sem hér um ræðir hafi farið fram tvíhliða viðræður milli þjóðanna og því er ekki óeðlilegt að upplýsinga sé leitað um stöðu mála.

Við höfum heyrt þær skýringar að samdrátturinn sé tilkominn vegna minnkunar á fjárheimildum stöðvarinnar og það sé skýringin á uppsögnunum. Með öðrum orðum þurfi ekkert að ræða við íslensk stjórnvöld svo lengi sem hægt sé að kenna um fjárskorti. Hér er um skrýtna skýringu að ræða og hún gengur varla upp í því samhengi að áður en einhver samdráttur yrði þyrftu þjóðirnar a.m.k. að ræða saman.

Virðulegi forseti. Það hefur verið talsvert atvinnuleysi á Suðurnesjum undanfarin missiri sem verður til þess að þessar miklu uppsagnir hjá varnarliðinu koma enn verr niður á svæðinu en ella hefði orðið. Nýjustu tölur eru þær að 341 einstaklingur sé atvinnulaus. Það hljóta allir að sjá að uppsögn yfir 100 starfsmanna í slíku atvinnuástandi er mikið áfall.

Til viðbótar þessu eru uppi miklar umræður um að þessi tilkynnti samdráttur hjá varnarliðinu sé aðeins byrjun á miklu meiri niðurskurði. Heyrst hefur að hér sé einungis um að ræða 1/3 af fyrirhuguðum uppsögnum eða samdrætti. Engin svör hafa fengist þegar leitað hefur verið eftir. Við skiljum ekki værukærð stjórnvalda í málinu og það er algjörlega ábyrgðarlaust og óboðlegt með öllu að hafast ekkert að.

Virðulegi forseti. Á Suðurnesjum býr duglegt og harðgert fólk sem hefur í gegnum tíðina bjargað sér sjálft. Það munum við eflaust gera í þetta skiptið einnig en við teljum að stjórnvöld beri ábyrgð í því máli sem upp er komið. Við gerum þá kröfu að stjórnvöld upplýsi okkur um ástand mála eins og réttast er vitað um það hverju sinni en stingi ekki höfðinu í sandinn og neiti því að upp sé komið vandamál þegar það blasir við öllum sem það vilja sjá. Stjórnvöldum ber að leita leiða í samráði við heimamenn til að minnka það högg sem þeir sem missa vinnuna verða fyrir.

Samfylkingarmenn hafa sett fram tillögu í fjárlagagerðinni um að ríkinu verði heimilað að selja 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja og skuli andvirðinu varið til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu. Það er von mín að sem flestir þingmenn styðji þá tillögu þegar hún kemur til atkvæða 5. desember og staðfesti þannig vilja sinn til að bregðast við í verki.

Spurningar sem ég hef sent hæstv. utanrrh. eru þrjár og vonast ég til þess að fá við þeim skýr svör.

1. Var utanrrh. kunnugt um umræddar uppsagnir áður en verkalýðsfélögunum var tilkynnt um þær? Ef svo er, hvenær lágu þær upplýsingar fyrir? Eru þessar uppsagnir í beinu framhaldi af viðræðum eða samkomulagi milli íslenskra ráðherra og yfirmanna í Hvíta húsinu?

2. Er ráðherra kunnugt um frekari uppsagnir starfsmanna á næstu 12 mánuðum? Undanfarið hafa komið fram upplýsingar í fjölmiðlum um meintan verulegan samdrátt í starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á næstu þremur árum. Er ráðherra kunnugt um þær fyrirætlanir og má vænta frekari uppsagna í tengslum við þær?

3. Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ráðist verði í sértækar aðgerðir til að efla atvinnulíf á Suðurnesjum í framhaldi af hópuppsögnum varnarliðsins?