Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:43:54 (2276)

2003-11-28 10:43:54# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Svæðisfélag Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á Suðurnesjum hélt fund í Keflavík í gærkvöldi um stöðuna í hermálinu og atvinnumál í því ljósi. Þar komu fram miklar áhyggjur af stöðu mála hjá forustumönnum í verkalýðsfélögum, formanni Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og formanni Verslunarmannafélags Suðurnesja, og sömuleiðis hjá sveitarstjórnarmönnum úr Sandgerði og Keflavík sem þarna voru staddir.

Það sem alvarlegast er kannski er að menn óttast áframhaldandi og afleiddar uppsagnir, eins konar keðjuverkun, að verktakar og þjónustufyrirtæki segi nú upp hjá sér í kjölfar samdráttar hjá hernum sjálfum, jafnvel að atvinnuleysi geti farið í 600--700 manns í febrúar, mars, þ.e. upp undir tvöfaldast frá því sem nú er. Ég vil taka það fram að þrátt fyrir þessar dökku horfur fannst mér vera baráttuhugur í Suðurnesjamönnum og menn hafa fullan vilja til að takast á við vandann, bæði þann sem leiðir beint af samdrætti og væntanlega að lokum brottför hersins og eins þann vanda sem stafar af erfiðleikum í atvinnulífi almennt, t.d. í sjávarútvegi. Það þýðir að sjálfsögðu ekkert annað en horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Það er tilgangslaust og siðferðilega óverjandi að berja höfðinu við steininn og reyna að ríghalda í óbreytt ástand, útgjöld til hernaðarmála sem engin rök standa lengur til í Keflavík. Það er eðlileg krafa heimamanna og allra sem áhuga hafa á málinu að þau komist í einhvern farveg og mig undrar að t.d. skuli ekki vera starfandi einhver samráðsnefnd heimamanna og stjórnvalda við þessar aðstæður þar sem menn gætu borið saman bækur sínar, heimamenn fengju aðgang að upplýsingum og málin yrðu rædd og krufin til mergjar. Og ég fer fram á það að utanrrn. standi betur að málum hvað varðar samráð og upplýsingagjöf við heimamenn í þessum efnum en það hefur bersýnilega gert hingað til.