Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:57:12 (2282)

2003-11-28 10:57:12# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), KÓ
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Kjartan Ólafsson:

Hæstv. forseti. Uppsagnir hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli eru alvarleg tíðindi fyrir atvinnumál á Suðurnesjum. Þó eru þau alvarlegri fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem verða fyrir þessum ákvörðunum. Hjá varnarliðinu hafa starfað um 900 Íslendingar og líklega hafa um 800--900 aðrir Íslendingar atvinnu af því að sinna þjónustu kringum varnarliðið. Uppsagnir 100 starfsmanna eru því ríflega 10% af þeim mannafla sem ráðinn er til starfa en sennilega nær 5% af heildarfjöldanum.

Í þessari umræðu sem snýst fyrst og fremst um atvinnumál verðum við að gera skýran greinarmun á öryggis- og varnarmálum Íslands. Staða varnarsamningsins hefur verið til umræðu milli Íslands og Bandaríkjanna og engar ákvarðanir hafa verið teknar um breytingar hvað varnarmál okkar snertir. Ég held að það liggi því alveg ljóst fyrir að ekkert samhengi er á milli viðræðna um varnarsamstarfið og þeirra uppsagna sem nú standa fyrir dyrum.

Hæstv. forseti. Við getum þó ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að varnarliðið hefur verið mjög fyrirferðarmikill atvinnurekandi á Suðurnesjum í áratugi. Starfsemi þess hefur bæði verið umsvifamikil og mannfrek. Þegar svo stór atvinnurekandi segir upp 10% af vinnuafli sínu hefur það áhrif fyrir sveitarféögin, á því leikur ekki nokkur vafi. Ég tel að atvinnurekandi af þessari stærðargráðu beri nokkra ábyrgð og raunar þjóðfélagið allt þar sem þessi starfsemi hefur verið tengd öryggismálum landsins alls. Uppbygging varnarliðsins í Keflavík hefur í raun krafist þess að fólk sé til staðar og þjónustu. Uppbygging verður í nærliggjandi sveitarfélögum. Þjónusta byggist upp í kringum starfsemina og réttmætar væntingar verða til hjá fólkinu.

Þrátt fyrir þetta áfall megum við samt ekki gleyma því að á Suðurnesjum er mikil uppbygging og gott samfélag. Þetta er svæði sem á mikla framtíð fyrir sér. Það sér hver maður sem heimsækir Reykjanesbæ í dag. Þar eru miklar framkvæmdir, verið er að fegra umhverfið og kraftur er á svæðinu.