Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:15:55 (2291)

2003-11-28 12:15:55# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þó að ég hafi beðið um upplýsingar úr utanrrn. um þessi mál er ekki þar með sagt að ég sé sammála því sem kemur fram í bréfi upp á eina blaðsíðu. Ég var reyndar frekar að óska eftir grunngögnum, tölulegum gögnum, hefði gjarnan viljað sjá þau. Þau eru kannski ekki til í utanrrn. og ég get þá hjálpað upp á í þeim efnum. Ég á talsverðar upplýsingar í mínum fórum um þetta, m.a. útgjöld Pólverja og fleira í þessum dúr og mikið af efni um umræður um þessi mál vestan hafs.

Ég er sá í þessari umræðu sem hef farið í ítarlegar umræður um stöðu mála og breytingarnar í heiminum þannig að það er hálfhlálegt að heyra síðan formann utanrmn. koma hingað og spyrja hvort ég hafi ekki áttað mig á breytingunum. Hver talaði um þær hér? Það var ég. Ekki formaður utanrmn. í sinni stuttu framsögu sem var satt best að segja ekkert óskaplega ítarleg eða upplýsandi að þessu leyti.

Ég gerði þessar stórfelldu breytingar og hina nýju heimsmynd einmitt hér að umtalsefni og ég lýsti því hvernig við sæjum fyrir okkur að skipan öryggismála í heiminum ætti eða þyrfti að þróast. Ég gerði það hérna í ítarlegu máli þannig að ég tel að ég sé búinn að svara spurningum hv. þingmanns.

Varðandi það hvort engar varnir þurfi verður að sjálfsögðu heiminum ekki breytt í einu vetfangi frá því sem hann er í dag. En það skiptir miklu máli að menn hafi framtíðarsýn og markmið í þessum efnum og ég var að reyna að stafa það hér niður hvernig við teldum það gerlegt, með því að breyta hlutverki öryggisgæslustofnana eins og ÖSE og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, að þessar stofnanir fengju sínar eigin sveitir, að hernaðarbandalögin yrðu leyst upp, að reglan um að engar þjóðir héldu her á erlendri grund kæmist á og að alþjóðasamningur kæmist á um vopnaviðskipti. Þannig tryggðum við það að heimurinn yrði betri.

Hér eru hinir, talsmenn stálsins, sem virðast trúa því að sú aðferð við að gæta öryggis í heiminum sem hefur verið reynd um mörg hundruð ára og alda skeið, að vígvæðast, sé gæfulegust. (Gripið fram í.)

En hver er niðurstaðan? Hvað eru stríðin mörg? Eru ekki búnar að vera tvær blóðugar styrjaldir núna á jafnmörgum árum? Er það glæsilegur árangur fyrir þetta kerfi sem hv. þm. ...? (Gripið fram í.) Nei, það er rangt.