Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:30:55 (2294)

2003-11-28 12:30:55# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:30]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Sumt breytist auðvitað aldrei. Orðfæri hv. þm. verður ævinlega hið sama þegar kemur að umræðum um þessi mál, NATO-kratar og þetta og hitt. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja.

Það liggur hins vegar algjörlega klárt hér fyrir hvar skilur á milli mín og hv. þm. Ég vil einfaldlega virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Það var um þetta tekin ákvörðun með lýðræðislegum hætti í þeim ríkjum sem hér um ræðir. Einkanlega hef ég nú staldrað við Eystrasaltsríkin sem við höfum í orði kveðnu og í verki raunar viljað styðja við bakið á. Þegar þær þjóðir taka um það ákvörðun að þær vilji skipa sér í raðir þessara ríkja þá virði ég það.

Ég hef fylgst með málflutningi hv. þm. hér um málefni ríkja á borð við Færeyjar þar sem mikil áhersla er lögð á að þeir fái að ráða sínum örlögum. Þá kveður við allt annan tón hér. Þá eigum við að hlusta og styðja það að þessi ríki fái að ráða för ein og sér. En af því að það hentar hv. þm. nú þá leggst hann eindregið gegn því að Eystrasaltsríkin --- þessar þjóðir sem voru fyrrum undir oki sovétkommúnismans áratugum saman og liðu miklar þjáningar --- þá vill hann ekki standa að því að losa um það helsi sem þær bjuggu við með því að gefa þeim ráðrúm til þess að ganga frelsinu á vit með því að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Það er merkilegt.