Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:32:30 (2295)

2003-11-28 12:32:30# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:32]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru nú hundakúnstir í röksemdafærslu sem varla tekur því að taka þátt í, þ.e. að segja að maður sé á móti sjálfsákvörðunarrétti þjóða þó að maður telji þá skipan mála að hafa hernaðarbandalag og ætla að setja það á vetur inn í framtíðina og færa út áhrifasvæði þess, óskynsamlega sem slíka í öryggislegu tilliti og þar með geti maður ekki stutt það mál. Þetta held ég að allir skilji að liggur svona. Að blanda því síðan saman við sjálfstæðisviðleitni Færeyinga er auðvitað enn fjarstæðukenndara og nær ekki máli í venjulegri röksemdafærslu eða rökræðu. Ég leiði því það nú bara hjá mér.

Ég held að ég hafi skýrt viðhorf mín til þessa máls nokkuð vel og í hverju þau eru fólgin, hvers vegna ég tel þetta óskynsamlegt, þessa þróun mála í heiminum sem slíka. Ég hef fært fyrir því rök að hún sé drifin áfram af hergagnaiðnaðinum og annað í þeim dúr. Í því felst ekki að maður vilji að Eystrasaltsríkin eða aðrar þjóðir séu áfram hnepptar í einhverja fjötra. Það er fráleitur málflutningur. Hv. þm. getur ekki borið það upp á menn, hvorki mig né aðra, að þeir vilji að þessar þjóðir séu í einhverri ánauð. Ég fagnaði falli flokkseinræðiskerfa kommúnismans eins og hver annar og tel mig hafa leyfi til þess og ekki þurfa að biðja um leyfi hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni.