Evrópska efnahagssvæðið

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:48:55 (2301)

2003-11-28 12:48:55# 130. lþ. 38.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, um heimild til að fullgilda samning um þátttöku Tékklands, Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hér er mál sem hefur verið mikil umræða um í þjóðfélaginu og jafnframt hér á Alþingi, en viðræðurnar um stækkun EES reyndust hins vegar tímafrekari en í fyrstu var gert ráð fyrir. Helsta ástæða þess var að ágreiningur var milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins um viðskipti með sjávarafurðir og framlög til þróunarsjóðs EFTA. Íslensk stjórnvöld lögðu á það ríka áherslu að stækkun EES mundi ekki leiða til lakari viðskiptakjara með sjávarafurðir til nýju aðildarríkjanna.

Það komu hins vegar fram óraunhæfar kröfur framkvæmdastjórnar ESB um stórfellda hækkun á framlagi í þróunarsjóð EFTA sem urðu þess valdandi að viðræðurnar drógust á langinn. Það tók sinn tíma að koma fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í skilning um að slíkir afarkostir gætu einfaldlega ekki verið grundvöllur til frekari viðræðna. Að lokum náðist samkomulag um að framlag EFTA-ríkjanna skyldi fimmfaldað á næstu fimm árum.

Sjálfur samningurinn var hins vegar ekki undirritaður fyrr en 11. þessa mánaðar. Fyrir þessari seinkun voru í meginatriðum tvær ástæður. Í fyrsta lagi var ekki gengið frá endanlegum samningsdrögum fyrr en í byrjun júlí vegna ágreinings milli Eystrasaltsríkjanna og Póllands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar og þessi ágreiningur var okkur algjörlega óviðkomandi.

Síðan átti undirritun að eiga sér stað þann 14. október og raunar undirrituðu nýju aðildarríkin samninginn þá. En síðan varð atburðarás sem leiddi sem betur fer til þess að endanleg undirritun átti sér stað þann 11. nóv. í Vaduz og samdægurs undirritaði formennskuríkið Ítalía samninginn.

Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins mun þýða afnám hindrana í vegi viðskipta með vörur, þjónustu og fjármagn milli Íslands og nýju EES-ríkjanna. Jafnframt munu fyrirtæki á stækkuðu efnahagssvæði búa við sama lagaumhverfi og sömu samkeppnisskilyrði. Stækkunin mun því tvímælalaust greiða götu íslenskra fyrirtækja inn á markaði í nýju aðildarríkjunum. Ég er sannfærður um að þessi stækkun hefur jákvæð áhrif á íslenskt efnahags- og viðskiptalíf.

En stækkunin þýðir ekki aðeins að markaðir í nýju EES-ríkjunum muni opnast fyrir íslensk fyrirtæki og íslenskar vörur. Að sjálfsögðu munum við jafnframt opna okkar markaði gagnvart þessum ríkjum en við höfum haft góða reynslu af frjálsræði í viðskiptum og þátttöku okkar á Evrópska efnahagssvæðinu.

EES-samningurinn stendur á ákveðnum tímamótum. Hinn 1. janúar nk. verða tíu ár liðin frá því að samningurinn gekk í gildi. Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins er ein mesta áskorun sem við höfum staðið frammi fyrir í þessu samstarfi frá gildistöku samningsins. Eftir stækkunina verður Evrópska efnahagssvæðið sameiginlegt markaðssvæði 28 Evrópuríkja með 450 milljónir íbúa. Þessi stækkun býður að sjálfsögðu upp á fjölmörg sóknarfæri og sá samningur sem við náðum vegna stækkunarinnar mun tvímælalaust auðvelda okkur að nýta þessi sóknarfæri. Það á bæði við um viðskipti með sjávarafurðir og ekki síður um nýjan þróunarsjóð EFTA. En stækkunin kallar jafnframt á það að við sýnum árvekni við að gæta hagsmuna okkar í EES-samstarfinu. Við skulum hafa það hugfast að eftir stækkun EES munum við í vaxandi mæli deila kjörum með öllum þessum þjóðum og á komandi árum verður því að leggja meiri áherslu á að rækta tengslin við þessi nýju ríki, þau nýju ríki sem ganga nú í Evrópusambandið og munu koma inn á sameiginlegt markaðssvæði.

Herra forseti. Ég vil því leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. utanrmn.