Evrópska efnahagssvæðið

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:58:08 (2305)

2003-11-28 12:58:08# 130. lþ. 38.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil hér við 1. umr. aðeins hafa örfá orð um frv. Því verður vísað til hv. utanrmn. þar sem ég sit og ég á kost á því að skoða málið þar og ræða ítarlegar við seinni umræður.

Ég vil segja það á þessu stigi að það var að sjálfsögðu mikilvægt að það leystist úr þeim deilumálum og vandamálum sem uppi voru varðandi stöðu Evrópska efnahagssvæðisins þegar ný aðildarríki bættust í hóp Evrópusambandsríkja, einfaldlega vegna þess að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er grundvöllur samskipta okkar við Evrópusambandið í dag með sínum kostum og göllum. Það er veruleikinn, þann veruleika horfumst við í augu við. Reyndar er nú svo komið að þeir sem ákafast töluðu fyrir þeim samningi á þeim tíma og lofuðu hann og prísuðu eru núna duglegastir við að útmála gallana og hafa tekið upp margar af röksemdum þeirra sem á sínum tíma lögðust gegn samningnum af þeim sökum að þeir töldu hann gallaðan og mögulega brot á stjórnarskránni og annað í þeim dúr. Íslendingar hefðu ekki þau áhrif á framgang mála sem æskilegt væri. Það má því segja að það hafi orðið dálítið söguleg hlutverkaskipti í þessum efnum en ég skal ekki fara nánar út í það á þessu stigi málsins. Samningurinn er eins og hann er, hann hefur sína kosti en hann hefur líka sína galla. Að því leyti hef ég ekki skipt um skoðun.

Hitt er annað að sú lausn málsins sem hér er talað fyrir varðandi stækkun Evrópusambandsins og þar með Evrópska efnahagssvæðisins er sannarlega nokkuð dýru verði keypt, það verður að horfast í augu við það að hún er dýru verði keypt, í raun og veru langt umfram þá viðskiptahagsmuni sem Ísland átti þarna að verja. Og þá fáum við enn að kenna á þeirri aðferðafræði Evrópusambandsins að nota samningsstöðu þegar hún kemur upp af hvaða tilefni sem er til þess að þjarma að mönnum og reyna að kreista út úr þeim peninga.

Ég vil segja um samskipti okkar við hin nýju aðildarríki að ég tel að það skipti miklu máli að við stöndum þar vel að málum og gætum okkar hagsmuna. Við hefðum vel mátt undirbúa stöðu okkar betur á mörkuðum, t.d. í Póllandi, áður en Evrópusambandið gekk þarna inn. Það hefði væntanlega líka auðveldað okkur lausn málsins nú. En Pólland er gríðarlega stór og mikilvægur markaður, eða samskiptaaðili skulum við kannski kalla það, að þessu leyti fyrir Ísland. Það eru mikil samskipti milli Íslands og Póllands, m.a. á vinnumarkaðsmálum, og ég tel að eitt af því sem þurfi að huga að í sambandi við meðferð þessara mála á komandi árum sé það hvernig samskipti Íslands og Póllands sérstaklega verða styrkt og byggð upp, mögulega með opnun sendiráðs í Póllandi einhvern tímann í fyllingu tímans. Pólland er jú langstærsta landið sem þarna bætist við Evrópusambandið, liggur að Eystrasaltinu og nálægt okkur. Það og svo Eystrasaltsríkin eru að mörgu leyti þeir samstarfsaðilar sem er eðlilegt að við horfum til í þessum efnum.

Það hefði auðvitað verið fróðlegt, herra forseti, að taka aðeins upp vinnumarkaðsmálin og þá staðreynd að þessi nýju aðildarríki verða aðilar að íslenska vinnumarkaðnum frá 1. maí á næsta ári. Ef niðurstaðan verður sú að Ísland velur sér ekki að taka sér einhvers konar aðlögun, sem ég hef skilið að standi ekki til, þá bætast þessir milljónatugir manna í reynd við íslenska vinnumarkaðinn með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu og það er hlutur sem væri full ástæða til að huga að, ekki síst vegna þess að frá þessum löndum, Eystrasaltsríkjunum sem horfa mjög til Norðurlandanna, og Póllandi þar sem þó nokkur þekking á Íslandi og þó nokkur tengsl eru til staðar, liggja fyrir, er ástæða til að ætla að augu manna beinist ekki síst að Íslandi hvað varðar möguleika á atvinnu, mikið betur launuðum störfum en eru í boði í þessum löndum.

Þetta læt ég nægja að sinni, herra forseti, um þetta mál þar sem mér er ljóst að áhugi er á að koma því til nefndar og tíminn orðinn naumur til umræðna.