Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 14:05:19 (2309)

2003-11-28 14:05:19# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta fjárln. sem undirritaður skipar fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln.

Frumvarp til seinni fjáraukalaga fyrir árið 2003 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umr. Fjárlög yfirstandandi árs gerðu ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs næmu 260,1 milljarði kr. og heildartekjur 271,6 milljörðum kr. Tekjujöfnuður var því áætlaður um 11,5 milljarðar kr.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2003 og með þeim breytingum sem gerðar hafa verið við 2. umr. var gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs mundu hækka um 12,1 milljarð kr. Enn fremur liggja nú við 3. umr. frammi breytingartillögur frá meiri hlutanum um aukin útgjöld sem nema 448 millj. kr. Áður hefur Alþingi samþykkt að auka útgjöld ríkissjóðs um samtals 4,7 milljarða kr. frá því sem ákveðið var í fjárlögum fyrir árið 2003. Alls er því gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs verði um 277,4 milljarðar kr. Hér er um að ræða hækkun á útgjöldum ríkissjóðs um 17,3 milljarða kr. eða 6,7% frá samþykktum fjárlögum. Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun ríkissjóðs í nóvember er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði 280,6 milljarðar kr. en það er tæpum 9 milljörðum kr. hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2003. Tekjujöfnuður er því áætlaður um 3,2 milljarðar kr. Af þessum tekjuafgangi er gert ráð fyrir að sala eigna skili um 12,9 milljörðum kr. Lokagreiðslur vegna sölu bankanna hafa þó ekki enn verið inntar af hendi en eru inni í þessum tölum.

Því er ljóst, virðulegi forseti, að ef teknar eru frá eignasölur á þessu ári, þá er ríkissjóður rekinn með 8--9 milljarða kr. halla.

Jafnframt er nauðsynlegt að benda á að reynslan hefur kennt okkur að þessar niðurstöðutölur munu breytast. Í því sambandi er nærtækast að nefna gjöld og tekjur ríkissjóðs árið 2002. Í fjárlögum fyrir árið 2002 voru tekjur áætlaðar 257,9 milljarðar kr. og gjöldin 239,4 milljarðar kr. og því var gert ráð fyrir að tekjujöfnuður yrði 18,5 milljarðar kr. Þetta var fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar ,,Endurskoðun ríkisreiknings fyrir árið 2002`` reyndust tekjur ársins vera 259,2 milljarðar kr. og gjöldin um 267,3 milljarðar kr. Samkvæmt þessu varð ekki rekstrarafgangur upp á 18,5 milljarða kr. heldur halli upp á 8,1 milljarð kr. Tekjur ríkissjóðs höfðu því breyst um tæpa 2 milljarða kr. en gjöldin um 28 milljarða kr. frá lokun fjárlaga til loka fjárlagaársins, en gjöldin um 28 milljarða kr.

Í V. kafla laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er fjallað um frumvarp til fjáraukalaga. Í 1. málsl. 1. mgr. 44. gr. laganna segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga. Þetta eru þau atvik sem lögin veita heimild til að fjárheimilda sé leitað í fjáraukalögum. Við skoðun á þeim breytingartillögum meiri hlutans nú við 3. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2003 má setja spurningarmerki við hvort einstakar tillögur uppfylli skilyrði fjárreiðulaganna.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins frá 27. nóv. sl. er fjallað um fjárlagagerðina og reynt að réttlæta þá ákvörðun framkvæmdarvaldsins að leggjast gegn því að fulltrúar stofnana og samtaka sem fá starfsfé sitt að hluta eða öllu leyti frá ríkinu komi á fund fjárlaganefndar og geri grein fyrir starfsemi sinni, fjárhagstöðu og rekstrarþörf. Í þessu vefriti segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í upphafi síðastliðins áratugar var að erlendri fyrirmynd tekið upp nýtt skipulag við undirbúning og mótun fjárlaga hér á landi sem kallað hefur verið ,,rammafjárlög``. Hugsunin að baki þeim er að ríkisstjórnin ákveði heildarútgjöld og skiptingu þeirra milli ólíkra málaflokka, þ.e. útgjalda\-rammana, en láti ráðuneytum eftir að útfæra nánar hvernig fénu er varið. Þetta miðar að því að stefnumótun ríkisstjórnar sé ráðandi þáttur í fjárlagagerðinni, að fjárlagagerðinni sé stýrt ,,ofan frá`` í stað þess að fjárlögin verði einfaldlega samtala þess kostnaðar sem til fellur í ríkiskerfinu á hverjum tíma, þ.e. verði stýrt ,,neðan frá``.``

Athyglisvert er að hvergi er minnst á í þessum texta frá fjmrn. varðandi fjárlagagerðina að Alþingi eða nefndir þess eigi að koma að fjárlagagerðinni heldur ráði rammi ríkisstjórnarinnar. Fjárlaganefnd og Alþingi kemur fjárlagagerðin ekkert við. Vissulega þarf að vera regla á fjárlagagerð eins og annarri lagasetningu og vinnu. En þessi sjálftökuréttur ráðherranna á valdi og hvernig því er beitt á stofnanir og félagasamtök í landinu er alvarleg ógnun við stöðu Alþingis, störf og verkefni þingmanna og þingnefnda og þar með ógnun við lýðræðið. Er það eitt brýnasta verkefni Alþingis og fjárlaganefndar að endurskoða alla vinnu við fjárlagagerðina, marka framkvæmdarvaldinu sinn bás í þeirri vinnu og tryggja eðlileg og lýðræðisleg vinnubrögð við fjárlagagerðina. Valdbeiting framkvæmdarvaldsins gagnvart stofnunum sínum og stríð þess við Alþingi og undirstofnanir þess sem birst hefur í bréfaskriftum ráðuneytanna til stofnana sinna nú í haust --- og gerð hefur verið grein fyrir, bæði í umræðum hér á undan og í nefndaráliti við fjárlagagerð fyrir árið 2004 --- gengur einfaldlega ekki. Slíkt stríð, bréfaskriftir og valdbeiting gengur einfaldlega ekki upp. Formaður fjárlaganefndar hefur lýst því yfir að farið verði í grundvallarendurskoðun á vinnu við fjárlagagerðina með það að markmiði að styrkja stöðu Alþingis í þeirri vinnu og styður 2. minni hluti þá ákvörðun eindregið. Því staðreyndin er sú að þegar fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til fjárlaga á Alþingi og því hefur verið vísað til fjárlaganefndar er öll frekari vinna og afgreiðsla þess á ábyrgð þeirrar nefndar og Alþingis.

Ég hef í umræðum um fjárlög á undanförnum árum lagt áherslu á nokkur grundvallaratriði í breytingu á vinnu við fjárlagagerð. Ég hef lagt áherslu á að að vori, áður en þing fer heim, verði lagður fram ákveðinn rammi að fjárlögum næsta árs, fjárlagavinnan er jú hafin og þá verði lagður fram rammi að fjárlögum næsta árs, mælt fyrir honum í þinginu og um hann verði rætt og gengið frá samþykkt grófra útlína fyrir fjárlagagerðina sem þá færi áfram í vinnu. Þannig væri Alþingi ábyrgt fyrir upphafi fjárlagagerðarinnar. Og síðan þegar fjmrh. hefði mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi á haustdögum færi vinnan fullkomlega í hendur og væri á ábyrgð fjárln.

Ég hef jafnframt lagt áherslu á að Alþingi leggi fram fjáraukalög eða frv. til fjáraukalaga að vori áður en það fer í sumarleyfi og þá séu teknar fyrir breyttar aðstæður í tekju- eða gjaldahlið hjá ríkissjóði. Þá sé jafnframt líka litið til þess hvort lagabreytingar hafi átt sér stað á þinginu sem krefjist breytinga á fjárframlögum eða öðrum þáttum í ríkisbúskapnum sem nauðsynlegt sé að taka á af hálfu Alþingis í formi fjáraukalaga. Síðan að hausti eru aftur tekin og þá unnin ný eða viðbótarfjáraukalög sem taka á því sem þá hefur gerst því að á einu ári geta ýmsir liðir breyst í rekstri stórs búskapar eins og ríkisbúskapurinn er. Með þessum hætti axlar Alþingi fulla ábyrgð á fjárlagagerðinni eins og lög að sjálfögðu kveða á um.

[14:15]

Því er fagnað hér að við 3. umr. er lagt til að veittar verði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 400 millj. kr. til ráðstöfunar fyrir tekjuminni sveitarfélög. Til þess að sveitarfélögin héldu óbreyttum tekjum hefði þessi upphæð þó þurft að vera mun meiri eða nærri 1 milljarður kr. Nærþjónustan, grunnalmannaþjónustan hefur verið færð til sveitarfélaganna og þau verða að fá tekjustofna til að standa undir henni. Fjárskortur þeirra og röng tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er ein alvarlegasta ógnunin við velferðarþjónustuna í landinu. Með stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum sveitarfélaganna er verið að þvinga þau til að einkavæða og selja þjónustustofnanir sínar og skera niður almannaþjónustu.

Eitt dæmið er í fjáraukalagafrv. þar sem sveitarfélagið Dalabyggð finnur sig knúið til að selja hitaveitu sína. Ríkissjóður veitir svo kaupandanum, ríkisfyrirtækinu Rarik, lántökuheimild til að kaupa umrædda hitaveitu. Að mati 2. minni hluta væri miklu réttara að veita Dalabyggð fjárstuðning beint og hagkvæm lán til að halda hitaveitunni sinni. Neytendur munu jú verða að borga þegar upp verður staðið.

Á undanförnum árum höfum við verið að fjalla hér um hliðstæð mál. Mér er minnisstætt t.d. þegar sveitarfélagið Skagafjörður fann sig knúið til að selja Rafveitu Sauðárkróks til þess að létta af sér skuldum. Þá var það einmitt með sama hætti að ríkisfyrirtækið Rarik fékk fjármagn hjá ríkissjóði til þess að kaupa viðkomandi rafveitu sem varð til þess að rafmagn og raforka snarhækkaði í verði í viðkomandi sveitarfélagi. Þetta ráðslag, þetta skipulagða ráðslag af hálfu ríkisvaldsins, að þrengja svo að sveitarfélögunum fjárhagslega að þau neyðist til þess að selja þjónustumannvirki sín, er stóhættuleg og skaðar sjálfsforræði þeirra og möguleika til þess að sinna þeirri þjónustu sem þeim er falin samkvæmt lögum. Það verður að taka á fjárhag sveitarfélaganna.

Samtök sveitarfélaga mega ekki láta glepjast af þeim blekkingarleik stjórnvalda að etja fyrst sveitarfélögunum saman í sameiningarviðræðum og að þeim loknum eigi svo að endurskoða tekjustofnana og tekjuskiptinguna. Sameining sveitarfélaga á víða rétt á sér og sjálfsagt er að skoða hana. En hún verður að fara fram á forsendum íbúanna sjálfra. Ríkisvaldinu ber að leiðrétta strax fjárþörf sveitarfélaganna og fyrir því eiga samtök sveitarfélaga að berjast.

Fjáraukalagafrumvarpið, eins og það liggur hér fyrir, speglar fyrst og fremst óvönduð vinnubrögð meiri hlutans við fjárlagagerðina fyrir ári síðan. Margar þeirra nauðsynlegu leiðréttinga sem hér eru gerðar voru fyrirsjáanlegar og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs bentu á það við umræðuna og lögðu fram breytingartillögur til úrbóta. Þær breytingartillögur felldi meiri hlutinn þá, á sínum tíma, en kemur nú með þær allmargar inn í fjáraukalagafrumvarpinu. Þær snúa m.a. að fjárskorti heilbrigðis- og sjúkrastofnana og framhaldsskólunum. Enn munu þó framhaldsskólar fara með halla til næstu ára.

Háskólarnir fá litla eða enga leiðréttingu á fjárskorti sínum. Ef ekki rætist úr hér við fjáraukalagaumræðuna verður að taka á fjárhag háskólanna við 3. umr. fjárlaga fyrir árið 2004.

Þá er og vert að benda á, virðulegi forseti, þá þróun sem virðist vera í efnahagsmálum, en samkvæmt frétt sem birtist í dag um viðskiptajöfnuð við útlönd virðist þar vera að byrja að síga nokkuð á ógæfuhliðina.

Í frétt Ríkisútvarpsins í dag segir, með leyfi forseta:

,,Halli á vöruskiptum við útlönd á fyrstu tíu mánuðum ársins er 14,3 miljarðar króna. Á sama tíma ...``

Ég vitna frekar í frétt Morgunblaðsins frá því í dag, með leyfi forseta:

,,Í októbermánuði voru fluttar út vörur fyrir 15,8 milljarða króna og inn fyrir 18,6 milljarða króna ....`` --- samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. --- ,,Vöruskiptin í október voru því óhagstæð um 2,8 milljarða króna en í október í fyrra voru þau hagstæð um 1,9 milljarða.

Fyrstu tíu mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir tæpa 152,9 milljarða króna en inn fyrir 167,1 milljarð króna ... Halli var því á vöruskiptunum við útlönd`` --- á fyrstu tíu mánuðum ársins --- ,,sem nam 14,2 milljörðum króna en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 12,9 milljarða.`` --- Á sama gengi. --- ,,Vöruskiptajöfnuðurinn var því 27,1 milljarði lakari en á sama tíma árið áður.

Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu tíu mánuði ársins var 167,1 milljarður eða 9,3% meira á föstu gengi en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í innflutningi á fjárfestingarvörum, fólksbílum, flutningatækjum til atvinnurekstrar og neysluvörum ...``

En mest áhyggjuefni er að samdráttur var í útflutningi. Mestur samdráttur varð í útflutningi á fiskimjöli, frystum fiski og saltfiski en á móti kom að aukning var í verðmætaútflutningi á lýsi. Það er þó áhyggjuefni að vöruútflutningurinn í heild er verðminni en á sama tíma í fyrra. Þar kemur til m.a. breyting á gengi og óhagstæðari samkeppnisstaða útflutningsgreinanna, sem er afleiðing af stefnu þessarar ríkisstjórnar í atvinnu- og fjárfestingarmálum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þarna séu viss hættumerki á ferð og dæmi um ranga atvinnustefnu þessarar ríkisstjórnar. Því þarf að skoða þetta mjög vandlega.

Virðulegi forseti. Annar minni hluti lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni og meiri hlutanum vegna óvandaðrar vinnu við fjárlagagerðina á sl. ári og rangrar forgangsröðunar. Tekjuöflun ríkissjóðs færist í stöðugt auknum mæli í notendagjöld og hlutfallslega aukna skattheimtu á almennu launafólki og lágtekjufólki. Í stað þess er skattbyrðinni létt af fjármagnseigendum, fyrirtækjum og hátekjufólki. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð berst fyrir öðrum áherslum. Hún leggur áherslu á jöfnun lífskjara og velferð fyrir alla. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti.

Virðulegi forseti. Þegar hafa verið teknar skuldbindandi ákvarðanir um meginhluta þess sem hér er verið að afgreiða nú við 3. umr. fjáraukalaga. Annar minni hluti og aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munu því sitja hjá við afgreiðslu þessa frv. í heild.

Við flytjum svo breytingartillögur sem lúta að því að styrkja fjárhag háskólanna, en samkvæmt þeim upplýsingum sem komu inn í fjárln. og undirritaður hefur m.a. aflað sér er ljóst að Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskólinn, sem hér eru nefndir, skortir fjármagn til þess að að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem þeir hafa tekið á sig á þessu ári. Því er flutt breytingartillaga hér til þess að auðvelda þessum háskólum það að standa undir þeim skuldbindingum.

Við leggjum til að til Háskóla Íslands verði veitt til viðbótar 300 millj. kr., til Háskólans á Akureyri 92 millj. kr. og til Kennaraháskólans 55 millj. kr.

Það er ljóst að margir aðrir skólar líða líka fjárskort og þurfa fjármagn til þess að standa við skuldbindingar sínar varðandi kennslu og önnur störf. En við viljum leggja sérstaka áherslu á að þessir skólar fái leiðréttingu á sínum málum og þurfi ekki að bera halla eða skerða starfsemi sína vegna þessar fjárvöntunar sem er svo augljós í dag.