Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 14:27:07 (2311)

2003-11-28 14:27:07# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. formaður fjárln. Magnús Stefánsson gerði hér grein fyrir breytingartillögu sem við samþykktum afbrigði fyrir fyrr í dag að tekin yrðu á dagskrá. Lítill tími hefur verið til að kynna sér breytingartillögurnar eins og þær liggja fyrir. Þó vekur athygli mína í því sem hv. formaður fjárln. sagði áðan að framkvæmdakostnaður við endurbætur á húsnæði Vífilsstaða sé nú áætlaður 290 millj. kr. en hafi áður verið áætlaður 130 millj., þ.e. að þessi kostnaður fari meira en helming fram úr því sem áætlað var áður. Ég spyr: Við hvaða áætlanir var þarna miðað? Hver ber ábyrgð á svona áætlunargerð og hvernig í ósköpunum getur það gerst að menn leggja af stað í endurbætur á húsnæði með áætlun upp á 130 millj. kr. en koma svo núna og segja: ,,Þetta kemur til með að kosta 290 milljónir.`` Þetta er ekki bara tvöfalt, heldur rúmlega það.

Virðulegi forseti. Þetta er að mörgu leyti í dúr við margt af því sem sá sem hér stendur hefur upplifað í þeirri fjárlagavinnu sem ég hef tekið núna þátt í í fyrsta skipti. Það er nauðsynlegt að fá skýringar á þessu.