Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 14:30:49 (2315)

2003-11-28 14:30:49# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða lokaafgreiðslu fjáraukalaga.

Sá sem hér stendur tekur undir það sem fram kemur í áliti 1. minni hluta, að margt í afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga kemur einkennilega fyrir sjónir. Í því sambandi vil ég gera að umtalsefni það að ríkisstjórnin skyldi senda formlegt bréf þar sem tilkynnt var um nýtt vinnulag, þ.e. að ráðuneyti og stofnanir þeirra skyldu í framtíðinni ekki leita beint til fjárln. Alþingis með erindi sín, t.d. með aukin útgjöld, heldur eigi slík erindi að fara til ráðuneyta sem komi með tillögur í fjárlagakerfi fjmrn. og samsvarandi tillögur um lækkun útgjalda.

Það er afar óeðlilegt að framkvæmdarvaldið beini slíkum tillögum til stofnana og reyni þannig að koma í veg fyrir að fjárln. ræði beint við aðila máls. Með fyrrgreindum ákvörðunum ríkisstjórnar er hið formlega fjárveitingavald Alþingis gert að forminu einu. Þar að auki hefur minni hluti fjárln. átt erfitt með að fá upplýsingar um áætlaða fjárhagsstöðu ríkisstofnana í árslok 2003 eins og greint var frá þegar mælt var fyrir áliti 1. minni hluta og hefur þegar verið gert hér að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Við 2. umr. um fjárlög fyrir nokkrum dögum vakti ég athygli á því að tekjur í sjávarútvegi væru að dragast verulega saman. Ég benti m.a. á að full ástæða væri til að huga að því hvert stefndi með afkomu í efnahagslífinu og viðskiptajöfnuð. Ég vakti einnig athygli á því sem segir í riti Seðlabankans, Peningamálum 17. riti, nóvember 2003. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Viðskiptahallinn er þó enn ekki sérstakt vandamál, enda á hann að hluta rætur að rekja til innflutnings vegna stóriðjuframkvæmda og tímabundins samdráttar í sjávarafla.``

Nú vill svo til að í Morgunblaðinu í morgun var birt yfirlit yfir aflaverðmæti á fyrstu átta mánuðum ársins. Mig langar til að vitna í þessa grein, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Á fyrstu átta mánuðum ársins 2003 nam aflaverðmæti íslenskra skipa af öllum miðum 47,5 milljörðum króna en á sama tímabili ársins 2002 var verðmætið 55,1 milljarður króna og er þetta samdráttur um 7,7 milljarða króna eða 13,9%.``

Virðulegur forseti. Frá því er greint í áliti 1. minni hluta að fjárlög undanfarinna ára hafi ekki staðist, að fjárlög ársins 2002 hefðu á endanum verið með halla og líklegt sé að þau fjárlög sem við afgreiðum nú við lokaafgreiðslu aukafjárlaga muni einnig enda í ríkisreikningi með halla. Ég held að þær fréttir sem ég hef verið að vitna til styðji enn frekar að það stefni í að afkoman á þessu ári verði ekki eins og til er ætlast. Ég vil í þessu sambandi, virðulegi forseti, minna á að þegar hæstv. fjmrh. mælti fyrir fjárlagafrv. í haust var gert ráð fyrir miklu hagvaxtarskeiði á árinu 2004 og því að aukið aðhald þyrfti af því tilefni.

Ég held, virðulegi forseti, að þær upplýsingar sem liggja fyrir um verðmætaþróun í sjávarútvegi gefi fullt tilefni til að ætla að atvinna og afkoma í ákveðnum greinum, eins og sjávarútveginum, geti dregist mun meira saman en menn höfðu gert ráð fyrir. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort þær áætlanir sem okkur eru að birtast, m.a. í Peningamálum Seðlabankans, að hér sé um tímabundinn samdrátt að ræða, fái staðist. Er ekki full ástæða til þess, áður en við ljúkum endanlegri afgreiðslu fjárlaga sem verður sennilega 5. des. ef að líkum lætur, að athuga þær spár sem menn lögðu upp með í sambandi við fjárlagadæmið allt saman? Þarf ekki að kanna hvort þær fá staðist miðað við þróunina í sjávarútvegi?

Herra forseti. Ég fylgdist með umræðum á 41. þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins. Þar komu fram upplýsingar sem mér fundust ákaflega athyglisverðar. Fulltrúi frá Verðlagsstofu skiptaverðs, sem staðsett er á Akureyri, var að kynna verðþróun á fiski innan lands og eins þróun afurðaverðs á erlendum mörkuðum. Í línuritum hans kom fram að um mikinn samdrátt væri að ræða og stefndi enn niður á við. Í spádómi hans fyrir árið 2004 voru engar líkur taldar á að afurðaverð færi hækkandi né að verðfallið stöðvaðist heldur héldi það jafnvel hratt niður á næsta ári. Hann taldi engar vísbendingar um að hér væri um tímabundið ástand að ræða eins og kemur fram í Peningamálum, riti Seðlabankans.

Mér finnst full ástæða til, virðulegi forseti, að vekja athygli á þessu við lokaafgreiðslu fjáraukalagafrv. Mér sýnist sem að skoða þurfi þær forsendur sem gengið er út frá, bæði fyrir afkomu þessa árs --- tölurnar sem ég nefndi áðan voru fyrir fyrstu átta mánuði þessa árs --- og ekki síður hvert stefnir í afkomu sjávarútvegsins, tekjum og atvinnuhorfum á næsta ári. Þessi atriði hafa ekki bara bein áhrif á aflaverðmæti heldur og á útflutningsverðmætið og vafalaust gætu þau einnig haft áhrif á atvinnustigið í landinu.

Hér er vissulega alvarlegt mál á ferðinni og rétt að vekja athygli á því. Ég taldi að tíma mínum í ræðustól í dag við lokaafgreiðslu fjáraukalaga væri best varið til að vekja athygli á því að það virðist ekki nokkurt samræmi í því sem Seðlabankinn setur fram, sem birtist okkur í þeim áætlunum sem við erum hér að ræða og því sem hæstv. fjmrh. benti á í haust, að til mikillar uppsveiflu horfði á næsta ári. Ég bendi á það, hæstv. fjmrh., að á fyrstu átta mánuðum þessa árs er um verulegan tekjusamdrátt að ræða í sjávarútvegi. Miðað við þær upplýsingar sem Verðlagsstofa skiptaverðs lagði fram í gær á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins eru engar líkur á að verðmæti sjávaraflans fari vaxandi á næsta ári.

Auk þessa gæti ég bent á vísbendingar frá loðnuleitarleiðangri Hafrannsóknastofnunar. Ef þær ganga eftir að auki verða málin held ég talsvert öðruvísi en það sem við höfum gengið út frá í fjárlagaumræðunni á Alþingi.

Þetta vildi ég gera að umræðuefni, virðulegi forseti. Ég hygg að ef að líkum lætur muni tekjur af sjávarútvegi verða mun minni en menn gerðu ráð fyrir í upphafi árs og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Hér er því bæði um að ræða vanda þessa árs, virðulegi forseti, og einnig næsta árs að því er mér sýnist. Ég vil þess vegna ítreka spurningu mína til hæstv. fjmrh.: Þarf ekki að endurskoða þessar áætlanir miðað við þær vísbendingar sem ég hef tínt til?