Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 14:41:53 (2317)

2003-11-28 14:41:53# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, AKG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Fjárlög, fjáraukalög, ríkisreikningur og lokafjárlög, eru þeir þættir sem gefa mynd af ríkisrekstri hverju sinni. Að jafnaði vekja fjárlögin mesta athygli landsmanna og ekki að ástæðulausu, enda lögð áhersla á að beina kastljósi fjölmiðla að þeim. Fjárlögum má í raun vel líkja við uppskrift að köku og í lokafjárlögum fáum við kökuna fullbakaða. Fjmrh. lætur mála fína mynd af kökunni vegna þess að hún er ekki tilbúin en hann vill strax sýna hve flinkur hann er að búa til uppskrift.

En hvar passa fjáraukalög, sem við erum að ræða núna, í þessa líkingu? Þeim má líkja við aukaefni í kökuna en af þeim má aðeins setja sem minnst og eftir ákveðnum lögmálum bakarameistarans til að kakan verði ekki óæt og illa útlítandi.

Við erum við 3. umr. um fjáraukalög. Niðurstaða þeirra er 17,3 milljarða kr. gjöld umfram áætlun fjárlaga, eða um 7% af áætluðu efnisinnihaldi kökunnar. Þá vantar enn liði sem koma fyrst fram í ríkisreikningi en eru engu að síður hluti af rekstri ríkisins hverju sinni. Það eru lífeyrisskuldbindingar, fjármagnskostnaður og afskriftir skatttekna, þ.e. skatttekjur sem hafa verið áætlaðar og birtast í fjárlagafrv. en koma ekki til innheimtu.

Samkvæmt ríkisreikningi ársins 2002, sem er nýlega kominn út, er skekkjan frá fjárlögum til ríkisreiknings 25 milljarðar kr. það ár --- 25 milljarða kr. mismunur. Getum við vænst þess að niðurstaða þessa árs verði betri? Því miður er óhætt að fullyrða að áætlaður tekjuafgangur, sem kominn er niður í 3,2 milljarða, nægir engan veginn fyrir þeim kostnaðarliðum sem fram koma í ríkisreikningi auk þess sem vitað er að ýmsar stofnanir verða reknar með halla á þessu ári þrátt fyrir framlög á fjáraukalögum.

Herra forseti. Niðurstaða fjáraukalaga þýðir að verið er að eyða tæplega 333 millj. kr. umfram áætlun á viku, um 50 milljónum á dag, um 2 millj. kr. á klukkustund hvern einasta dag ársins. Það er verið að eyða 50 millj. kr. á dag umfram uppskriftina, 2. millj. kr. hverja klukkustund, hvern einasta dag ársins, jafnt helgidaga sem virka daga.

Verður ekki að viðurkennast að þessi fjáraukalög eru dapurlegur vitnisburður um uppskriftakúnst bakarameistarans? Hún þarf að lagast. Þetta ár er ekki einsdæmi heldur fellur kakan ár eftir ár.

Niðurstaðan er sú, virðulegi forseti, að uppskriftin fína, fjárlögin sem fjmrh. auglýsir svo rækilega ár eftir ár, er röng og afleiðingin af því eru allt of há fjáraukalög og ríkisreikningur sem sýnir halla á ríkisrekstrinum, en ekki rekstrarafgang eins og hæstv. ráðherra vill láta okkur trúa. Ríkisreksturinn er kolfallin kaka sem óbragð er af undir glassúrnum.