Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 15:17:58 (2319)

2003-11-28 15:17:58# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, HHj
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins vegna þess síðasta sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í ræðu sinni og lýtur að samningi Öryrkjabandalagsins við ríkisstjórnina og er út af fyrir sig fjárlagamál en varðar ekki fjáraukalagafrv. sem hér er fyrir. Það hefur óneitanlega verið ákaflega athyglisvert að fylgjast með hæstv. fjmrh. Geir Haarde rengja opinberlega yfirlýsingar heilbrrh. og halda því fram að samningurinn við Öryrkjabandalagið hafi aðeins verið um fjárframlag upp á 1.000 millj. kr. Hér í ræðustól Alþingis hefur hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson þvert á móti sagt alveg skýrum stöfum að samkomulagið hafi ekki verið um 1.000 millj., samkomulagið hafi verið um tvöföldun grunnlífeyris ungra öryrkja og þegar menn hafi reiknað út hvað það kostaði hafi það reynst kosta meira en milljarð sem var það sem þeir hefðu áætlað í upphafi og þess vegna sé ekki hægt að efna samninginn hinn 1. janúar nk., hann hafi ekki fjárheimildir til þess. En það er alveg skýrt hjá hæstv. heilbrrh. um hvað samið var. Það var samið um að tvöfalda grunnlífeyri þeirra sem verða öryrkjar 18 ára eða yngri og að sú tvöföldun færi stiglækkandi ár frá ári, eftir því hvenær á ævinni menn verða öryrkjar, til 67 ára aldurs. Og niðurstaðan er einfaldlega sú að það að efna þann samning kostar 1.500 millj.

Hæstv. fjmrh. Geir Haarde hefur gert fjölmarga kjarasamninga sjálfur sem hafa reynst vanmetnir hvað kostnaðinum viðvíkur og hafa í framkvæmd reynst dýrari en ætlað var þegar þeir voru undirritaðir. Þeir kjarasamningar hafa engu að síður verið efndir. Að sjálfsögðu. Og skárra væri það nú. Með alveg sama hætti á hæstv. ríkisstjórn að virða þann samning sem hún hefur gert við öryrkja þó að hún út af fyrir sig hafi vald til að svíkja hann og traðka þannig á öryrkjum.

Þetta mál er út af fyrir sig ekki sérstaklega hér fyrir þó að í fjáraukalagafrv. sé að finna útgjöld einmitt upp á 1.500 millj. vegna öryrkja, en það er í framhaldi af dómi Hæstaréttar yfir ríkisstjórninni um ítrekuð brot hennar á stjórnarskrá gagnvart öryrkjum. Og það er ekki laust við að mann renni í grun að hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde, sé með æfingum sínum þessa dagana að reyna að hefna sín á Öryrkjabandalaginu fyrir að hafa leyft sér að taka ríkisstjórnina fyrir Hæstarétt í tvígang og rassskella hana í grundvallaratriðum um lögfræðileg málefni og stjórnarskrá landsins. Manni býður í grun að hæstv. ríkisstjórn sé nú að reyna að hefna þess á Alþingi sem hallaði uppi í Hæstarétti og hafa af öryrkjum þær kjarabætur sem þeir sömdu um og handsöluðu, hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson og Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalagsins.

Virðulegur forseti. Þá að því fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir.

Þær brtt. sem liggja fyrir þessari umræðu eru út af fyrir sig ekki umfangsmiklar og þegar hafa farið fram 1. og 2. umr. um fjáraukalagafrv. Þær tillögur sem hér liggja fyrir eru þó nokkuð lýsandi eins og sú sem hv. þm. Jón Gunnarsson dró fram og vakti sérstaka athygli á en þar var um að ræða framkvæmdakostnað sem áætlaður hafði verið 130 millj. kr. en reynist nú vera 290 millj. kr., þ.e. ríflega tvöfalt meiri en áætlaður var. Það er í sjálfu sér ekki stór liður í þeim nærri 20 milljörðum sem hér koma í bakreikningum en hann er ákaflega lýsandi. Oft er það hið litla sem segir drýgsta sögu um hið mikla. En þegar svona er haldið á í litlum framkvæmdum segir það auðvitað sína sögu um hvernig haldið er á hinum stærri málum.

Ég vildi hér, virðulegur forseti, fyrst og fremst ræða nokkuð um vinnubrögð, vinnubrögð við fjárlagagerðina og við fjáraukalagafrv. Það hefur ágætlega verið dregið fram hér í umræðunni hversu gríðarleg skekkja er frá fjárlagafrv. og til niðurstöðu og lokafjárlaga. Ætli það væri ekki nær að kalla sólskinsfrv. frá hæstv. fjmrh. tunglfrv. þegar á því hefur orðið 25 milljarða viðsnúningur? Og hér erum við með undir fjáraukalagafrv. upp á 17,3 milljarða og maður hlýtur að spyrja: Hvað veldur því að svona mörg ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg útgjöld koma fyrir Alþingi?

Ég leitaði eftir því á fundi fjárln. að fjmrn. upplýsti okkur um það hvernig þessu hefði verið háttað sl. fimm ár, hvort þess væru dæmi að á sl. fimm árum hefðu einstakir liðir á fjárlögum farið þrisvar sinnum eða oftar inn á fjáraukalög, þ.e. það væri fremur regla en undantekning að viðkomandi liður væri inni á fjáraukalögum. Í ljós kemur að þar eru 100 liðir á ferðinni.

Hæstv. fjmrh. talaði hér áðan um að áætlunum færi sem betur fer fram og alltaf tækist mönnum betur að áætla um framtíðina. Mér er þó ekki kunnugt um að nokkru sinni fyrr hafi menn lagt fyrir fjáraukalagafrv. á Alþingi upp á 17.300 millj. kr. skekkju. Og mér er ekki kunnugt um að fjárlög hafi breyst frá framlagningu til lokafjárlaga um 25 þús. millj. eins og fór fyrir fjárlagafrv. frá síðasta ári og er vandséð af þessum tveimur dæmum frá árunum 2002 og 2003 að áætlanagerðinni í fjmrn. hafi mikið farið fram. Eftir að hafa kynnst, þótt ekki sé nema lítið, vinnunni í fjárln. og vinnunni að fjárlögum er það eiginlega hætt að koma mér á óvart. Þegar ég leitaði eftir því að fá lista yfir þá fjárlagaliði sem ítrekað hefðu farið inn á fjáraukalög var slíkt yfirlit ekki til í fjmrn. Það þurfti að útbúa það. Það virtist ekki vera hægt að nota upplýsingakerfi fjmrn. þannig að það væri hægt að útbúa þetta yfirlit yfir þá sem aftur og aftur fara fram úr fjárheimildum á skömmum tíma. Það tók einar þrjár vikur og er mér næst að halda að embættismenn fjmrn. hafi þurft að fletta upp í gömlum bókum til að átta sig á því hvaða liðir það eru á fjárlögum sem alltaf eru að fara inn á fjáraukalög og fram úr fjárheimildum.

Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að slíkar grundvallarupplýsingar séu ekki tiltækar í fjmrn. til að hjálpa því við eftirlit með framkvæmd fjárlaga og að menn séu ekki með gott og skipulagt yfirlit um það hvernig þessum málum er háttað.

Ekki nóg með það, virðulegur forseti, heldur er ráðuneyti fjármála eftir allar þessar vikur ófært um að leggja fram lista yfir það hvaða ríkisstofnanir hafi farið oftar en ekki á síðustu fimm árum fram úr fjárlagaheimildum sínum vegna þess að safnliðir á fjáraukalögum eru ekki sundurgreindir og sú vinna hefur ekki verið unnin í fjmrn. að sundurgreina safnliði og komast að því hvaða stofnanir aðrar en tilgreindar eru á þessum 100 aðila lista hafi farið fram úr.

Það er alveg augljóst, virðulegur forseti, að fjmrn. hefur ekki lagt sig eftir því að kanna hvaða skólar það eru og hvaða heilbrigðisstofnanir sem aftur og aftur koma hér inn á fjáraukalög. Safnliðirnir hafa aldrei verið sundurgreindir. Og á þremur vikum vannst þeim ekki tóm til þess að sundurgreina safnliðina.

Það er mikið áhyggjuefni vegna þess að auðvitað eiga ekki 100 liðir á fjárlögum oftar en ekki á síðustu fimm árum að hafa komið inn á fjáraukalög. Það er óhjákvæmilegt að í einstaka liðum í fjárlögunum séu skekkjur. En það er ekkert eðlilegt við það að æðsta stjórn ríkisins og aðalskrifstofur fjölmargra ráðuneyta séu oftar en ekki á fjáraukalögum. Það fer ekki vel á því, virðulegur forseti, og það er ekki í samræmi við virðingu æðstu stjórnar ríkisins eða virðingu framkvæmdarvaldsins að því sé þannig háttað.

Okkur hlýtur öllum að þykja það miður að þurfa að lesa lista yfir þá 100 liði á fjárlögum sem oftar en ekki fara inn á fjáraukalög. Listinn byrjar á embætti forseta Íslands. Næst kemur Alþingi. Þá kemur aðalskrifstofa forsrn. Þarna inni eru líka liðir sem engin leið er að verja að séu þar jafnoft og með jafnmiklum fjárhæðum og raun ber vitni. Ég tek dæmi af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar eru heilir 2,6 milljarðar í fjáraukalagaveitingum á síðustu árum. Landspítali -- háskólasjúkrahús, ja, það er kunnara en frá þurfi að segja að Landspítalinn er því miður fastagestur á fjáraukalögum. Mér er nær að halda að það sé fremur vegna vanáætlunar fjmrn. en reksturs spítalans. Samtals á þessum fimm árum eru aukafjárveitingarnar á fjáraukalögum til Landspítala -- háskólasjúkrahúss 7,6 milljarðar, ár eftir ár eftir ár.

Og það er engin leið að tala um að þegar 100 fjárlagaliðir koma oftar en ekki inn á fjáraukalög sé nægilegt aðhald og nægilegur agi í framkvæmd fjárlaganna. Því miður er það alls ekki svo.

[15:30]

Ég held að við hér í þinginu hljótum að eiga að ganga á undan með góðu fordæmi og leggja allt kapp á að þessi venja leggist af hvað þingið varðar, enda er skylda okkar um fjárveitingar til þingsins ríkari en til annarra stofnana eins og áður hefur verið farið yfir hér í umræðunni, um skiptingu á verkum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Við fulltrúar Samf. í fjárln. munum af þessu tilefni flytja erindi til forsn. þingsins og ganga eftir því fyrir 3. umr. um fjárlög næsta árs, árið 2004, að í fyrirliggjandi frv. sé tryggilega og nægilega gert ráð fyrir fjárveitingum til þingsins og þeirra ófyrirsjáanlegu hluta sem alltaf kunna að koma upp á hverju rekstrarári til þess að það megi ekki verða aftur árið 2004 að Alþingi sjálft sé inni á fjáraukalögunum og við leggjum allt kapp á það í störfum okkar hér.

En það er fleira við vinnubrögðin sem nýliða eins og mér þykir nokkuð athyglisvert og það er það sem áður hefur verið nefnt um yfirlitið, ekki bara það að yfirlit skorti um þá sem alltaf hafa verið að fara fram úr fjárheimildum á síðustu árum, heldur hefur það reynst liggja þannig að fjmrn. hefur ekki handbært og getur ekki afhent yfirlit í nóvembermánuði um útkomuspá ríkisstofnana. Fjmrn. hefur ekki upplýsingar um hver fjárhagsleg útkoma ríkisstofnana, yfir 500 stofnana, er talin vera, getur ekki lagt hana fram í fjárln. Þegar slíka heildarsýn skortir er vandséð hvernig á að vinna fjáraukalög svo gagn sé að ef menn hafa ekki tryggilegt heildaryfirlit yfir stöðu allra stofnananna. Ég held að óháð allri flokkapólitík og óháð meiri hluta eða minni hluta í þinginu sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur í fjárln., fyrir framkvæmdarvaldið og fyrir landið allt að á þeim gríðarlega þenslutíma sem í hönd fer verði aðhaldið og aginn í ríkisfjármálunum meiri en raun ber vitni hin síðustu ár vegna þess að við megum ekki við því að þar komi 17 milljarða fjáraukalög inn, eða það skeiki 25 milljörðum frá framlögðu frv. til niðurstöðu því að á næstu árum verða menn að halda sjó í ríkisfjármálunum til að halda aftur af verðbólgu og til að halda aftur af vaxtastiginu í landinu. Til þess hygg ég að það sé algerlega nauðsynlegt að fjmrn. verði styrkt og eflt í því að hafa betri heildarsýn á fjárreiður ríkisins og stofnana þess.