Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 15:33:42 (2320)

2003-11-28 15:33:42# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, KHG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil bæta örfáum orðum inn í umræðuna, lokaumræðu um fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár. Ég vil fyrst vekja athygli á nokkrum liðum sem fram koma í áliti meiri hluta fjárln. og lýsa yfir ánægju með að tekið sé á þeim málum með þeim hætti sem þar er lagt til. Það er í fyrsta lagi fjárveitingar til uppbyggingar íþróttaaðstöðu í tengslum við landsmót Ungmennafélags Íslands, hvort heldur það eru unglingalandsmót eða landsmótin hin meiri sem fjárln. leggur til að stutt verði myndarlega við bakið á umfram það sem þegar hefur verið í fjárveitingum undanfarinna ára.

Ég tel að mjög mikilvægt sé að Alþingi komi myndarlega að uppbyggingu íþróttamannvirkja um landið, sérstaklega í tengslum við stórmót eins og landsmót Ungmennafélags Íslands eru og reyndar finnst mér sama auðvitað gilda um önnur íþróttasamtök á sambærilegum mælikvarða.

Ég vek athygli á því að fyrir þinginu liggur einmitt tillaga sem er í svipaða átt um að styrkja íþróttafélög til þess að stunda starfsemi sína með því að taka þátt í kostnaði við ferðir íþróttafólks um landið. Ég held að við ættum að fagna þessu sjónarmiði fjárln. því það styrkir þá tillögu sem fyrir liggur í þinginu varðandi íþróttasjóð fyrir ferðir íþróttafélaga. Og það væri vel að verki staðið ef okkur tækist að ná því fram á þessu þingi að fá það til að samþykkja þá ályktun sem fyrir liggur í þessu efni og vissulega vekur stuðningur fjárln. í því sem ég nefndi vonir um að unnt eigi að vera að fá sæmilega samstöðu um seinna málið sem fyrir þinginu liggur og verður tekið til umræðu fljótlega.

Í öðru lagi vil ég fagna því að fjárln. eða meiri hluti hennar --- ég geri ráð fyrir að minni hlutinn sé sammála í þessum tillögum þó þær séu skrifaðar eingöngu á meiri hlutann --- að lagt er til að auka fjárveitingar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Við þekkjum það að á undanförnum árum hefur reynst nauðsynlegt að setja meira fé í jöfnunarsjóðinn til þess að jafna betur fjárhagslega stöðu sveitarfélaga um landið. Það eru ýmis atriði sem eru þess valdandi að sundur hefur dregið. Við sjáum það í tölum, t.d. tölum Hagstofu Íslands sem sjá má í Landshögum og ég vek athygli á að nýlega eru komnir út Landshagir 2003 sem hefur að geyma nýjar tölur, árið 2002 hefur bæst við fyrri ár. Þar kemur fram sú þróun sem verið hefur í gangi síðustu ár að sundur hefur dregið í tekjuöflun sveitarfélaga á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og sveitarfélaga á landsbyggðinni hins vegar.

Það er alveg greinilegt að launaþróunin hér á landi á síðustu árum hefur verið með þeim hætti að laun á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað verulega umfram laun á landsbyggðinni og það endurspeglast í þeirri mismunandi tekjuþróun sveitarfélaga um landið. Reynst hefur nauðsynlegt að jafna þetta með viðbótarframlögum til jöfnunarsjóðs og þarna er gerð tillaga um að fyrir yfirstandandi ár verði einmitt gripið til þess og veitt 400 millj. kr. til að jafna þá aðstöðu.

Hitt atriðið sem hefur áhrif á mismunandi tekjuþróun sveitarfélaga er íbúafjöldinn sem hefur verið með þeim hætti að mjög víða utan höfuðborgarsvæðisins hefur íbúum fækkað en fjölgað á höfuðborgarsvæðinu og það leiðir einnig til þess að munur verður á tekjum sveitarfélaga.

Ég held því að ákaflega nauðsynlegt sé að fá þessa tillögu fram og vænti þess að í þeim viðræðum sem fram undan eru milli ríkis og sveitarfélaga um fjárhagslega stöðu sveitarfélaga, þá verði tekið á þeirri þróun á þann hátt sem fjárlög og fjáraukalög undanfarinna ára hafa bent til, þ.e. að sveitarfélögin fái aukið fé til umráða til að jafna þennan mun.

Ég skil það svo að í ljósi þessarar tillögu og afgreiðslu Alþingis á undanförnum árum sé fullur vilji til þess að jafna þennan mun sem er orðinn með því að bæta stöðu sveitarfélaganna.

Ég vil einnig vekja athygli á einum lið undir Hagstofunni sem mér finnst ástæða til að fá aðeins nánari upplýsingar um, þ.e. að Hagstofunni er bætt fjárveiting um 10,5 millj. kr. til að mæta tekjutapi vegna þess að fyrirtækjaskrá var flutt frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra. Mér virðist á þeirri tillögu að ráða megi að Hagstofa Íslands hafi haft tekjur af fyrirtækjaskránni umfram þau útgjöld sem hún hafði við að veita þá þjónustu sem fylgdi skráningunni. Það að flytja verkefni til ríkisskattstjóra hafi því dregið úr tekjunum meira en nam samdrætti útgjalda. Mig langar að forvitnast frekar um þetta, herra forseti, og fá nánari upplýsingar um hvernig þessu víkur við, hvort ágiskun mín sé nærri lagi í þessum efnum og hvort þá að tekjur þær sem ríkisskattstjóri fær núna fyrir að sinna þessu verkefni séu þá ekki meiri en hann raunverulega þarf á að halda verkefnisins vegna.

Ég vil víkja að tveimur málum í fjáraukalagafrv. sem mér finnst ástæða til að staldara við. Fyrra málið lýtur að heimildargrein í 4. gr. fjáraukalagafrv., lið 7.17, heimild til fjmrh. til að leggja fram viðbótarhlutafé í Eignarhaldsfélagi Suðurnesja að andvirði 75 millj. kr. Þessa heimild er líka að finna í fjárlagafrv. fyrir næsta ár þannig að ljóst er að lagt er til að ríkið leggi 150 millj. kr. í Eignarhaldsfélag Suðurnesja til verkefna þar. Um þetta mál var forvitnast í iðnn. Alþingis og nefndin fékk skýringar á því sem fram koma í áliti iðnn. með nál. meiri hluta fjárln. við frv. til fjárlaga fyrir árið 2004. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessu máli. Fram kemur í upplýsingum fjmrn. um málið að um sé að ræða samstarf ríkisins við Eignarhaldsfélag Suðurnesja og Bláa lónið hf. um uppbyggingu meðferðarstöðvar við Bláa lónið sem áætlað er að kosti um 400 millj. kr.

Mig langar að spyrja hvort það sé rétt skilið hjá mér að hlutur ríkissjóðs í því verkefni verði 150 milljónir af þeim 400 sem verkefnið eða húsbyggingin er áætluð kosta.

Ég vil segja um þetta að mér finnst eðlilegt að ríkissjóði sé beitt til að styðja við atvinnuuppbyggingu um landið, skapa ný störf, í samstarfi við aðra aðila sem tilbúnir eru að leggja til fé í því skyni. Ég er almennt séð stuðningsmaður þessa verkefnis og þess að ríkissjóður styðji ásamt Eignarhaldsfélagi Suðurnesja að uppbyggingu verkefnisins.

En ég vek athygli á að þessi eignarhaldsfélagahugmynd er ekki ný af nálinni. Hún kom fram í byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti á árinu 1997 eða 1998. Þar var ákveðið að verja 300 millj. kr. á ári til eignarhaldsfélaga sem stofna átti um landið í fjögur ár og nota átti það fé ásamt mótframlögum frá aðilum heima á starfssvæði hvers eignarhaldsfélags til að fjármagna verkefni til atvinnuuppbyggingar um landið. Þessi eignarhaldsfélög voru stofnuð um allt landið og Eignarhaldsfélag Suðurnesja var eitt af þeim félögum. Til þeirra runnu 900 millj. kr. sem skiptust á milli félaganna á þremur árum. Á síðasta ári var reyndar fjárveitingu til félaganna upp á 200 milljóna breytt. Fallið var frá því að setja 200 millj. kr. af fjárlögum ársins 2002 til eignarhaldsfélaga og þar með var tekin sú stefna að ríkissjóður teldi þátttöku sinni lokið í atvinnuuppbyggingu í gegnum eignarhaldsfélögin.

Ég vil hins vegar fagna þeirri stefnubreytingu sem fram kemur hér af hálfu fjmrh. að leggja á nýjan leik af stað í þann leiðangur að nota fé ríkissjóðs til atvinnuuppbyggingar í samstarfi við aðila heima í héraði gegnum eignarhaldsfélög. Ég tel það rétta stefnu. Ég vænti þess að þegar menn sýna verkefni víðar um landið, hvort sem það er á Austurlandi, Norðurlandi, Suðurlandi eða Vestfjörðum og óska eftir þátttöku ríkissjóðs í uppbyggingu þar, þá verði því vel tekið, ekki síður en því hefur verið tel tekið á Suðurnesjum.

[15:45]

Ég vildi því vekja sérstaka athygli á þessu máli og lýsa yfir ánægju minni með viðbrögð fjmrh. við þessu erindi frá Bláa lóninu. Ég veit að ekki mun standa á honum eða ríkisstjórninni að styðja við bakið á aðilum annars staðar á landinu sem munu koma með svipuð áform til atvinnuuppbyggingar hver á sínu svæði. Ég þekki mjög vel til á Vestfjörðum og veit að það eru verkefni sem menn eru að skoða og vilja gjarnan hrinda af stokkunum. Nauðsynlegt væri að ríkissjóður kæmi að þeim með fjárframlögum, t.d. í gegnum eignarhaldsfélagið sem þar starfar. Ég fagna því að ákveðið hefur verið að starfsemi eignarhaldsfélaganna haldi áfram og vona að þeim takist að vinna myndarlega að uppbyggingu atvinnutækifæra hvert á sínu starfssvæði á næstu árum.

Síðara málið sem mig langar að gera hér að umtalsefni er það sem fram kemur í breytingartillögum meiri hluta fjárln., þ.e. að heimila Rafmagnsveitum ríkisins að ganga til samninga um kaup á Hitaveitu Dalabyggðar. Mig langar að spyrjast aðeins fyrir um það mál því þarna er verið að leggja til að ríkisfyrirtæki, Rafmagnsveitur ríkisins, fái heimild til þess að ganga til viðræðna eða samninga um kaup á hitaveitu. Nú vill svo til að búið er að gera samning milli Rafmagnsveitna ríkisins og Hitaveitu Dalamanna um kaup á þessari veitu. Sá samningur var lagður fram í iðnn. og hann er dagsettur 24. júlí í sumar. Þar undirritar forstjóri Rafmagnsveitna ríkisins samning um kaup á þessari hitaveitu með fyrirvara um samþykki iðnrh. og fjmrh. og stjórnar stofnunarinnar.

Mér leikur því forvitni á að vita hvernig standi á þessari tillögu fjárln. að heimila Rafmagnsveitunum að ganga til samninga þegar ljóst er að samningurinn er til og undirritaður.

Eins og þetta blasir við mér þá dreg ég þá ályktun að samningurinn í sumar hafi verið undirritaður án þess að nægilegar heimildir lægju fyrir, þ.e. að ekki væri nægjanlegt að fyrir lægju heimildir frá ráðherrum heldur yrði að liggja fyrir heimild frá Alþingi. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. og að biðja hann að útskýra þetta, hvort það sé réttur skilningur hjá mér að í raun hafi samningsgerð í sumar í þessu máli verið í heimildarleysi. Það teldi ég auðvitað miður ef menn hefðu flýtt sér svo við málið að þeir hefðu ekki gætt að því að hafa réttar heimildir til fjárfestinganna.

En þá velti ég fyrir mér hvert sé gildi samningsins sem búið er að undirrita. Nú skal ég ekki fullyrða um það. Ég hef ekki svo sem kafað djúpt ofan í það. Mér sýnist þó að ef ríkisfyrirtæki er búið að skrifa undir samning og skuldbinda fyrirtæki sitt og fá þær heimildir uppfylltar sem eru í samningnum, þ.e. samþykki ráðherranna, þá sé búið að gera skuldbindinguna. Ég fæ því ekki séð annað, jafnvel þó Alþingi mundi ekki samþykkja þá tillögu sem fyrir liggur, en að samningunum verði ekki rift án þess að ríkið væri skaðabótaskylt.

Nú er ég ekki að leggja það til, herra forseti, að samningar verði látnir ganga til baka. Ég tel að menn eigi að efna það sem komið er í þessum efnum. En mér sýnast vera einhverjir hnökrar á framkvæmd málsins og vildi gjarnan fá þetta útskýrt svo það lægi hér fyrir.

Í öðru lagi vil ég gera líka aðeins athugasemd við þetta mál út frá sjónarhóli ríkisins sem kaupanda vegna þess að forsaga málsins er sú að iðnrn. fól Orkubúi Vestfjarða að ganga til samninga við seljendur um kaup á þessari hitaveitu. Þær samningaviðræður fóru fram og undirritaður var samningur milli Orkubús Vestfjarða annars vegar og seljanda hins vegar. Þó að það fyrirtæki sé að öllu leyti í eigu ríkissjóðs var fullkomlega heimilt að kaupa það vegna þess að það er hlutafélag. Síðar gerist það að seljendur sjá möguleika á að fá hærra verð fyrir veituna en orkubúið var tilbúið að greiða og þeir bera sig eftir því við Rafmagnsveitur ríkisins og stjórn Rafmagnsveitna ríkisins býður hærra verð en Orkubú Vestfjarða var tilbúið að greiða. Þarna hækkar því verðið um 10 millj. kr. úr 135 millj. í 145.

Ég verð að segja, herra forseti, þó ég skilji fullkomlega sjónarmið heimamanna sem vilja fá sem mest fyrir það sem þeir eru að selja, að mér finnst ekki eðlilegt að ríkið sé að yfirbjóða sjálft sig. Mér finnst það ekki eðlilegt, herra forseti. Ríkisfyrirtækið Rarik er að yfirbjóða ríkisfyrirtækið Orkubú Vestfjarða. Enn óeðlilegra finnst mér það í ljósi þess að Orkubú Vestfjarða á fyrir kaupunum. Sjóðsstaða þess er svo sterk að það getur greitt kaupverðið út í hönd. En Rafmagnsveitur ríkisins eiga ekki fyrir kaupunum og verða að fá lánsfjárheimild af fjárlögum til þess að geta greitt kaupverðið út. (Gripið fram í.) Ég vildi láta þetta sjónarmið mitt koma fram að mér finnst þetta ekki rétt og að ráðherrarnir eigi að reyna að hafa áhrif á framvindu mála á þann hátt að ekki sé verið að tefla saman ríkisfyrirtækjum hvoru gegn öðru. Ég vil að það sjónarmið komi fram í þessari umræðu.

Ég er svolítið hugsi yfir þessum kaupum í ljósi þess að verðið er auðvitað töluvert hátt og að fyrir liggur álit um þessa hitaveitu af hálfu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Það álit var birt í fundargerð sveitarstjórnar Dalabyggðar sl. sumar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eftirlitsnefndin fór ítarlega yfir málefni Hitaveitu Dalabyggðar ehf. Hún kynnti sér m.a. áætlanir um stofnkostnað og rekstur hitaveitunnar frá byrjun, reikningsskil hennar fyrir árið 2002, rekstrarhorfur næstu árin, gjaldskrá hitaveitunnar, yfirlit yfir þróun íbúafjölda Dalabyggðar undanfarin ár, ársverk og tekjur í Dalabyggð, ársverk eftir atvinnuvegum og yfirlit yfir atvinnuskiptingu.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Það er niðurstaða eftirlitsnefndarinnar að miðað við núverandi fjárhagsstöðu og rekstrarforsendur hafi hitaveitan í raun ekki rekstrargrundvöll og fyrirsjáanlegur sé verulegur hallarekstur hennar sem óhjákvæmilega muni þrengja að fjárhag sveitarfélagsins sem ekki er fjárhagslega aflögufært að mati nefndarinnar. Í því sambandi er vakin athygli á að notendur hitaveitunnar eru einungis liðlega helmingur allra íbúa sveitarfélagsins.``

Mat þessara aðila á fyrirtækinu sem ríkið er að kaupa er nú ekki með þeim hætti að ástæða sé til þess af hálfu ríkisins að standa fyrir kapphlaupi sem spennir verðið upp hærra en ella hefði orðið.

Herra forseti. Ég vildi láta þetta koma hér fram og óska eftir skýringum á þessari fram komnu tillögu um heimild til þess að ganga til samninga um kaup á hitaveitunni því ég átta mig ekki alveg á því hvernig á því stendur, nema ef skýringin er sú sem ég gat mér til um.